Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#110
4/7/2019
Mark Schaefer á Krossmiðlun 13. september
Nýr og betri vefur Gray Line
Ofurvenjuleg prentauglýsing
KFC – uppáhalds
The Engine verður Facebook Marketing Partner
Við fórum á Cannes
Mark Schaefer á Krossmiðlun 13. september

Mark W. Schaefer fæddist í Pittsburg í Pennsylvaníu árið 1960 og verður því sextugur á næsta ári. Nú á gullöld samfélagsmiðla þykir fólk á þeim aldri ekki líklegast til sérstakra afreka, ekki við notkun miðlanna og enn síður við mótun þeirra. Mark er því oft kallaður „gamli maðurinn“ í samhengi við starf sitt en hann er einn virtasti samfélagsmiðla- og markaðssérfræðingur heims.

Mark Schaefer er afar reyndur fyrirlesari sem kemur efninu og skoðunum sínum frá sér á skemmtilegan og kröftugan hátt. Því er mikill akkur í því að fá hann á Krossmiðlun þann 13. september 2019. Þar lætur hann þó ekki staðar numið því Schaefer ferðast um heim allan sem ræðumaður, leiðbeinandi og ráðgjafi. Hann er metsölurithöfundur, heldur úti öflugu bloggi, afar vinsælu podcasti og er tíður gestur í útvarpi, sjónvarpi og öðrum miðlum á borð við Wall Street Journal, Wired, The New York Times, CNN, National Public Radio, CNBC, BBC og CBS NEWS og er reglulegur dálkahöfundur hjá The Harvard Business Review. Þá hefur hann komið að stórum markaðsherferðum fyrir ótal stofnanir og fyrirtæki, til að mynda Adidas, Johnson & Johnson, Dell, Pfizer, The U.S. Air Force, og bresku ríkisstjórnina.

Hvar sem hann stígur niður fæti talar Schaefer um mikilvægi samtalsins við neytandann og efnið sem miðla skal, en dregur í efa gildi og framtíð „hefðbundinna“ auglýsingamiðla. Nýjasta bók hans, Marketing Rebellion – The Most Human Company Wins, hefur hlotið fádæma góðar viðtökur. Þar leggur Schaefer út frá þeirri hugmynd að fyrirtæki samtímans geti ekki með nokkru móti keypt sig inn í huga viðskiptavina sinna heldur sé uppbygging trausts lykillinn að velgengni. Okkar verkefni sé að hleypa fólki að vörunni á réttan hátt, koma trúverðuglega fyrir og leyfa síðan almenningi að vinna markaðsvinnuna fyrir okkur eftir að við höfum sannfært sem flesta einstaklinga og fengið í lið með okkur. Bókin er afar skemmtileg aflestrar og óhætt að mæla með henni, sem og blogginu hans {grow} og podcastinu Marketing Companion Podcast. Allt þetta og miklu fleira má kynna sér á vefsíðu Schaefers https://businessesgrow.com.

Mark Schaefer verður meðal frábærra fyrirlesara á Krossmiðlun þann 13. september 2019 í Hörpu.

Nýr og betri vefur Gray Line

Við tókum þátt í einfalda og endurhanna vef Gray Line Iceland en Gray Line byggir afkomu sína á að selja ferðir um Ísland í harðri samkeppni. Til að ná athygli ferðamannanna er beitt fjölmörgum aðferðum, fyrst og fremst þarf vefsíða fyrirtækisins að vera sýnileg markhópnum öllum stundum, allt frá fyrsta áhuga til þess að sölu lýkur. Tólin sem við nýtum til þess er öflug leitarvélabestun, Google-, Facebook- og aðrar birtingar á netinu og fleiri miðlum sem spila saman og jafnvel áhrifavaldar svo eitthvað sé nefnt. Til að hámarka árangur markaðsstarfs þarf vefsíðan að vera hröð og notendavæn því enginn vill þurfa að bíða lengi „í röðinni“ þegar verið er að kaupa vöru og þjónustu.

Ofurvenjuleg prentauglýsing

Olís á sér óslitna sögu síðan 1927. Elsti samstarfsaðili Olís, Verslun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki, fagnaði 100 ára starfsafmæli 29. júní. Olís lagði sitt af mörkum í veisluhöldunum með því að bjóða viðskiptavinum verslunarinnar 30 króna afslátt af verði eldsneytislítrans þennan dag. Auglýsingin var ósköp venjuleg prentauglýsing af „gamla skólanum“ sem birtist í þeim ofurvenjulega prentmiðli Fréttablaðinu. Vonandi hafa sem flestir Skagfirðingar séð hana og nýtt sér afsláttinn.


KFC – uppáhalds

Fyrsta auglýsing nýrrar ímyndarherferðar fyrir KFC var frumsýnd í maí. Herferðin gengur undir nafninu „Uppáhalds“ og gengur út á þá staðreynd að öll eigum við jú „okkar uppáhalds“ á KFC. Að auki fannst okkur sniðugt að snúa lítillega út úr efninu og klippa auglýsingarnar á óheppilegum stöðum. Þú veist, hver vill ekki fá brúnu sósuna í Duo Bucket?

Allt var þetta unnið í góðu samstarfi við Snark.

The Engine verður Facebook Marketing Partner

Svæðisstjórn Facebook á Norðurlöndunum með Axel Strelow í fararbroddi er staðsett í Dublin og aðstoðar viðurkenndar auglýsingastofur og stærri fyrirtæki við herferðir sem hvíla á bakenda Facebook Business Manager. Sökum smæðar hefur íslenski markaðurinn ekki haft aðgang að þessari þjónustu en nýverið varð breyting þar á þegar The Engine varð fyrst allra íslenskra auglýsingastofa viðurkenndur Facebook Marketing Partner.

Við höfum nú þegar hafið samstarfið við Axel og hans fólk og árangurinn lætur ekki á sér standa. Framtíðin er því björt fyrir viðskiptavini okkar sem vilja nýta sér markaðsherferðir Facebook til hins ítrasta.


Við fórum á Cannes

HeForShe-herferðin okkar og Un Women „Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur“ fékk tilnefningu til Ljóns í Cannes eins og sagt var frá í síðasta Fimmtudegi. Ekki kom Ljónið heim að þessu sinni en við gerðum góða ferð, hittum skemmtilegt fólk, sátum fjölmarga fyrirlestra og drukkum nokkra vel valda drykki í hitanum á frönsku rivíerunni.

Cannes Lions Festival er gríðarstór suðupottur. Þarna kemur saman færasta fólk úr stéttinni allri, auglýsingastofur og framleiðendur, leikstjórar og leikarar, frumkvöðlar og reynsluboltar og allt það fólk sem skarar fram úr í sinni grein. Afraksturinn er þarna til sýnis, rjóminn er flýtur ofan á öllu hinu, það allra besta sem gerist hefur í heimi auglýsinga síðastliðið ár.

Tilnefningarnar í okkar flokki—flokki Glerljóna, sem gæti útlagst sem flokkur almannaheillaauglýsinga—voru hver annarri áhrifameiri og stórkostlegt að blanda geði við hið mikla listafólk sem að þeim kom og gæðir heiminn gleði og hugmyndauðgi með vinnu sinni.

Takk Cannes, sjáumst að ári ef allt fer eftir áætlun.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.