Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#124
14/1/2021
Gleðilegt ár – loksins
Toyota á Íslandi
… í það minnsta KFC
Jólavörur og vistvænni umbúðir
The Engine, Tetra Pak, Top 10 Digital og fleira!
Gleðilegt ár – loksins

Að baki er viðburðaríkt ár þar sem orðið fordæmalaust kom oft við sögu. Margt hefur breyst, við gerum hluti sem við höfum ekki gert áður, höfum kynnst nýjum aðferðum og tileinkað okkur nýjar venjur. Það má sjá jafnt í B2C (business to customer) eða B2B (business to business), eins og það heitir á markaðsmáli.
Netið hefur tekið við fjölmörgu af því sem við gerðum áður í eigin persónu á staðnum, hvort sem það snýst um að fara í matvörubúðina eða skella okkur á vörusýningu eða ráðstefnu. Núna rétt eins og áður þarf að taka djarfar ákvarðanir, gera breytingar og vera klár í nýja árið.

Það stendur yfir stafræn bylting. Hún hófst reyndar fyrir löngu þó alltof mörg fyrirtæki á Íslandi hafi ekki gripið til varna og séu klárlega orðin á eftir í reyknum frá samkeppninni. Á liðnu ári sáum við að sala á netinu margfaldaðist, þ.m.t. sala á matvöru sem þrefaldaðist. Þessi þróun heldur auðvitað áfram þótt það verði ef til vill ekki með sama hraða.

Eins og áður er eitt það mikilvægast í markaðsstarfi að byggja upp vörumerkin. Hluti af því er að skilja markhópinn og ná til neytenda. Að ná til markhópsins er sá hluti markaðsstarfsins sem tekur hvað mestum breytingum þessa dagana. Staða fjölmiðla heldur áfram að breytast og þeir íslensku fjölmiðlar sem treysta á auglýsingar eiga sífellt erfiðara uppdráttar, þrátt fyrir að notkun fjölmiðla hafi sjaldan verið jafn mikil og á síðasta ári. Þar gætu því verið vannýtt tækifæri. Hlutfall erlendra miðla heldur áfram að aukast og notkun Íslendinga á þeim miðlum er mikil. Það þarf síst minna fjármagn og mannafla til að halda við stafrænni markaðssetningu fyrirtækja svo árangur náist.

Þegar Covid-rykið er sest sjáum við landslagið skýrar, en það verður breytt. Þess vegna þarf að stökkva og grípa tækifærin áður en það verður of seint. Það hefur verið áskorun að takast á við árið 2020, en það hefur líka skilað mörgu jákvæðu eins og dæmin sanna.

Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars\TBWA

Toyota á Íslandi

Toyota á Íslandi er nýr viðskiptavinur Pipars. Eftir snarpan og skemmtilegan aðdraganda, fundi og vangaveltur, innsigluðum við samstarfið og hófumst strax handa. Toyota á sér ríka sögu á Íslandi og hefur verið leiðandi á bílamarkaðnum áratugum saman. Við tökum því við góðu búi og stefnan sú að gera gott betra. Fyrsta stóra verkið var risasýning núna í janúar, svokölluð Fjórsýning þar sem allir bílar eru fjórhjóladrifnir og fremstur meðal jafningja sjálfur Toyota Highlander, ný tegund, í fyrsta skipti hjá Toyota á Íslandi. Umfang herferðarinnar er mikið og allir miðlar nýttir. Fleiri verk eru nú þegar komin af stað.
Við fögnum Toyota á Íslandi sannarlega og bjóðum þau hjartanlega velkomin í viðskiptavinahópinn.

… í það minnsta KFC

Jólin voru stór hjá KFC og hlóðu svo sannarlega utan á sig. Stór hluti efnisins var framleiddur snemma á árinu, meðan lífið var nær því að geta talist eðlilegt. Þar sáum við Dóra DNA sem Sanders ofursta fagna jólum við íslenskar aðstæður með syngjandi barnakórum og tilheyrandi. Jólaleggir 1 og 8 léttu svo fólki jólaundirbúninginn, fata með 9 leggjum á tilboði. Til þess að hringja inn jólin hittum við Dóra í hljóðverinu hjá Audiolandi og tókum upp hæfilega vel ígrundaðar útvarpsauglýsingar til þess að létta lund og koma opnunartímanum á framfæri.

Þetta var endahnykkurinn á stóru og farsælu afmælisári hjá KFC, ári sem vissulega tók óvænta og ófyrirséða stefnu.

Jólavörur og vistvænni umbúðir

Nýjar og vistvænar umbúðir ryðja sér til rúms hjá Te & kaffi og fyrsta verkið í því ferli eru jólavörur fyrirtækisins. Grafíkin er innblásin af Þingvallavatni og hönnuð þannig að myndefnið flæðir allan hringinn án sauma eða samskeyta þegar vörunni er snúið heilan hring. Þegar pokar með möluðu kaffi og baunum eru lagðir hlið við hlið mynda þeir samfellu. Í framhaldinu er meiningin að aðrar umbúðir breytist á sama máta og nú þegar má sjá upphaf þess í hillum verslana.

The Engine, Tetra Pak, Top 10 Digital og fleira!

Það gladdi okkur mikið þegar póstur barst í árslok frá MarTech Outlook, einu fremsta markaðstímariti heims, um að The Engine hefði verið valin ein af 10 bestu stafrænu markaðsstofum í Evrópu. Síðasta ár var The Engine býsna gjöfult þrátt fyrir árferðið og færði okkur verðlaun og viðurkenningar. Mesta viðurkenningin er þó frá viðskiptavinunum sjálfum í kjölfar þess árangurs sem við höfum náð fyrir þá. Alþjóðleg fyrirtæki sýna okkur vaxandi áhuga og að undangengnu ströngu ferli má þar nefna Tetra Pak og nú er það staðfest að við erum að fara að vinna fyrir bandarískt tæknifyrirtæki sem starfar í 700 borgum í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Er það mikil viðurkenning að íslensk stofa sé valin sem samstarfsaðili Google og Bing auglýsinga þar í landi.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.