Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#92
4/1/2018
Nýtt ár í nýjum litum 2018
Malt og Appelsín á Facebook
Fallegra líf í janúar
Like-beitur líða undir lok
Árið 2017 í leitarorðum
Nýtt ár í nýjum litum 2018

Það er afskaplega spennandi ár framundan í auglýsingafaginu og það í kjölfarið á ári sem færði okkur fjölmargar nýjar áherslur, jafnvel sprengingar.
Ein slík sprengja var í notkun áhrifavalda en þeir voru mjög áberandi á sviðinu í fyrra. Nú er tími til að gera hlutina betur og markvissar. Við höfum öðlast reynslu, búin að læra og nú verður þetta spennandi. Samfélagsmiðlar eru að sjálfsögðu ekki nýir fyrir okkur, en nýjungarnar eru stöðugar og árangurinn sem hægt er að ná með réttum vinnubrögðum er ótrúlegur.

Ég held einnig að enn ein stóra sprengingin verði í sölu á netinu hér á Íslandi. Mjög spennandi vettvangur þar sem markmiðið er ávallt að ná í rétta hópinn með réttu vöruna á réttum tíma og við förum inn á þetta svið af fullum krafti. Hér skiptir grunnvinnan öllu máli og mikilvægt er að hafa réttu tæknina á valdi sínu. Og síðast en ekki síst að vinna rétt úr þeim gögnum og upplýsingum sem við höfum um viðskiptavininn og kauphegðun hans, því eins og allir vita er auðveldara að halda í viðskiptavini en að sækja nýja.

Ekki má samt gleyma því mikilvægasta í auglýsingum, en það er hugmyndin sjálf. Hugmyndin sem nýtir sér allar þessar flottu leiðir, skemmtilegu nýju miðlana og þessa gömlu góðu sem svo sannarlega standa fyrir sínu enn í dag. Ekki er nóg að hugmyndin skapi viðbrögð heldur þarf hún að vera innan þess ramma sem fyrirtækið eða varan hefur skapað – eða eins og við segjum gjarnan að vera „on brand“. Því það er alveg jafn mikilvægt nú og áður að byggja upp sterkt vörumerki hver sem leiðin að því er.

Gleðilegt nýtt auglýsingaár.
Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri

Malt og Appelsín á Facebook

Ekkert segir íslensk jól jafn hátt og snjallt og hin heilaga jólablanda Malt og Appelsín. Árið 2014 ól dúóið af sér afkvæmi, 411 gramma glerflösku sem sameinar bestu eiginleika foreldra sinna og er ómissandi við matarborðið á jólunum. Við fylgdumst með ævintýrum litlu fjölskyldunnar á Facebook í desember.

Verkefnið

Fallegra líf í janúar

Janúar er mánuðurinn þegar allir drífa sig í ræktina og taka upp hollari siði í mataræði og lifnaðarháttum. Það er því engin tilviljun að nú birtast nýjar OTA Solgryn auglýsingar. Auglýsingunum er ætlað að gefa hugmynd um það hvað er hægt að gera dásamlega góða og holla rétti úr þessum úrvals hafragrjónum. Við gerðum þrjár sjónvarpsauglýsingar sem hægt er að skoða hér, auk prentefnis, strætóskýla og annars stuðningsefnis.

Verkefnið

Like-beitur líða undir lok

Undir lok síðasta árs ákvað samfélagsmiðillinn Facebook að breyta algrími síðunnar á þann hátt að þær færslur sem fiska eftir þátttöku notenda, eða svokallaðar „like-beitur“, sem hvetja fólk til þess að líka við færslu, deila henni eða skilja eftir athugasemd, birtast nú neðar í fréttaveitum síðunnar.

Sérfræðingar Facebook fóru yfir og flokkuðu hundruð þúsunda innleggja á síðunni og kenndu síðan tölvu að greina mismunandi tegundir beitufærslna. Í fréttatilkynningu frá Facebook varaði samfélagsmiðillinn umsjónarmenn Facebook-síðna við þessum nýju verkferlum en komi síðurnar til með að brjóta ítrekað af sér þá verður þeim refsað með talsvert minni dreifingu þeirra færslna.

Miðillinn tekur samt fram að færslur sem biðja fólk um hjálp, til dæmis við að leita að týndri manneskju, almenna ráðgjöf eða leitast eftir styrkjum til góðgerðastarfsemi munu ekki verða fyrir áhrifum nýja algrímsins.

Nánar fyrir þá sem vilja.

Árið 2017 í leitarorðum

Vinsælustu leitarorð Google eru eflaust einn nákvæmasti samfélagsrýnir sem völ er á, en þau endurspegla vel hugðarefni heimsbyggðarinnar hverju sinni. Ef við skoðum hvað stendur upp úr samkvæmt vinsælustu leitarorðunum árið 2017 verður til prýðilega upplýsandi annáll.

Langalgengasta leitarorðið var hvirfilbylurinn Irma en fast á hennar hæla fylgdu iPhone X og iPhone 8. Þá voru tónlistarmenn sem létust á árinu einnig skoðaðir mjög mikið og söngvararnir Chester Bennington og Tom Petty rötuðu inn á topp 10 listann. Della ársins var vafalaust þyrilsnældan sem fékk sitt sæti á topp 10 listanum ásamt hinni geysivinsælu en umdeildu Netflix þáttaröð 13 Reasons Why. Verðandi tengdadóttir bresku þjóðarinnar, Meghan Markle, var einnig örugg inn á listann.

Byltingin #metoo var áberandi á árinu og skaut dónakörlunum Harvey Weinstein, Matt Lauer og Kevin Spacey upp á topplistann yfir mest gúgluðu einstaklingana. Þá stóðu Norður-Kórea, skotárásin í Las Vegas og sólmyrkvinn og Bitcoin-æðið hæst í flokki heimsfrétta. „Hvernig kaupir maður Bitcoin?“ var vinsælasta spurningin en fólk var einnig að velta því fyrir sér hvernig það gæti horft á bardaga Floyd Mayweather og Connor McGregor og gert heimatilbúna þyrilsnældu.

Í flokki kvikmynda var fólk mest að fletta upp It, Wonder Woman, Beauty and the Beast, Logan og Justice League en hvað varðar tónlist voru það smellirnir Despacito, Shape of you, Perfect, Havana og Look what you made me do.

Gúglarar á Íslandi voru sjálfhverfir í ár en Iceland var vinsælasta uppflettiorðið á Google hérlendis. Þar á eftir kom Google, Reykjavik, translate og Facebook. Hvað fréttir varðar stóðu hæst orðin weather, news, visir, landsbanki og mbl. Að lokum er gaman að nefna að vinsælasta leitarorðið á Íslandi á aðfangadag var sous vide.

Nánar

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.