Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#99
9/8/2018
Vörumerki er verðmæti
Krossmiðlun
UN Women x iglo+indi
LOV
Vörumerki er verðmæti

Vörumerkið er verðmætasta eign fyrirtækisins og þarf að hlúa að því og byggja upp á réttan hátt. Í þeirri uppbyggingu er mikilvægt að allir séu samstíga í kynningarstarfi og annarri meðhöndlun vörumerkisins. Þetta er stór hluti af okkar vinnu hjá Pipar\TBWA og grunnurinn er lagður með aðferðafræði sem kallast Disruption®.

Disruption® er eitt af því sem við höfum innleitt frá alþjóðlegu TBWA-keðjunni. Fjölmargar bækur hafa verið gefnar út um þessa aðferðafræði og við höfum unnið með hana í allmörg ár, en fyrsti hluti þessarar vinnu felst í að skoða markaðinn og samkeppnina fyrir viðkomandi vörumerki. Eftir að samkeppnin hefur verið skoðuð setjum við okkur markaðslega sýn í kjölfarið: Hverjir eru viðskiptavinirnir? Hvernig viljum við vera í framtíðinni? Og loks að gera eitthvað öðruvísi sem vekur athygli. Þegar þessar línur hafa verið lagðar skiptir öllu máli að skilaboðin frá fyrirtækinu séu í samræmi við vörumerki fyrirtækisins.

Hér er hugmyndin mjög mikilvæg til að ná athygli markhópsins og koma skilaboðunum til skila og hún þarf að vera í takt við stefnu vörumerkisins. Alexander Nix frá Cambridge Analytics hélt því fram á ráðstefnu í Hörpu fyrir um ári síðan að tímar Mad Men væru liðnir og tímar Data Men teknir við. Nú snúist allt um stafræn gögn, tölfræði og upplýsingar og að auglýsingarnar sjálfar skipti engu máli. Ég get ekki tekið undir þetta með honum, en það er alveg ljóst að miðlasamsetningin hefur breyst mikið og tölfræði um árangur er aðgengilegri núna en nokkru sinni fyrr. Það er hægt að gera árangursgreiningar með markaðssetningu á netinu og stilla af herferðir á meðan þær eru í gangi. Þessi nýja hlið markaðssetningar verður sífellt fyrirferðarmeiri í okkar vinnu á Pipar\TBWA.

Framtíðin er því mjög spennandi í auglýsingalandi og breytingarnar eru örar. Hvernig við höldum áfram að þróa og byggja upp vörumerki og á sama tíma að markaðssetja þau í flóknum heimi miðla er áskorun okkar næstu árin.

Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri

Viðtal við Guðmund í Viðskiptablaðinu

Krossmiðlun

Markaðsráðstefnan Krossmiðlun er viðburður sem markaðsfólk vill ekki láta framhjá sér fara. Hún verður haldin í fimmta sinn þann 14. september nk. á Grand Hótel Reykjavík og er að þessu sinni helguð skapandi notkun gagna í markaðssetningu. Aðalfyrirlesari verður Baker Lambert, Global Data Director hjá TBWA\Worldwide.

Lambert var enn í háskóla þegar hann hóf að aðstoða Omniture við þróun vef- og farsímagreininga, eyddi síðan áratug hjá ýmsum fyrirtækjum við þróun og fínstillingu allt frá flugmiðstöðvum til alþjóðlegra fjármálaforrita, en frá 2012 hefur hann unnið að fjölda árangursríkra herferða hjá TBWA, meðal annars fyrir Nissan, Aribnb, Gatorade, Adidas, Twitter og GoDaddy. Í daglegu starfi sínu segist hann blanda saman gagnainnsæi, rökfræði og sköpunargáfu til að hraða á framtíðinni. Lambert er ekki einhamur maður því í „frítíma“ sínum hefur hann einnig aðstoðað bæði Nasa og SpaceX í ýmsum verkefnum.

Meðal annarra fyrirlesara verða Anastasia Garcia, Content Director hjá TBWA\Worldwide og Edda Blumenstein, ráðgjafi í Omni Channel stefnumótun.UN Women x iglo+indi

Annað árið í röð taka UN Women og iglo+indi höndum saman og bjóða empwr-peysuna til sölu, en peysan er hönnuð bæði fyrir börn og fullorðna og er pastelbleik að þessu sinni. Allur ágóði af sölu peysunnar rennur til neyðarathvarfs UN Women fyrir Róhingjakonur á flótta í Bangladess.

Líkt og í fyrra unnum við með UN Women og iglo+indi að undirbúningi átaksins og vinnslu á kynningarefni en það var Elísabet Davíðsdóttir sem tók myndirnar í ljósmyndastúdíói Sissu.

Peysan fer í sölu á www.igloindi.com þann 14. ágúst.LOV

Sumardrykkurinn LOV frá Ölgerðinni hefur rækilega slegið í gegn í sumar. Í drykknum mætast hið gamla góða Egils Límonaði og Tinda vodka. Það má með sanni segja að LOV sé góður frændi hins sívinsæla Gin og Grape sem hefur fengist um nokkurt skeið.

Umbúðirnar fyrir þennan góða og svalandi drykk voru hannaðar hjá okkur. One LOV!


Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.