Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#109
6/6/2019
Pipar\TBWA tilnefnd til ljóns í Cannes
Stöðvum feluleikinn – UNICEF
Sjóvá kvennahlaup ÍSÍ
KFC – troddu þessu í grímuna á þér
Til fyrirmyndar og frábær í jafnrétti
Pipar\TBWA tilnefnd til ljóns í Cannes

Pipar\TBWA hefur hlotið tilnefningu til Ljónsins í Cannes fyrir HeForShe-herferð UN Women; „Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur“. Herferðin er tilnefnd til Glerljónsins (Glass Lion) en samkvæmt lýsingu hátíðarinnar er það flokkur almannaheillaauglýsinga sem ætlað er að „breyta heiminum með jákvæðum áhrifum á málefni eins og t.d. rótgróna kynjamismunun, ójafnvægi eða óréttlæti“.

Herferðin var valin almannaheillauglýsing ársins á Lúðrinum – íslensku auglýsingaverðlaununum, og herferð ársins á verðlaunahátíð Félags íslenskra teiknara (FÍT). Hún vakti strax gríðarlega athygli og sterk viðbrögð hér á landi þegar hún var sett í loftið í september 2018. Í myndbandi herferðarinnar les hópur karlmanna, þekktra sem óþekktra, upp sannar frásagnir kvenna af kynbundnu ofbeldi frá ýmsum heimshornum. Þeir komast svo að því, í miðjum lestri, að þolandinn í einni frásögninni, situr á móti þeim. Sú hugrakka kona, Sigrún Sif Jóelsdóttir, var upphaflega nafnlaus en steig síðar fram í fjölmiðlum.


Verkefnið er með þeim erfiðari og viðkvæmari sem við höfum unnið og allt ferlið tók mikið á – en eftirleikurinn og viðbrögðin því gleðilegri og við erum bæði þakklát, hrærð og stolt.

Ljónið í Cannes eru stærstu og virtustu auglýsingaverðlaun heims og gjarnan lýst sem einskonar Óskarsverðlaunum auglýsingabransans. Innsendingar í keppnina skipta tugum þúsunda ár hvert og berast hvaðanæva að úr heiminum. Hátíðin fer fram dagana 14.–21. júní nk. og héðan sendum við tvo fulltrúa á staðinn.

Við viljum þakka starfsfólki UN Women fyrir samstarfið, traustið, jákvæðnina og áræðnina. Ykkar starf er ómetanlegt. Takk fyrir okkur.

Hægt er að horfa á auglýsinguna hér.

Stöðvum feluleikinn – UNICEF

„Stöðvum feluleikinn er átak UNICEF til að vekja athygli á ofbeldi gegn börnum á Íslandi. Ofbeldi er ein helsta ógn sem steðjar að börnum hér á landi. Á Íslandi búa 80.383 börn. Fleiri en 13.000 af þeim verða fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn, sum hver daglega.“

Svona hljómar hluti tilkynningar frá UNICEF vegna verkefnisins og segir allt sem segja þarf. Pipar\TBWA vann allt efni fyrir herferðina í ánægjulegu samstarfi við samtökin og Skot Production.

Verkefnið er hægt að skoða hér.

Sjóvá kvennahlaup ÍSÍ

2019 markar 30 ára afmæli Kvennahlaupsins og því verður fagnað um allt land á hlaupadaginn þann 15. júní. Margt hefur breyst frá árinu 1990 þegar hlaupið fór fyrst fram og ástæða til að fagna.

Í samvinnu við ÍSÍ og Sjóvá unnum við efni fyrir þessi tímamót, tókum viðtöl við konur á öllum aldri og veltum upp mikilvægi hlaupsins í fortíð, nútíð og framtíð. Úr varð bakbein herferðarinnar, þriggja mínútna myndband sem fangar anda hlaupsins og mikilvægi. Allt ljósmyndaefni var framleitt við sama tilefni og viðtölin tekin í undirbúningi fyrir myndatökurnar.

KFC – troddu þessu í grímuna á þér

BDSM-búningaæði Íslendinga náði áður óþekktum hæðum með stuðningi okkar allra við Hatara í Eurovision. Hataragríman svokallaða er víst ekki til á hverju heimili og sennilega óþarflega dýr fjárfesting fyrir eitt kvöld. Við brugðum því á það ráð að útbúa pappagrímur sem viðskiptavinir KFC fengu með hverri keyptri fötu. Það fór eins og okkur grunaði. Fatan sigraði – og hatrið líka.

Til fyrirmyndar og frábær í jafnrétti

Á dögunum var okkur boðið til veislu hjá VR í tilefni af því að niðurstöður könnunarinnar Fyrirtæki ársins 2019 voru gerðar opinberar. Pipar\TBWA er í flokki meðalstórra fyrirtækja og svörun í könnuninni meðal okkar starfsmanna var 80–100%. Pipar\TBWA lenti meðal 15 efstu fyrirtækja í flokknum sem gefur okkur þar með rétt til að kalla okkur Fyrirmyndarfyrirtæki VR og við erum auðvitað ljómandi ánægð með þann árangur. Það gleður okkur þó sérlega mikið hvað við skorum hátt í jafnrétti en við vorum með næsthæsta stigafjölda í flokknum.


Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.