Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#107
4/4/2019
TÆKIFÆRI Á TÍMUM BREYTINGA
PÁSKASPÁ GÓU 2019
PÁSKABORGARINN Á GRILL 66
HR(A)UN
UPPSKERUHÁTÍÐIR Í MARS
RÁÐSTEFNAN ER Á MORGUN!
TÆKIFÆRI Á TÍMUM BREYTINGA

Margt bendir til að hagvöxtur sé að minnka. Ferðamönnum fækkar, loðnan týnd eða farin. Útflutningur dregst saman. Varfærnari einkaneysla. Það er nóg að skoða fréttamiðla til að átta sig á þessu og þarf raunar ekki fréttamiðla til. En það er einmitt á tímum slíkra breytinga sem stórkostleg tækifæri skapast til að gera vel og ná árangri. Við vitum öll að þetta er rétti tíminn öðrum fremur til þess að vanda sig í markaðsmálum. Vindhögg eru dýr og ómarkviss og um að gera að nýta vel það markaðsfé sem er til ráðstöfunar. Í fyrsta lagi þarf að huga að því að lykilskilaboð komist vel til skila í öllu markaðsefni ásamt því að ná til rétta fólksins. Það er vel þekkt að fyrirtæki sem fjárfesta í markaðsmálum á tímum samdráttar hafa möguleika á að auka hlutdeild sína á auglýsingamarkaði (share of voice) með lægri tilkostnaði og í kjölfarið markaðshlutdeild sína. Þetta leiðir til meiri arðsemi af því fé sem varið er til markaðsmála.

Þessi fyrirtæki öðlast samkeppnisforskot með því að ná hlutdeild frá öðrum sem draga úr fjárfestingu í markaðsmálum á sama tíma. Sé vandað til verka fá vörumerkin að skína sem skærast, til dæmis með því að vinna gott og faglegt efni, skerpa skilaboðin og koma þeim á hárrétta staði. „Hagstæð“ gylliboð um góð birtingapláss streyma inn og það getur verið freistandi að taka þeim. En lægsta birtingatilboðið á markaðnum hverju sinni er kannski ekki það sem skilar þeim árangri sem ætlast er til. Því er full ástæða til að benda á að fá fagfólk í lið með sér bæði til að meta hvort það borgi sig að taka slíkum tilboðum og eins til að vinna markaðsefnið og koma réttu skilaboðunum á framfæri. Því þegar allt kemur til alls er aðalatriðið ekki fjöldi birtinga heldur að „birta betur“ þ.e. ná til rétta hópsins á sem hagstæðastan hátt með vönduðu efni.

PÁSKASPÁ GÓU 2019

Páskaleikur Góu fór í loftið í vikunni og óhætt að segja að hann hafi slegið rækilega í gegn. Leikurinn er í grunninn byggður á afar vel heppnuðum leik sem við smíðuðum af sama tilefni í fyrra en 2019-módelið er þó um margt ansi ólíkt fyrirrennaranum. Þannig hefur viðmótið allt verið uppfært, umfangið stækkað og smáatriðum fjölgað – í stuttu máli nýttum við okkur vitneskju síðasta árs til þess að búa til enn skemmtilegri upplifun. Okkar reynsla er sú að þegar vel er að hlutum staðið geti flestir skemmt sér ágætlega við svona hæfilega alvarlega skemmtun sem best sést á því að sólarhring eftir að herlegheitin fóru út á rafbrautirnar höfðu 10% þjóðarinnar tekið þátt. Og auðvitað skemmir möguleikinn á fríu súkkulaði ekki fyrir.

Líkt og í fyrra fórum við í samstarf með Silfru sem forritaði leikinn og nýttist fyrri reynsla okkur afar vel í því samstarfi.

Smelltu hér til að takast á við páskaspá Góu 2019.

PÁSKABORGARINN Á GRILL 66

Grill 66 á Olísstöðvunum fékk verðlaunakokkana Viktor Örn Andrésson og Hinrik Örn Lárusson hjá Lux veitingum til að setja saman páskaborgara, sem seldur verður undir nafninu Shamrock, einungis í apríl. Viktor Örn vann brons í Bocuse d'Or, heimsmeistarakeppni matreiðslumanna 2017 og Hinrik Örn vann silfur á Norðurlandamótinu Nordic Junior Chefs 2018. Shamrock er safarík bragðlaukaveisla sem á vafalaust eftir að gleðja margan svangan ferðalanginn næstu vikur. Þeir kynna hann sjálfir í auglýsingum og myndböndum.

HR(A)UN

Daginn sem skorsteinn Sementsverksmiðjunnar var felldur var skyggnið slæmt. Þess vegna sáum við ekkert hér yfir flóann sem var svekkjandi því Akranes blasir annars við okkur héðan úr Guðrúnartúninu þegar best lætur. Við fylgdumst þó með í beinni útsendingu á netinu og gátum samhliða því búið til okkar eigin útgáfu af þessum tímamótaviðburði fyrir Góu.

UPPSKERUHÁTÍÐIR Í MARS

Í mars voru veitt verðlaun bæði í Lúðrinum hjá ÍMARK og hjá FÍT, félagi íslenskra teiknara. Við fengum sex tilnefningar til Lúðursins og einn fallegan Lúður í hús fyrir UN Women – Kynbundið ofbeldi í flokki almannaheillaauglýsinga. FÍT keppnin er haldin árlega og þar er keppt um það besta í grafískri hönnun og myndskreytingum á Íslandi. UN Women – Kynbundið ofbeldi hlaut þar verðlaun fyrir bestu herferð og jafnframt fékk verkefni fyrir Stígamót, Sjúk ást – dagur nótt skýli viðurkenningu. Pipar\TBWA hreppti annað sæti í könnun MMR meðal 350 stjórnenda markaðsmála stærstu auglýsenda landsins en niðurstöður þessarar könnunar eru alla jafna birtar á ÍMARK-deginum.

RÁÐSTEFNAN ER Á MORGUN!

RIMC ráðstefnan um stafræna markaðssetningu er á morgun, 5. apríl, á Grand Hótel og stendur frá kl. 8:00 til 18:00. Tíu frábærir fyrirlesarar með fjölbreytta þekkingu og reynslu úr faginu fræða ráðstefnugesti um allt það nýjasta í netmarkaðssetningu. Fyrirlesarar eru frá Google, Ikea, Shopify, Lego og síðast en ekki síst okkar maður hjá Facebook eins og við greindum frá í Fimmtudegi marsmánaðar.
Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og fyrirlesarana má finna hér.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.