Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#118
2/4/2020
Markaðsmál á veirutímum
Talaðu við vegginn – KFC
Kvika – Hvatningarsjóður iðnnema
Verum róleg og þvoum hendur
5 mikilvæg atriði á tímum COVID-19
Markaðsmál á veirutímum

Það hefur allt breyst í lífi okkar og þar með talið hvernig við vinnum markaðsmálin. Neysluvenjur hafa breyst verulega með samkomubanni og flestir verja miklum tíma heima. Mikilvægt er að hlúa að sér og sínum til að komast í gegnum þetta tímabil. Óvissan er mikil og það er alltaf erfitt að takast á við það, en markaðsfólk þarf að gera plön og vera reiðubúið.

Mikil vinna hefur farið í að bregðast við. Koma skilaboðum á framfæri um það hvernig við gerum hlutina einmitt núna. Viðskiptin ganga öðruvísi fyrir sig þessa dagana. Netverslun hefur aukist, æfingatól renna út eins og heitar lummur. Tækifærin birtast á ýmsum stöðum og við verðum öll að hugsa út fyrir kassann. Sumir hafa gert þetta vel, en aðrir gætu hugað betur að þessu. Það er verkefni okkar markaðsfólks að finna nýjar leiðir og nýta tækifærin.

Nú er tilvalið að skoða hvernig nýta má vörumerkin við þessar aðstæður, til dæmis til almannaheilla. Það þýðir að skilaboð ættu að breytast og snúast um hvernig hægt er að hjálpa fólki í gegnum þetta tímabil. Markaðsskilaboð ættu að endurspegla það sem fólk vill vita um, eins og hvernig á að nálgast helstu nauðsynjar eða halda heilsu meðan samkomubann varir.

Það er kannski ekki rétti tíminn núna að opna ný svið eða ráðast í stórkostlegar nýjungar. Tónninn í skilaboðum vörumerkja ætti frekar að snúast um hvernig hægt er að létta undir á þann hátt sem endurspeglar tilgang vörumerkjanna. Sérstaklega hefur verið ánægjulegt að sjá hvernig Íslensk erfðagreining hefur gengið fram fyrir skjöldu í þessu verkefni. Að fara út í aðgerð sem beinlínis hjálpar til við að berjast við vírusinn hefur klárlega styrkt vörumerkið Íslenska erfðagreiningu að ekki sé talað um forstjórann, Kára Stefánsson.

Það eru ekki öll fyrirtæki í þessari aðstöðu, en við höfum séð mörg tilfelli þar sem fyrirtæki breyta aðferðum til að „verja“ viðskiptavini og starfsfólk. Sem dæmi hefur KFC lagt alla áherslu á lúgusölu með yfirskriftinni „Talaðu við vegginn“ og „100% snertilausar greiðslur“.
Þetta hefur skilað þeim velvild og auknum viðskiptum í gegnum lúguna.

Olís hefur jafnframt lagt aukna áherslu á lúgur og snertilaus viðskipti. Apótekarinn og Lyf & heilsa senda LYFIN HEIM. Fréttir berast sömuleiðis af fjölda fyrirtækja sem leggja heilbrigðisstarfsfólki lið með ýmsu móti með gjöfum eða annarri aðstoð. Allt skiptir þetta máli.

Fróðlegt verður að sjá hvernig við komumst út úr þessum tímum. Ljóst er að þjóðin þarf á skjótum bata að halda og öflugri viðspyrnu þegar rofar til. Markaðs- og auglýsingafólk ætlar svo sannarlega að setja sín lóð á vogarskálarnar í þeirri uppbyggingu svo þjóðfélagið komist sem fyrst í eðlilegt horf.

Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri og formaður SÍA

Talaðu við vegginn – KFC

Bílalúga er nú orðin tákn fyrir almannaheill. KFC hefur alltaf verið framarlega í sínum lúgumálum og lúga á hverjum einasta KFC-stað. Fyrst keyrum við upp að veggnum sem sýnir okkur það sem í boði er. Út um hátalararist á veggnum berst rödd manneskju sem spyr hvað megi bjóða okkur. Við tölum beint á vegginn, sjáum ekki nokkurn mann. Síðan stoppum við í hinni eiginlegu lúgu. Þar sést mögulega glitta í líf fyrir innan en samskiptin fara fram í gegnum hljóðnema og hátalara. Við greiðum snertilaust, fáum vörurnar afhentar í hólf og keyrum í burtu án nokkurra beinna samskipta.

Sumum finnst óþægilegt að tala við vegg. En á tímum Covid-19 eru kostirnir ótvíræðir.

Kvika – Hvatningarsjóður iðnnema

Einn af hvatningarsjóðum Kviku banka er Hvatningarsjóður iðnnema, samstarfsverkefni Kviku og Samtaka iðnaðarins sem ætlað er að efla umræðu og vitund um mikilvægi iðn- og starfsnáms og þýðingu starfa sem því tengjast fyrir íslenskt atvinnulíf.
Við bjuggum til kynningarmyndband undir slagorðinu „Láttu hlutina gerast“. Markmiðið var að sýna að með réttum aðferðum er hægt að gera mikið úr litlu og umræddar aðferðir lærast í iðnnámi. Vandamálið er nefnilega yfirleitt ekki að við getum ekki látið hlutina gerast heldur miklu oftar að við höfum okkur ekki í að framkvæma þá. Verkefnið var eingöngu unnið af okkar fólki, hugmyndavinna, leikstjórn og vinna á setti, eftirvinnsla og birtingar.

Verum róleg og þvoum hendur

Sum verkefni eru ekki búin til fyrir viðskiptavini þótt slíkt sé auðvitað langalgengast. Hér vinnur aragrúi af skapandi fólki sem fær hugmyndir á færiböndum og sumar þessara hugmynda eru ekki ætlaðar til að selja nokkurn skapaðan hlut. Stundum langar okkur bara til þess að hrósa fyrir það sem vel er gert og stundum viljum við koma einhverju á framfæri, nafnlaust eða í okkar nafni.

Þannig kviknaði þessi ofurlitla hugmynd. Einhver á stofunni horfði yfir öxlina á einhverjum öðrum á sá var að fikta með hið alþekkta mótíf KEEP CALM AND CARRY ON sem breska ríkisstjórnin notaði sem hvatningu til borgara sinna í aðdraganda seinna stríðs. Okkar skilaboð eru einföld:

VERUM RÓLEG OG ÞVOUM HENDUR

Fjölmiðlar, áhrifavaldar og aðrir birtingaaðilar tóku vel í hugmyndina og þannig hefur þessi litla sameiningarherferð okkar verið ansi hreint sýnileg.

Svo höldum við bara áfram, hlýðum Víði, verum róleg og þvoum hendur.

5 mikilvæg atriði á tímum COVID-19
  • Hefur þú breytt Google My Business-upplýsingum í tengslum við breyttan afgreiðslutíma?
  • Google leitarorðaherferðir – eiga þær að halda áfram eða er best að stöðva þær?
  • Hefur þú sett inn upplýsingar á vefsíðu fyrirtækisins sem og aðra miðla vegna COVID-19?
  • Ertu með vörur sem gætu hentað vel í sölu en ert ekki að vekja athygli á?
  • Eru herferðir í gangi á Facebook og Google sem ættu ekki að vera í gangi og eru að brenna peningum?

Það er að mörgu að huga í markaðs- og samskiptamálum á þessum tímum og gríðarlega mikilvægt að upplýsa viðskiptavini og aðra um allar þær breytingar sem fyrirtæki þurfa að ráðast í vegna COVID-19. Allir viðskiptavinir kunna að meta slíkt og verða ánægðir með að fá upplýsingar, t.d. um styttri afgreiðslutíma eða jafnvel tímabundna lokun vegna COVID-19. En ekki síst er mikilvægt að sú fjárfesting sem fer í markaðsstarf sé ekki til einskis heldur sé henni vel varið og að vörumerkið komi sterkar út þegar þetta ástand fjarar út.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.