Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#114
5/12/2019
Hvenær byrja jólin?
KFC í sparifötum
Súpu takk! Pakka henni inn
Jafnvægið í fundarherberginu
Pantone velur lit ársins
Íslenskt sjónvarpsefni – já takk!
Hvenær byrja jólin?

Á hverju ári rekum við upp stór augu þegar við sjáum fyrstu jólaauglýsingarnar og útstillingar í búðum. Við fussum svolítið og ræðum fram og til baka hvort þetta sé fyrr eða seinna á ferðinni en í fyrra og hvort þetta sé ekki algerlega ótækt? En samt gleðjumst við innst inni. Jólin eru góður tími og jólaauglýsingarnar segja okkur að þeirra sé kannski ekki svo ýkja langt að bíða.

Jólin koma snemma á auglýsingastofum og heyrast yfirleitt nefnd um leið og sumartilboðin klárast. Oftast eru stærri herferðir tilbúnar alls ekki síðar en í desemberbyrjun og þannig er jólastressið oftar en ekki mest í nóvember. Kannski má segja að hinir umdeildu útsöludagar Black Friday og Cyber Monday marki ákveðið hámark og eftir það látum við jólastressið líða úr okkur. Ojæja, kannski ekki alveg. Vissulega er nóg að gera þessa dagana en brjálæðið sem við lögðum drögin að á haustmánuðum hefur núna færst yfir í verslanirnar og við öndum örlítið léttar. Örlítið.

Ekki svo að segja að jólin í auglýsingalandi séu ekkert annað en stress og skrum, skárra væri það nú. Erlendis tíðkast víða að láta frá sér stórar sjónvarpsauglýsingar af gamla skólanum, stórar í sniðum og framleiðslu, sem eru til þess ætlaðar að mjólka fram í okkur jólaskapið, jú og auðvitað að halda ímynd vörumerkjanna sem undir kvitta á lofti. Þetta árið hefur gefið vel á þessum vettvangi. Okkar uppáhald hlýtur að vera þessi vasaklútastuttmynd frá Apple.

Og svo fær fjarskiptarisinn Xfinity sérstök nostalgíuverðlaun fyrir þessa minningasprengju fyrir okkur miðaldra fólkið.En hvenær megum við þá láta glitta í jólin? Eigum við að halda í okkur eins og leikhúsgestur rétt fyrir hlé, engin jólalög fyrr en í desember, seríur upp á aðventunni og restin af skrautinu á Þorláksmessu? Auðvitað ekki. Jólin mega koma eins snemma eða seint og okkur langar til. Svo lengi sem öllum líður vel og við skemmum ekki fyrir öðrum þá skulum við bara jólast alla mánuði ársins ef því er að skipta.

Nú látum við jólastressið líða úr okkur hérna á stofunni og við tökum því brosandi sem kemur. Þetta verða góðir lokadagar ársins 2019.

Gleðileg jól!

KFC í sparifötum

Á jólunum förum við mannfólkið í sparifötin og ekkert því til fyrirstöðu að maturinn okkar geri það líka. Nákvæmlega hvers vegna það ætti að gerast er óljóst nema þá til þess að leika sér með tungumálið og búa til skemmtilegt myndmál. Og þá er ekki sama hvernig það er gert. „Sparifötur KFC“ hljómar til dæmis ekki jafn skemmtilega og „KFC í sparifötum“ eins og glöggir lesendur átta sig á.

Við erum frekar ánægð með þetta. Við bíðum svo bara spennt eftir KFC í sundfötum og íþróttafötum og útifötum og vinnufötum og hvað sem upp í hendur okkar dettur. Koma tímar, koma föt(ur).


Súpu takk! Pakka henni inn

Við hönnuðum umbúðir utan um 1944 súpurnar vinsælu sumar sem leið. Umbúðirnar eru pappabox sem þola raka í kælum verslana vel. Litir eru nokkuð sterkir og áberandi með glaðlegum ljósmyndum af grænmeti. Þrjár súpur í þessari vörulínu eru nú þegar komnar á markað og hefur verið mjög vel tekið.

Jafnvægið í fundarherberginu

Við erum meðal samstarfsaðila Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis sem snýr að því að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja á Íslandi. Verkefnið er á vegum FKA en aðrir samstarfsaðilar eru Sjóvá, Deloitte, Árvakur og Forsætisráðuneytið.
Til að kynna ráðstefnuna og viðurkenningarathöfnina „Jafnvægi er ákvörðun – Jafnvægisvogin 2019“ framleiddum við táknrænt myndband sem lýsir stöðunni eins og hún er í dag hvað varðar kynjajafnvægi í framkvæmdastjórnum. Aðeins 26% þeirra sem sitja í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi eru konur.

Pantone velur lit ársins

Pantone hefur nú valið lit ársins 2020, sígildan bláan, nánar tiltekið lit númer 19-4052. Í kynningu frá Pantone segir að liturinn gefi oss tilfinningu af friðsæld og sálarró, sé athvarf þjáðum. Nú á tímum æðir tæknin svo hratt áfram að það gefist vart tækifæri til að meðtaka hana hvað þá að tileinka sér hana. Forstjóri Pantone kveður raunar upp úr með það að nú lifum við á tímum sem krefjist trausts og stöðugleika. Við getum alltaf treyst á þann bláa sígilda sem geti verið hvatning til að slaka á, horfa fram hjá hinu augljósa, kafa dýpra og opna á meiri samskipti. Einmitt það.

Íslenskt sjónvarpsefni – já takk!

Áhorfendur hafa tekið íslensku sjónvarpsefni haustsins fagnandi því áhorfsmestu dagskrárliðir allra stöðva eru framleiddir á okkar ylhýru tungu. Nýir þættir eins og Pabbahelgar, Kappsmál, Föstudagskvöld með Gumma Ben og Venjulegt fólk 2 hafa fallið í kramið og síðari þáttaraðir Vikunnar, Landans, Gulla byggis, Leitarinnar að upprunanum og Með Loga, ásamt fyrri seríu Venjulegs fólks, halda miklum vinsældum ásamt mörgum öðrum íslenskum þáttum. Eru þá ótaldir fastir vinsælir dagskrárliðir á borð við fréttir, íþróttir og fréttatengt efni. Pipar\MEDIA hefur verið með nefið ofan í öllum helstu áhorfstölum og sett saman fjölmarga birtingapakka með fléttum af vinsælustu þáttunum í hverjum markhópi. Við hlökkum til að fylgjast áfram með sterku íslensku sjónvarpi í landi þar sem 68% fólks (18–80 ára) hefur aðgang að Netflix.

Byggt á gögnum frá Gallup.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.