Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#115
9/1/2020
Lífið verður ekki einfaldara með árunum
Við byggjum á sterkri sögu
Olískvizz – EM 2020
KFC skiptir um föt(u)
LinkedIn er samfélagsmiðill atvinnulífsins
Alþjóðleg stafræn verkefni The Engine
Lífið verður ekki einfaldara með árunum

Ég hef stundum verið spurður að því hvort tími auglýsingastofa sé liðinn. Að sjálfsögðu er ekki svo en mjög margt hefur breyst hin síðari ár. Öll markaðssetning er orðin flóknari. Áreitið er meira, tími fólks er dýrmætari, neysla á miðlum öðruvísi og allar upplýsingar aðgengilegri.

Góð markaðsherferð verður að vera vel ígrunduð og undirbúningurinn vandaður. Val á miðlum þarf að taka mið af þeim áherslum, markmiðum, markhópum og leiðum sem notaðar eru í markaðsstarfinu. Stafrænir miðlar eru mjög dýnamískir en kalla ekki síður á vönduð vinnubrögð og breytta hugsun í framleiðslu auglýsingaefnis. Við á Pipar\TBWA höfum verið í fararbroddi í innleiðingu þessarar nýju hugsunar.

Það að öll dreifing og eftirfylgni á auglýsingaefni sé orðin flóknari kallar á aukna sérfræðiþekkingu. Þess vegna koma mun fleiri að hverju markaðsátaki bæði hjá fyrirtækjunum sjálfum sem og auglýsingastofunum. Það gefur auga leið að kostnaður eykst við þetta en að sama skapi geta slíkar herferðir skilað miklu og jafnframt er árangurinn mun mælanlegri.

Fjármagn til markaðsmála hefur ekki aukist hjá fyrirtækjum í niðursveiflu eins og við búum við núna. Þetta má glöggt sjá í framleiðslu auglýsinga, minna er um „stórar“ auglýsingar og meira er horft til skammtímaárangurs í stað uppbyggingar vörumerkis til lengri tíma.

Galdurinn liggur í að nýta rétt alla mögulega miðla til að ná til markhópsins og skila þannig fyrirtækjum sem bestum árangri, hvert svo sem markmiðið er hverju sinni. Við hjá Pipar\TBWA höfum lagt mikla áherslu á að afla okkur þekkingar á stafrænum miðlum og markvisst komið okkur upp sérfræðingum með reynslu og þekkingu á þessu sviði. Við erum nú gríðarlega öflug liðsheild sem tekst hiklaust á við allar auglýsinga- og markaðslegar áskoranir sem næsti áratugur býður uppá. Þess vegna erum við spennt fyrir árinu 2020.

Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri

Við byggjum á sterkri sögu

BM Vallá á sér langa og merka sögu í framleiðslu, lausnum og verkefnum fyrir íslenska byggingaraðila, en sú saga nær allt aftur til ársins 1946. Í nýjum ímyndarauglýsingum er þessari sögu hampað en þar er blandað saman gömlum ljósmyndum sem til voru af ýmsum tímamótabyggingum í smíðum og nýjum myndum af þessum sömu húsum.
Það getur verið gaman að velta því fyrir sér þegar horft er á Hallgrímskirkju, Ráðhúsið, Borgarspítalann, Kringluna eða Borgarleikhúsið, hvaðan öll þessi steypa kom.

Olískvizz – EM 2020

Strákarnir okkar í íslenska handboltalandsliðinu hefja leik á EM um helgina. Af því tilefni hefur Olís sett í loftið spurningaleik á netinu tengdan íslenska landsliðinu og er þar til mikils að vinna. Til að hita upp fyrir leikinn mættu tveir landsliðsmenn, þeir Kári Kristján Kristjánsson og nýliðinn Viktor Gísli Hallgrímsson á Olís-stöðina í Álfheimum og spurðu gesti og gangandi spjörunum úr.
Myndband

Taka þátt í EM-kvizzinu

KFC skiptir um föt(u)

Líkt og heimsbyggðin öll skiptir KFC úr of þröngum sparifötum yfir í íþróttafötin í janúar. Tilefnið er þó ekki samviskubitið eitt og sér heldur þáttur í hvatningu þjóðar við handknattleikslandslið karla á EM. Hvernig sem á það er litið kemur ekkert í staðinn fyrir að horfa á kappleiki í sjónvarpi með fötu fulla af kjúklingi sér við hlið. Þess eigum við að njóta.

Til að auka enn á áhuga og hungur efnir KFC til myndaleiks þar sem þátttakendur geta freistað þess að vinna íþróttafötu til að japla upp úr yfir næsta leik. Þar nýtum við okkur krafta Ghostlamp og áhrifavalda sem viðra áhuga sinn á Instagram með merkingunni #KFCEM.

Áfram Ísland!

LinkedIn er samfélagsmiðill atvinnulífsins

Á vefsíðu The Engine birtast reglulega blogg-greinar um stafræn birtingamál. Nýjasta málefnið sem tekið var fyrir fjallaði um samfélagsmiðilinn LinkedIn sem talinn er einn mikilvægasti vettvangurinn nú um stundir til að byggja upp gott tengslanet og að sama skapi efla dýrmæt viðskiptatengsl við rétta fólkið. En það er ekki sama hvernig það er gert. Hér felast mikil tækifæri en þetta þarf að gera faglega og af metnaði. Í blogginu um LinkedIn (sem er skipt upp í tvær greinar) er farið yfir helstu atriði sem skipta máli til að byggja upp LinkedIn, móta stefnu, forgangsraða og nýta miðilinn í þágu fyrirtækja og einstaklinga. Kíktu á bloggið okkar hjá The Engine.

Alþjóðleg stafræn verkefni The Engine

Undanfarna mánuði hafa stafrænir sérfræðingar okkar veitt samsteypunni Taxback Group (www.taxbackgroup.com) yfirgripsmikla ráðgjöf. Taxback Group er ört stækkandi samlag 9 fyrirtækja sem sérhæfir sig í svokallaðri fjártækni (e. Fintech), aðferðafræði sem snýr að lausnum á sviði fjármála og skatta. Hjá þeim starfa á fjórða þúsund manns í fjölmörgum löndum en höfuðstöðvarnar eru í Dublin á Írlandi.

Fram til þessa hefur samsteypan starfað á sviði B2B – Business to Business – og því lagt minni áherslu á bein tengsl við viðskiptavini og einstaklinga á netinu. Eftir að hafa fengið stóra fjárveitingu árið 2019 til eflingar markaðstarfs réðst The Engine í málin með þeim og fókusinn þá settur á uppbyggingu þekkingar og virkjun hennar. Nú þegar hafa vinnustofur verið haldnar og verkefnum hleypt af stokkum samkvæmt nýjum markmiðum. Á þessum markaði er hver viðskiptavinur afar verðmætur og því miða herferðir að því að ná sérstaklega til ákveðins markhóps með hnitmiðuðum skilaboðum. Þar hefur svokallað IP Targeting reynst vel en þá er auglýsingum beint að starfsfólki þeirra fyrirtækja sem við viljum fá í viðskipti. Þessi aðferðafræði hefur gefist afar vel í löngu kaupferli B2B.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.