Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#103
6/12/2018
SUMAR GJAFIR ERU MEIRA EN GJAFIR
Te & kaffi fyrir jólin
Komdu inn í hlýjuna – í Kringlunni
100 ára fullveldisafmæli
Emmessís-stangir
TBWA valin alþjóðleg stofa ársins
SUMAR GJAFIR ERU MEIRA EN GJAFIR

Það er óhætt að segja að jólaauglýsinga bresku verslunarkeðjunnar John Lewis sé beðið með eftirvæntingu ár hvert. Gríðarlega mikið er lagt í verkefnið og margar þessara auglýsinga orðnar að klassík sem heimafólk rifjar upp aftur og aftur og allir hafa á þeim skoðanir eða eiga sína uppáhalds. Jólaauglýsingin 2018, sem ber nafnið „Drengurinn og píanóið“ er svo sannarlega engin undantekning og slær líklega einhvers konar met í umtali.
Í september lak það út að sjálfur Elton John myndi leika í auglýsingunni og það eitt fékk marga til að súpa hveljur. Þegar afurðin birtist svo um miðjan nóvember varð enginn fyrir vonbrigðum. Auglýsingin sýnir okkur brot úr ævi og tónlistarsögu Eltons í öfugri tímaröð með óvæntu lokatvisti, og er afskaplega tilfinningarík og vönduð í alla staði. Sérstaka athygli vekur vel heppnað leikaravalið en Elton bregður fyrir á mörgum tímaskeiðum. Og móðirin á stórleik í örstuttum svipbrigðasenum sem segja stóra sögu. Sjón er sögu ríkari.

ohn Lewis tók m.a.s. auglýsingagerðina skrefinu lengra þetta árið því í versluninni á Oxford Street er hægt að ganga inn í hluta leikmyndarinnar; búningsherbergið, hljóðverið og stofuna hanst Eltons úr auglýsingunni, og nafni verslunarinnar var breytt í bara „John“.

En plottið þykknar. Waitrose & Partners nefnist keðja matvöruverslana í Bretlandi. Í nýrri auglýsingu frá þeim fyrir hið undarlega jólabrauð Stollen, er vitnað mjög hressilega í áðurnefnda auglýsingu John Lewis – og mörgum þótti sem varpað væri talverðum skugga á stórvirkið með Elton, sem kallað hafði fram ófá tárin. Um það má að sjálfsögðu deila, og almennt ræða hvort uppátækið sé smekklegt eður ei.

Við hér uppi á Íslandi hrópuðum að sjálfsögðu „Má þetta?“ „Hvar er höfundarrétturinn?“ „Ætla þeir líka að borga Elton?“ Við nánari athugun kemur þó í ljós að þetta á sér allt eðlilegar skýringar. Waitrose & Partners er í eigu John Lewis og fullt samstarf var milli keðjanna um auglýsingarnar tvær allt frá upphafi.

Te & kaffi fyrir jólin

Jólin eru annasamur en skemmtilegur tími hjá Te & Kaffi, bæði í kaffibrennslunni og á kaffihúsunum. Tímabundnar vörur eins og jóladrykkirnir Grýla og Leppalúði skutu upp kollinum í lok nóvember og Jóla- og Hátíðarkaffið eiga sinn fasta sess á heimilum um allt land. Útlitið á umbúðum og kynningarefni vísar í notalegar stundir með fjölskyldu og vinum, með örlítilli skvettu af nostalgíu.

Komdu inn í hlýjuna – í Kringlunni

Jólin eru tími gjafa, jólasveina, minninga, góðs matar og síðast en ekki síst tími barnanna. Flest tengjum við jólin við hluti úr minningabanka bernskunnar og ef til vill er það klisja en heilluðumst við ekki öll af snjókúlunni sígildu þegar við vorum börn? Jólaauglýsing Kringlunnar endurspeglar þetta, einföld en stílhrein og sýnir hillu í líki jólatrés með fallegum gjöfum – og snjókúlu auðvitað. Þetta jólatré var sérsmíðað af laghentum hönnuðum hjá okkur og er grunnurinn að öllu jólamyndefni Kringlunnar í ár.

100 ára fullveldisafmæli

Á þessu ári hefur 100 ára fullveldisafmæli okkar Íslendinga verið fagnað um allt land með margvíslegum hætti og fjölmörgum viðburðum. Við tókum þátt í 100 ára afmælinu eins og fleiri og byrjuðum okkar veislu með því að teikna merkið fyrir hátíðahöldin. Það gerðum við raunar um mitt ár 2017. Afmælisdagurinn sjálfur var – eins og alþjóð veit – núna 1. desember og fyrir hann unnum við kynningarefni, auglýsingar í fjölmiðlum o.fl.

Emmessís-stangir

Ís er alltaf jafn ofboðslega góður, finnst okkur sumum að minnsta kosti. Nýlega hönnuðum við seríu af íspinnaumbúðum fyrir Emmessís. Það voru þessi nettu klassísku pinnar sem fengu nýtt útlit, pinnarnir sem er alveg nauðsynlegt að eiga alltaf svolítið af í frystinum til að gæða sér á – og mögulega einhverjum börnum líka. Hver pinnategund fékk sérteiknaðan fulltrúa, sem allir eiga það sammerkt að búa á köldum slóðum: selur, mörgæs og hvítabjörn enda er ís kaldur.

TBWA valin alþjóðleg stofa ársins

Í vikunni fengum við þær ánægjulegu fréttir að TBWA hafi enn og aftur verið valin „Alþjóðleg stofa ársins“ af auglýsingatímaritinu Adweek.

Í rökstuðningi Adweek segir meðal annars að á árinu 2018 hafi TBWA búið til auglýsingar sem eru með þeim bestu í heimi, byggt upp ný viðskiptatengsl í öllum heimshornum, enn aukið fjölbreytileikann í hópi stjórnarfólks, styrkt stöðu sína á lykilsvæðum eins og Kína og kynnt til leiks nýjar aðferðir sem endurskilgreina virði þess starfs sem auglýsingastofur geta unnið fyrir viðskiptavini sína.

Í bréfi frá Troy Ruhanen, alþjóðlegum forstjóra TBWA-keðjunnar segir meðal annars:

„Þetta er mikill heiður og staðfestir árangur allra stofanna í keðjunni og gæði þeirrar skapandi vinnu sem við vinnum um allan heim. Þótt margar stofanna hafi verið valdar stofur ársins í sínum löndum er þessi titill, „Alþjóðlega stofa ársins“, sérstaklega ánægjulegur, því hann snýst um okkur öll. Og sýnir vel þann kraft sem býr í rúmlega 11.000 skapandi höfðum.“

Við tökum að sjálfsögðu undir hamingjuóskir Troys til félaga okkar um allan heim og höldum áfram að vinna með bros á vör.

Hér má lesa umfjöllun Adweek.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.