Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#116
6/2/2020
Stórmót auglýsinganna
Apótekarinn efstur í Íslensku ánægjuvoginni
Rafíþróttakvizz Grill 66
Ekki kjúklingaborgarinn á KFC
Umbúðahönnun er alltaf skemmtileg
Markaðssetning milli fyrirtækja, MQL í B2B
Stórmót auglýsinganna

Stórviðburðir í sjónvarpi hafa í gegnum árin verið vettvangur auglýsenda enda mjög margir að horfa. Tækifærið til að ná til fólks er augljóst. Þegar veröldin var einfaldari snerust auglýsingar um að koma einföldum skilaboðum áleiðis: VIÐ SELJUM SKÓ.
Svo var það ekki nóg því fólk vildi fá meiri upplýsingar um vöruna, ástæðu fyrir því að kaupa.
Ótal úrfærslur taktíkur hafa litið dagsins ljós. Samkeppnin í því harðnar jafnt og þétt og sífellt erfiðara að skilja sig frá fjöldanum.
Um liðna helgi fór úrslitaleikur ameríska fótboltans, Super Bowl, fram. Áhorfið ár hvert er gríðarlegt sem auglýsendur nýta sér. Það er svo sannarlega ekki frítt, birting á 30 sekúndna auglýsingu þetta árið kostaði litla 5.600.000 dollara sem eru á að giska 715.000.000 krónur. Og Super Bowl er keppni í auglýsingum, svo einfalt er það. Þarna taka þátt þeir aðilar sem bolmagnið hafa og allt gert til að standa út úr. Daginn eftir leik velta sérfræðingar því fyrir sér hver hafi unnið auglýsingaleikinn, það getur verið álitamál þótt ljóst sé hver sigrað hafi hinn rangnefnda fótboltaleik. Umfjöllunin er gríðarleg.

Auðvitað er Super Bowl ekki eini viðburðurinn. Þeir eru fjölmargir. Söngvakeppni Sjónvarpsins er framundan, eitt af árlegum stórmótum íslenska auglýsingageirans. Áramótaskaupið er mögulega stærra en annars eru viðburðirnir minni, dreifðari yfir lengri tíma – líkt og jólin – eða óreglulegir – samanber risamót í íþróttum.
Markaðurinn hefur gert kröfu á skemmtun og eiginlegt upplýsingaflæði víkur oft fyrir sjónarspili og hnyttni. Keppnin snýst orðið um það hvaða fyrirtæki getur skemmt okkur best á þessum afmarkaða tíma. Innihaldið þarf ekki að snerta á vörumerkinu nema kannski örlítið og svo þarf bara að kvitta fyrir snilldinni í lokin. Upplýsingar um þykkt sóla, vandaðan frágang á saumum, innlegg sem muna eftir þér og sjálfhnýtandi reimar verða að bíða eftir almennum auglýsingatíma.
Þá þykir líka skemmtilegt að tengja auglýsinguna við viðburðinn sem í gangi er, samanber Hatara-æðið í kringum Eurovision. Og okkur finnst öllum stórskemmtilegt að sjá geimskrímsli í amerískum fótbolta eða risakolkrabba að syngja á stóra sviðinu.
Við erum nú þegar búin að mynda okkur skoðun á sigurvegara Super Bowl. Nú er bara að sjá hver vinnur Söngvakeppnina.

Apótekarinn efstur í Íslensku ánægjuvoginni

Það ríkir alla jafna spenna í lofti þegar niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar eru tilkynntar enda er fátt mikilvægara en að viðskiptavinirnir séu ánægðir, þeir eru sjálf lífæð hvers fyrirtækis. Við óskum Apótekaranum innilega til hamingju með útkomuna og mjög gott samstarf en viðskiptavinir Apótekarans eru ánægðustu viðskiptavinir lyfjaverslana 2019.

Rafíþróttakvizz Grill 66

Æ fleiri íþróttafélög eru nú komin með rafíþróttadeildir innan sinnan vébanda. Fyrirtæki sjá sér að sama skapi hag í að tengjast rafíþróttum rétt eins og öðrum íþróttum. Þannig var Grill 66 aðalkostandi á rafíþróttahluta Reykjavíkurleikanna í byrjun febrúar. Sýnt var frá keppni í ýmsum rafíþróttum á Grill 66 sviðinu í Háskólabíói og í beinni útsendingu á Twitch.
Til að ramma kostunina enn betur inn gátu áhugasamir tekið þátt í spurningaleik, þar sem spurningarnar tengdust rafíþróttum og Grill 66. Helstu hetjur rafíþróttanna sömdu spurningarnar.

