Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#126
8/4/2021
Gos og TBWA
Herra Hnetusmjör snýr aftur
BM Vallá stefnir á núllið
5 á Lúðurinn
Pipar\Engine með 11 tilnefningar
Gos og TBWA

Fyrir rúmlega ári síðan „lenti“ meginþorri þjóðarinnar í nýjum og framandi fjar-veruleika og reyndi eftir bestu getu að fóta sig og láta hlutina ganga þannig. Skelltum heimilum okkar meira og minna í lás og vorum sjálf fyrir innan. Allt árið hafa skipst á skin og skúrir, búbblurnar hafa bólgnað út og skroppið saman eftir stöðu smita hverju sinni. Í hvert sinn sem við höldum að við séum að komast vesturyfir kemur eitthvað nýtt upp á og við rennum niður skriðuna á ný.

Svo kom eldgos, Geldingadalir og Merardalir á hvers manns vörum. Og það sem meira er, það var og er nokkuð aðgengilegt að sjá náttúruundrið, sérstaklega ef þú átt nesti og nýja skó, höfuðljós og brodda, eitthvað hlýtt, já og vindskel. Tíminn leiðir í ljós hvort þetta eldgos verði hluti af endurreisninni eftir faraldurinn. Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem náttúruöflin legðust á árarnar með oss Íslendingum.

Eins og alkunna er þá heitir stofan okkar Pipar\TBWA en skammstöfunin TBWA merkir að við erum hluti af TBWA-auglýsingastofukeðjunni sem telur yfir 300 stofur um heim allan. Þetta samstarf gefur okkur kost á að nýta okkur upplýsingar frá systurstofum víðsvegar um heiminn, læra af þeim og kafa ofan í visku- og upplýsingabrunn kollega okkar og skiptast á dýrmætri reynslu.

Á dögunum fengum við fréttir af því að TBWA\Worldwide var útnefnd af Fast Company árið 2021 á topp tíu lista sem frumlegasta stofa í heimi, nánar tiltekið hin þriðja í röðinni, að þessu sinni fyrir tvær Apple® auglýsingar sem kallaðar eru hinar bestu í faraldrinum. Þökk sé TBWA þá er nú algjör óþarfi að fara til Pétursborgar til að skoða listaverkin í Vetrarhöllinni, við getum skroppið í sýndarveruleikaferð sem farin var – og skotin á iPhone í einni töku (rúmlega 5 klst. löng mynd). Til hamingju TBWA.

Herra Hnetusmjör snýr aftur

Vinahópur Olís er vildarklúbbur sem lykilhafar eru sjálfkrafa meðlimir í. Auk afsláttar af eldsneyti, veitingum og bílavörum bjóðast ýmiskonar afsláttarkjör og sértilboð hjá fjölda samstarfsaðila, sem of langt er upp að telja. Til að koma einmitt þeirri tilfinningu áleiðis var ákveðið að ganga til samstarfs við „hraðasta rappara landsins“, Árna Pál Árnason, betur þekktan sem Herra Hnetusmjör, en hann skartaði einmitt Olís-peysu á Menningarnótt 2019, sælla minninga.
Í auglýsingunni rúntar Herrann um með sínum nánasta vinahóp og því nærtækt að veiða í þau hlutverk „betri helminginn“ Söru Linneth og hirðplötusnúðinn Egil „Spegil“.
Tónlistina gerði Pálmi Ragnar Ásgeirsson í Stop Wait Go í nánu samstarfi við Herrann sjálfan. Allan Sigurðsson leikstýrði og Hannes Þór Arason framleiddi fyrir Pelikula. Bernharð Kristinn sá um ljósmyndun.

BM Vallá stefnir á núllið

BM Vallá hefur sett sér það metnaðarfulla markmið að öll steypuframleiðsla og starfsemi fyrirtækisins verði kolefnishlutlaus árið 2030. Það er mikil áskorun fyrir fyrirtæki af þessari stærðargráðu í byggingageiranum en á næstu misserum verður ráðist í markvissar aðgerðir til að núllinu verði náð en þær eru að stærstum hluta kortlagðar nú þegar.
Kynningu á verkefninu var hleypt af stokkunum um páskana með sjónvarpsauglýsingu þar sem risastóru steyptu núlli bregður fyrir ýmist í íslenskri náttúru, í höfuðborginni eða á byggingarsvæðum. „Timelapse“-myndatakan var í höndum Snorra Sturlusonar.

5 á Lúðurinn

Í dag birtust tilnefningar til Íslensku auglýsingaverðlaunanna sem veitt eru ár hvert fyrir framúrskarandi auglýsingaefni. Pipar\TBWA hlýtur 5 tilnefningar sem hér segir:

KFC – Íslenskt í 40 ár
• Herferð ársins
• Kvikmynduð auglýsing ársins
• Prentauglýsing ársins

Stígamót – Sjúkást
• Almannaheill – Sjónvarpsauglýsing ársins
• Almannaheill – Opinn flokkur

Við þökkum KFC og Stígamótum kærlega fyrir samstarfið í þessum verkefnum og hlökkum til hátíðarinnar sem fram fer föstudaginn 16. apríl.

Pipar\Engine með 11 tilnefningar

Við höfum átt býsna miklu láni að fagna í Pipar\Engine að undanförnu, jafnt hvað varðar verkefni og tilnefningar á sviði stafrænna auglýsinga. Nýjasti viðskiptavinurinn er sænska Voi, eitt stærsta fyrirtæki í Evrópu sem framleiðir rafskutlur. Voi valdi Pipar\Engine til að sjá um dreifingu á stafrænum miðlum (performance) þ.e. sjá um stafrænar auglýsingar fyrirtækisins á Google, Facebook, Instagram, Snapchat og TikTok. Þetta er mikil viðurkenning á okkar færni og þekkingu.

Því til viðbótar fengum við síðan heilar 11 tilnefningar í The European Search Awards, sem líkja má við EM í fótboltanum, en það mesta sem okkur hefur hlotnast hingað til í sterkri samkeppni við stærstu stofurnar í Evrópu sem sumar telja allt að 500 manns. Þetta er mikil viðurkenning á okkar vinnu, enda erum við stolt og ekki síður fyrir hönd þessara viðskiptavina okkar sem eru norska ullarvörumerkið Lanullva, Olís og Verkfærasalan.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.