Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#105
7/2/2019
HVERNIG MUNU NEYTENDUR HAGA SÉR 2019?
CHIZZA – EINS OG PIZZA, BARA BETRA
BRÍFIÐ HANS DAVE TROTT
Stafræna byltingin heldur áfram
HVERNIG MUNU NEYTENDUR HAGA SÉR 2019?

Breska rannsóknar- og greiningarfyrirtækið Euromonitor International sendi frá sér sína árlegu spá um neytendaþróun um miðjan janúar. Í spánni er farið yfir hvaða straumar munu hafa áhrif á hegðun mismunandi neytendahópa og það er ansi áhugavert að skoða topp 10 listann yfir þær stefnur sem munu hafa mest áhrif á neytendahegðun árið 2019.

Öldrunarefi

Eldra fólk vill haga sér, líða og láta koma fram við sig eins og það sé yngra en það er. Fólk lifir lengur og hugsar betur um heilsuna, útlitið og líðan sína. Kynslóðirnar sem eru fæddar eftir seinna stríð, ekki síst í löndum þar sem heilbrigðiskerfi og félagslegar aðstæður eru með besta móti, skeyta því engu þó að aldurinn færist yfir. Stór hluti þessa hóps lítur ekki á sig sem eldri borgara og er jafn framarlega í því að tileinka sér tækninýjungar og fólk fætt á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.

Minna er meira stöðutákn

Neytendur hafna í æ meiri mæli fjöldaframleiddum og almennt útbreiddum vörum og munu á þessu ári frekar velja vörur sem eru einfaldar, meiri gæðaframleiðsla og fela í sér ákveðið stöðutákn. Þetta er þróun sem er í beinu framhaldi af því sem „hipsterarnir“ hafa elst við undanfarin ár: Matur úr héraði, bjór og vín frá handverksbrugghúsum og vörur sem á einhvern hátt er hægt að flokka sem einstakar. Allt til að neytandinn fái tækifæri til að styrkja eigin sérstöðu og tjá einstakan persónuleika sinn.

Smelltu hér til að lesa meira

CHIZZA – EINS OG PIZZA, BARA BETRA

Enda þótt KFC eigi mýmarga fastarétti á matseðli hefur það aldrei stöðvað fyrirtækið í að reyna sig við framsæknar nýjungar. Tímabundin tilboð á hverskonar skemmtilegum útfærslum kjúklingarétta sem eiga það sameiginlegt að vera löðrandi í leynikryddblöndu Sanders eru reglulegar uppákomur og í okkar hlut fellur að breiða út fagnaðarerindið. Um þessar mundir hverfist uppátækjasemin um glæsilegan bræðing sem í fljótu bragði gæti litið út fyrir að vera pizza en er svo sannarlega eitthvað merkilegra og meira. Í staðinn fyrir hefðbundinn og kolvetnaþrútinn brauðbotn finnum við tvær kunnuglegar kjúklingabringur af Zinger-gerð en þar ofan á kveður við tón sem yfirleitt heyrist á veitingastöðum sem selja flatari mat, skvetta af pizzusósu, pepperóní og ostur.

Hér á stofunni smökkum við að sjálfsögðu hvern einasta rétt í nýjungalínu KFC. Framúrskarandi! Lengi lifi Chizza og lengi lifi ofurstinn.

BRÍFIÐ HANS DAVE TROTT

Dave Trott er hönnunarstjóri, listrænn stjórnandi, hugmynda- og textasmiður, rithöfundur og lífskúnstner. Á einföldu mannamáli má bæta við að maðurinn er kjaftfor, miðaldra frá New York og síst verri fyrir vikið. Dave Trott er nefnilega ansi klár, með mikla reynslu og afar virtur á sínu sviði.

Í nýlegri bloggfærslu gerir Trott hið alræmda „brief“ að umræðuefni sínu. Á auglýsingamáli er orðið „bríf“ notað yfir stutt yfirlit verkefnis, ágrip sem búið til er snemma í ferlinu til þess að gefa öllum sem að verkinu koma fyrirmæli um hvernig leyst skuli úr því sem framundan er. Og það er einmitt kjarni málsins; hvenær í ferlinu á að hefja leitina að úrlausn vandans? Trott vill í grein sinni meina að stærstu mistök fólks við bríf-gerðina sé sú tilhneiging að vilja benda á skotheldar lausnir á verkefninu þótt vinnan sé varla hafin. Hann bendir á að þegar vandamálið hafi verið leyst sé ekkert verk eftir til að vinna. Þannig eigi brífið ekki að leitast við að útvega hina einu, sönnu og endanlegu lausn heldur eigi það fyrst og síðast að snúast um greiningu á vandanum — án lausna. Máli sínu til stuðnings rekur hann dæmi af brífum fyrir nokkur þekkt vörumerki, m.a Avis, Volkswagen, Macintosh og Nike.

Seint í greininni vitnar Trott í sjálfan Albert Einstein máli sínu til stuðnings: „If I had an hour to solve a problem I’d spend 55 minutes thinking about the problem and five minutes thinking about the solution.“

Trott heldur úti reglulegu bloggi og hér má lesa þessa grein, og fjölmargar aðrar, í heild sinni.

Stafræna byltingin heldur áfram

RIMC, eða Reykjavík Internet Marketing Conference, verður haldin í 16. sinn þann 5. apríl nk. á Grand Hótel Reykjavík. Sú fyrsta var haldin 2004 en The Engine hefur staðið að ráðstefnunni.

Áherslan verður sem fyrr á allt það nýjasta sem er að gerast í heimi netmarkaðssetningar og munu fyrirlesarar sýna okkur dæmi um hvernig þróunin hefur verið, hvernig netið hefur breytt vinnu þeirra, og um leið kynna okkur allt það nýjasta í heimi snjalltækja, samfélagsmiðla, leitarvéla og annarra stafrænna markaðsleiða.

Við eigum von á níu frábærum og fjölbreyttum erindum, en aðalfyrirlesararnir fjórir koma frá LEGO, IKEA, Google og Shopify.

Sérstakt forsöluverð til 10. febrúar.

Bókaðu miða hér

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.