Ekki kjúklingaborgarinn á KFC

KFC kynnti á dögunum mögulega nýjung á matseðil, kjúklingalausan „kjúklingaborgara“ sem ætlaður er fólki sem ekki borðar kjöt. Í okkar hlut féll að finna nafn á vöruna en einnig útfærsla á sérstakri forsýningu. Varan var í boði einn góðan föstudag í takmörkuðu magni viðbrögð gesta vegin og metin. Allt tókst afar vel og við getum staðfest að varan er væntanleg á matseðil innan nokkurra mánaða.
Mikið hefur verið skrafað um hvernig á því standi að veitingastaður á borð við KFC skuli dýfa fæti í veganlaugina. Svör forsvarsfólks KFC voru afar skýr frá upphafi og skemmtilegt að takast á við að koma þeim á framfæri: Markmiðið er eingöngu að allir geti notið þess að borða saman.

Umbúðahönnun er alltaf skemmtileg

Það er alltaf gaman að fá tækifæri til að hanna umbúðir frá grunni og sjá bæði um iðnhönnun og grafíska hönnun, auk efnisvals. Fyrir Landnámsegg í Hrísey hönnuðum við slíkar umbúðir nýlega. Meginhönnunarforsenda var aðgreining frá hefðbundnum stórum eggjaframleiðendum því þessi egg eru aðeins framleidd í litlu magni, enda fást þau nánast bara í einni verslun. Vörumerkið Landnámsegg leiddi síðan hugmyndavinnuna áfram en form umbúðanna hefur skírskotun í langhús á landnámsöld, fullt hús matar. Það var þó vissulega líka haft bak við eyrað að pakkinn gæti passað í hilluna í kæliskápshurðinni sem ÆTLUÐ er fyrir egg! Letrið í merkinu er „fast“, en hænur, egg og grastoppar í myndskreytingum skipta um stæði eftir því hvernig hönnuði líkar hverju sinni.

Markaðssetning milli fyrirtækja, MQL í B2B

Þegar markhópur fyrirtækis eru önnur fyrirtæki en ekki einstaklingar kallast það B2B uppá ensku. Söluferli B2B fyrirtækja er flóknara og lengra en fyrirtækja á almennum neytendamarkaði. Því leggja B2B fyrirtæki oft áherslu á ráðstefnur, viðburði og aðra hefðbundna markaðssetningu til að ná athygli viðskiptavina. Góðri vöru og þjónustu er hampað og sölufólkið er í framlínunni.
Með stafrænum miðlum og ákveðinni aðferðafræði er hægt að ná mjög miklum árangri í B2B markaðsetningu. Fyrsta markmið er ávallt að kveikja áhuga hjá markhópnum, sem oft er mjög þröngur, upplýsa þann hóp um ágæti vörunnar og laða hann að því að skoða efni og vefsíðu viðkomandi B2B fyrirtækis. Við viljum skapa sölutækifæri (Lead). Í greiningum The Engine má skoða hegðun þessa markhóps og viðbrögð við herferðum okkar. Ef einstök fyrirtæki skoða vefsíðuna oftar en einu sinni eða tvisvar, eyða góðum tíma í að lesa sér þar til má leiða að því líkum að viðkomandi fyrirtæki hafi áhuga á vörunni sem er í boði. Þetta er svokallað MQL (Marketing Qualified Lead). Í kjölfarið er hægt að senda þær upplýsingar til sölufólksins í framlínu á viðkomandi markaði. Sérfræðingar okkar hjá The Engine hafa unnið eftir þessari aðferðafræði fyrir írskt fjártæknifyrirtæki og hefur sölupípan hjá því fyrirtæki fengið fjölmargar MQL inn til sín að vinna úr. Um það snýst oft leikurinn í B2B, að tala við þá sem hafa raunverulegan áhuga á vörunni en eyða ekki púðri á þá sem enga þörf eða áhuga hafa.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.