Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#121
9/7/2020
Ferða-grill, ferða-húsgögn, ferða-búsáhöld ...
Samgöngustofa – Það tekur bara 2 sekúndur
Olís kvizz
Íslatte frá Te & Kaffi
Nýtt merki fyrir NPA miðstöðina
Ferða-grill, ferða-húsgögn, ferða-búsáhöld ...

Þegar þetta er skrifað hefur smit kórónuveirufaraldursins slegið met marga daga í röð, t.d. í Bandaríkjunum. Við höfum verið býsna lánsöm hér á landi í baráttunni við faraldurinn þó auðvitað hafi komið einstaka bakslag og sjúkdómurinn hafi greinst aðeins um þessar mundir við skimun farþega til landsins. Það minnir okkur á óvissuna sem svífur yfir en um leið má ekki gleyma því að tækifærin eru yfir og allt um kring. Það er mjög áhugavert að fylgjast með því sem faraldurinn hefur augljóslega áhrif á. Landsmenn eru núna ferðamenn í eigin landi – vissulega í bland við allnokkra erlenda ferðamenn – og nýta og njóta landsins sem aldrei fyrr. Fyrir mörgum er landið uppgötvun sem vonandi skilar sér áfram hin næstu ár. Landið okkar góða er perla sem svo sannarlega er vert að skoða og kynnast. Gistitilboðin vítt og breitt um landið renna út eins og heitar lummur og fæstum finnst hún „dýr þessi hóteldvöl“ – eins og staðan er núna, þó deilt sé um hvort hótelin sjálf muni græða eins og sagði í kvæði Tómasar. Og nú bregður svo við að vér Íslendingar hikum ekki við að hafa það huggulegt á veitingastöðum landsins, vænum og dænum rétt eins við værum í útlöndum.

Því það er víst svo að við höfum vanið okkur á að eyða ansi hreint miklum peningum í fríum – en helst bara erlendis. Tækifærin í þessu óvænta innanlands-ferðasumri felast vonandi samt í því að þjóðin átti sig á sínum eigin verðmætum og fleiri kjósi að verja sumarleyfinu sínu á Íslandi næstu árin – af því það er svo fallegt og gott land. Nokkuð óvænt hefur met verið slegið í sölu hjólhýsa samkvæmt fréttum og allir sem hafa farið í ferðalög með vagn í eftirdragi vita að það er ekki nóg að hafa gististaðinn með sér. Það þarf líka að hafa alls konar annað dót, útilegudótið sjálft. Ferða-grillin, ferða-húsgögnin, ferða-búsáhöldin, og ekki síðra að ferða-dótið sé svoltið töff svo það veki lukku á tjaldstæðinu. Og einhverjir njóta góðs af því að selja okkur hinum ferða-dótið. Þar snúast hjól verslunar- og atvinnulífs á meðan.

Njótið ykkar vel í íslenska ferðasumrinu, spennið beltin og farið varlega.

Samgöngustofa – Það tekur bara 2 sekúndur

Heil 10% fólks nota ekki bílbelti í umferðinni hérlendis þrátt fyrir að það séu 8 sinnum meiri líkur á því að láta lífið ef beltin eru ekki spennt. Í átaksverkefni fyrir Samgöngustofu fengum við fjóra landsþekkta Íslendinga til að prófa að sleppa að gera eitthvað sem venjulega tekur aðeins tvær sekúndur og sjá hvað gerist.  
Allt var þetta kvikmyndað í samfélagsmiðlastíl og sögusviðið sett upp eins og í dagsins önn og án handrits. Endaskilti og síðari birtingar létu síðan í ljós að svo var ekki. Bernhard Kristinn ljósmyndaði.

Olís kvizz

Fyrr á árinu voru settir í loftið netspurningaleikir undir merkjum Olís-kvizz, fyrir EM í handbolta og fyrir Söngvakeppni sjónvarpsins. Nú er í loftinu Sumarkvizz Olís, þar sem keppendur geta spreytt sig á spurningum um allt mögulegt, leyst út þátttökuglaðning á Olís-stöðvum og freistað þess að vinna ýmsa spennandi stærri vinninga. Þátttaka í leiknum hefur verið fádæma góð enda er hann kjörin afþreying á ferðalaginu í sumar.

Íslatte frá Te & Kaffi

Íslatte Cold Brew frá Te & Kaffi er komið á markað í nýjum umbúðum og með tveimur nýjum bragðtegundum. Ný hönnun tók mið af því að skapa góða aðgreiningu fyrir hverja tegund með fersku og skemmtilegu myndmáli. Drykkurinn er nú í hvítum flöskum en ekki glærum til að ná fram sérstöðu í hillum og fanga betur athygli neytenda.

Íslatte Cold Brew er samstarfsverkefni Te & Kaffi og Kaupfélags Skagfirðinga, sérvalið kaldbruggað gæðakaffi frá Te & Kaffi og úrvalsmjólk frá Mjólku.
Nýju umbúðunum hefur verið mjög vel tekið og drykkurinn fer vel af stað. Kærkomin viðbót í drykkjaflóruna fyrir fólk á ferðinni í sumar.

Nýtt merki fyrir NPA miðstöðina

NPA eru upphafsstafir orðanna „notendastýrð persónuleg aðstoð“. NPA miðstöðin er samvinnufélag í eigu fatlaðs fólks. Þessi miðstöð er 10 ára og við hönnuðum nýtt merki fyrir þau í tilefni af því. Nýja merkið er gert úr sjö aðskildum flötum sem mynda bókstafina NPA og eru byggðir á klassísku geómetrísku formunum, hring, ferhyrningi og þríhyrningi. Fletirnir endurspegla margbreytileika mannlífsins, gildi NPA miðstöðvarinnar um inngilt samfélag og þá fjölbreytni sem einkennir starfsemina. Fletirnir mynda um leið sterka heild enda er þátttaka fatlaðs fólks mikilvæg til að stuðla að heildstæðara samfélagi.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.