Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#98
5/7/2018
HM-áhrifin
KFC: Úr takti við HM
Það sést hverjir drekka Kristal
Vörumerkjavöktun fyrir KSÍ
HM-áhrifin

Hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur heimsmeistarakeppnin í fótbolta haft áhrif á okkur öll þetta sumarið. Vinnustaðir efna til tippleikja innanhúss og gefa frí þegar Ísland keppir á skrifstofutíma. Útskriftir, brúðkaup og jarðarfarir hafa verið færðar til vegna leikja og verslanir skreyttar í fánalitunum keppast við að bjóða ýmsar vörur á HM-afslætti, jafnvel þó Ísland sé löngu dottið úr keppni. Það er eitthvað fallegt við viðburð sem fær fólk sem annars fylgist aldrei með íþróttum til að standa úti í rigningu og sjö stiga hita og horfa á strákana okkar spila.

Svona stórmót, og auðvitað þátttaka Íslands á því, breytir mjög fjölmiðlaneyslu og því getur verið til mikils að vinna fyrir auglýsendur sem vilja freista þess að ná til sem flestra. Leikurinn Argentína-Ísland var með 61,3% meðaláhorf sem er það mesta sem hefur mælst á íþróttaviðburð. Hlutdeild RÚV á þessum tíma var nánast 100% sem þýðir að allir sem voru að horfa á sjónvarp voru með stillt á RÚV.

Áhorfið á hina tvo leiki Íslands var einnig mjög hátt, 57,4% meðaláhorf var á leik Íslands gegn Nígeríu og 59,3% meðaláhorf var á Ísland-Króatía, sem er annað mesta áhorf sem mælst hefur á íþróttaviðburð. Fram að HM 2018 var metið 58,8% áhorf, en það var á leik Íslands og Englands á EM í fótbolta 2016.

Til samanburðar var meðaláhorf á opnunarleik Egyptalands og Rússlands 22%. Sá leikur sem hefur fengið minnsta áhorfið hingað til var svo leikur Kólumbíu gegn Senegal, en þar var meðaláhorfið 6,8% (Heimild: Gallup, 2018).

Margskonar skemmtileg verkefni voru unnin hjá okkur sem tengjast heimsmeistarakeppninni á einhvern hátt. Hér fyrir neðan segjum við frá hinum ótaktvísa Magnúsi Magnúsi Magnússyni, en meðal annarra HM-verkefna má nefna HM-tilboð Bakarameistarans, grillaðan bolta hjá Krónunni og hann Bjarki hjá Olís tók auðvitað víkingaklappið.
KFC: Úr takti við HM

KFC nýtti sér dauðafærið sem gafst þegar Ísland komst á HM með bravúr. Við fengum Magnús Magnús Magnússon til liðs við okkur, manninn sem ekki getur gert víkingaklappið rétt og sem gerði garðinn frægan fyrir nokkrum árum í áramótaskaupi RÚV.

Hallgrímur Ólafsson leikari, maðurinn sem ljær Magnúsi rödd sína og atgervi, tók stóran þátt í öllum undirbúningi og úr varð herferð sem að mestu hefur verið keyrð á netinu, stuttmynd í nokkrum köflum sem síðan var brytjuð niður og notuð á aðra miðla.

Miðstöð alls efnis er vefsíðan www.magnusmagnusmagnusson.is sem er í sífelldri uppfærslu.

...HÚH


Það sést hverjir drekka Kristal

Í síðasta mánuði frumsýndum við nýja sjónvarpsauglýsingu fyrir Kristal frá Ölgerðinni. Við fengum til liðs við okkur framleiðslufyrirtækið Republik og slógum upp tímalausum gleðskap í Gamla Bíó, þar sem tilbúin yfirstétt lyfti sér upp þar til dularfulla boðflennu ber að garði. Mikil vinna fór í að finna réttu leikarana en settur var saman ansi skrautlegur hópur fólks sem Lalli Jónsson leikstýrði af stakri snilld.

Metnaðurinn var slíkur að hálfur karlakór var meira að segja hluti af leikarahópnum og þegar líða fór á kvöldið sungu þeir fyrir leikara og tökufólk á milli takna. Aðalleikonunni, Evu Lenu Brabin, var flogið til landsins frá Kaupmannahöfn fyrir tökurnar en gaman er að segja frá því að faðir hennar, Ágúst Jakobsson, var aðal tökumaður á setti. Svona er nú litla Ísland.

Sjá auglýsinguna hér.


Vörumerkjavöktun fyrir KSÍ

Í aðdraganda HM gerðum við samning við KSÍ um að sinna vörumerkjavöktun fyrir sambandið. Merki KSÍ og landsliðsbúningurinn eru skrásett vörumerki og því er óheimilt að nota myndefni sem sýnir merkið, búninginn eða leikmenn íklædda búningnum í markaðslegum tilgangi. Þetta gildir fyrir öll fyrirtæki stór sem smá, nema þau sem eru samstarfsaðilar KSÍ.

Þau mál sem koma upp í vöktuninni byggja oftast á því að fyrirtæki vita hreinlega ekki af því að um þetta gilda strangar reglur. Því hefur yfirleitt gengið greiðlega að leysa úr þeim.

Lesa meira um vöktunina.


Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.