Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#123
3/12/2020
Ekki svona nálægt mér
KFC – Íslenskt í 40 ár
Vinnvinn – ráðningar og ráðgjöf
Takk lambakjöt
Klöppum upp jólin
Best hljómar alltaf vel
Ekki svona nálægt mér

YouTube sendir reglulega hugmyndir að einhverju skemmtilegu til að horfa á, tillögurnar sveiflast á skjáinn, algrímið er að störfum. Eitt slíkt myndband bar fyrir augu á dögunum, spjallþáttur þar sem frægt fólk sat í sófa og talaði hvert við annað og þáttastjórnandann. Þegar ég hafði áttað mig á hverjir sátu í settinu, sem er reyndar algjört aukaatriði hér, fann ég þessa óþægilegu tilfinningu sem maður finnur stundum, þegar eitthvað er svo kolrangt. Og hvað skyldi það nú hafa verið? Jú, fólkið sat svo þétt saman, gjörsamlega öxl í öxl og það grímulaust. Það var ekki fyrr en greinarhöfundur, hún/hann/hán, áttaði sig á að myndbandið var frá 2015 að óþægindatilfinningin hvarf. Það ár mátti nefnilega sitja svona þétt saman. Tilfinningin var svipuð því þegar þú sérð að einhver gerir eitthvað af sér og þú veist það. Svipuð tilfinning – ef einhver skyldi kannast við hana – og þegar þú stendur með fernu eða plastpoka og hefur ekkert ílát til að setja það í af því þú ert ekki heima hjá þér innanum flokkunarílátin þín.

Svona er maður, þrátt fyrir allt, snöggur að skipta um siði og venjur, ef maður verður að gera það. Það er kannski einmitt það sem þessi blessaði faraldur er að kenna okkur. Fyrir aðeins örfáum mánuðum hefði greinarhöfundur ekki séð neitt athugavert við að sjá fólk sitja þétt saman á þennan hátt. En núna vitum við að hægt er að skipta um siði og venjur, hægt að breyta hlutum. Rétt eins og við höfum líka lært að flokka, erum að læra að nota fötin okkar betur, nýta hlutina lengur. Að við þurfum ekki að eiga allt og gera allt eða vera eins og allir hinir. Það eru heilmikil verðmæti í því fólgin. Líka fyrir auglýsingastofur. Því í hvert sinn sem nýir straumar og stefnur koma fram þá þarf einhver að segja frá því, forma það, kynna. Auglýsingastofur eru stórir þátttakendur í því. Gleðilega hátíð, öll sömul!

KFC – Íslenskt í 40 ár

Til þess að fagna 40 ára afmæli KFC á Íslandi bjuggum við til alíslenskan Colonel Sanders, en Sanders þessi stofnaði KFC-keðjuna í Kentucky-fylki Bandaríkjanna árið 1930. Með hlutverk ofurstans fer Halldór Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA.
Herferðin er unnin í samvinnu við Halldór og Republik en Magnús Leifsson leikstýrir leikna hlutanum. Svenni Speight tekur ljósmyndir, Margrét Einarsdóttir sér um búninga og Ragna Fossberg um gervið.
Afmælisárið hefur vissulega verið óhefðbundið en ofurstinn hefur fundið ótal leiðir til þess að fagna. Öllum góðum vættum sé lof fyrir lúguna á KFC.

Vinnvinn – ráðningar og ráðgjöf

Vinnvinn er splunkunýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðningum, ráðgjöf og rannsóknum, en að því standa miklir reynsluboltar úr þeim bransa. Þau komu til okkar með þessa skemmtilegu hugmynd að fyrirtækisnafni í farteskinu og fyrsta skrefið var að hanna fyrir þau útlit í hressilegum litum – og þvínæst þessa bráðfínu vefsíðu.

Takk lambakjöt

Íslenskt lambakjöt er nýr viðskiptavinur hjá okkur og við fengum það skemmtilega verkefni á dögunum að ýta úr vör nýrri herferð fyrir innanlandsmarkað. Við hófum leika á nokkrum almennum skilaboðum um náttúruleg gæði þessarar einstöku vöru, en settum svo allt í botn á þakkargjörðardaginn, þar sem Íslendingar voru hvattir til að íslenska þessa ágætu hefð, njóta góðs matar með fjölskyldunni, þakka það sem þakka ber – og um leið lambakjötinu fyrir samfylgdina og allar góðu stundirnar frá landnámi. Við endurtókum svo leikinn með öðrum skilaboðum á fullveldisdaginn, 1. des.

Klöppum upp jólin

Olís tendraði jólaljósin á Klöpp þann 17. nóvember síðastliðinn. Af því tilefni var hent í eitt samfélagsmiðlamyndband, en í því sést að verkefnið gekk ekki átakalaust. Í því má líka mögulega, ef grannt er skoðað, finna tilvitnun í fræga jólabíómynd – og starfsmann taka þátt í Jólakvizzi Olís, sem einnig er farið í loftið.

Best hljómar alltaf vel

Global Marketing Awards eru virt alþjóðleg markaðsverðlaun. The Engine, dótturfyrirtæki Pipars\TBWA, var tilnefnt til þrennra verðlauna í þessari keppni nú nýverið sem fjöldi fyrirtækja sendir inn í árlega. Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að The Engine hreppti aðalverðlaunin í einum af flokkunum sem tilnefndir voru. Það var fyrir herferð fyrir Gray Line Iceland sem snéri sérstaklega að leitarvélamarkaðssetningu (e. PPC/SEM). The Engine og Pipar\TBWA innleiddu herferðir sem höfðu umtalsverð áhrif á fjölgun bókana hjá Gray Line Iceland í ört harðnandi samkeppni á sama tíma og ferðamönnum sem sækja landið heim hefur fækkað töluvert. Við erum verulega ánægð með þessi mikilvægu verðlaun.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.