Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#120
11/6/2020
Fer þetta ekki allt að koma?
Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ
Hey Ísland
1944 árið 2020
Af afrekum erlendis
Fer þetta ekki allt að koma?

17. júní er framundan og tími til kominn að treysta sín heit, jafnvel skunda á Þingvöll. Árið 2020 er einstakt og það verður eftirminnilegt – og það er alls ekki búið. Því miður getum við ekki séð fram í tímann til að undirbúa okkur þannig að allt verði í lagi þegar „himnarnir opnast á ný“, og ferðamennirnir streyma inn. En allir eru að reyna að gera sitt besta. Í Auglýsingalandi höfum við misst nokkra væna spæni úr aski sökum kórónuveirunnar. Þeirra stærstur er líklega Eurovision-keppnin. Flestar auglýsingastofur vinna einhver verkefni í tengslum við Eurovision enda er það stærsti og viðamesti sjónvarpsviðburður ársins. Öll Júró-partíin með tilheyrandi grillmat, snakki, sælgæti og gosi. Sjónvörpin, jafnvel nýju húsgögnin – við erum iðulega önnum kafin í apríl og maí við að gera efni til að koma öllu mögulegu á framfæri og auglýsa í tengslum við Eurovision. Þó að við höfum loksins „unnið“ Eurovision í ár nýttist það okkur ekki á sama hátt og oft áður til þess að snúa hjólum atvinnulífsins. En við sendum hinum frábæra Daða heillaóskir engu að síður.

Einhver myndi líka eflaust vilja nefna EM í knattspyrnu. En nei, sú keppni var sömuleiðis blásin af. Svo voru það Ólympíuleikarnir. Þeim var náttúrlega frestað. Samúð okkar liggur vissulega hjá afreksíþróttafólkinu sem hefur æft þrotlaust fyrir þann viðburð. Það er að minnsta kosti deginum ljósara að við vinnum ekki mörg verkefni í tengslum við Ólympíuleikana þetta árið.
Og hvað gerum við þá? Jú, við höldum af stað innanlands með ferðaávísun ríkisins upp á vasann og gerum gott úr þessu. Skundum, ekki bara á Þingvöll, heldur út um allt land. Á íslenskum auglýsingastofum snúast býsna mörg verkefni þetta sumarið um að minna á vini við veginn, kvennahlaupin, rammíslenska grill-matinn, brakandi ferska íslenska grænmetið með svo litlu kolefnisspori að það sést varla, snakkið, sælgætið og skyndibitann, rétt eins og fyrr.
Allt í kurteislegri fjarlægð hvert frá öðru með nýþvegnar og sprittaðar hendur.

P.S. Meðfylgjandi mynd er af þekktu kennileiti á Íslandi, tekin á ferðalagi – innanlands.

Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ

Annað árið í röð komum við að Kvennahlaupinu. Í fyrra var stóra afmælisárið í forgrunni enda hlaupið þá hvorki meira né minna en 30 ára. Í ár var verkefnið ekki minna í sniðum því ný hugsun umlykur alla framkvæmd, umhverfisvitund, nýtni og samfélagsábyrgð.

Kvennahlaupsbolurinn í ár var endurhugsaður frá grunni. Við fengum Linda Árnadóttur fatahönnuð og eiganda Scintilla til liðs við okkur í hönnunina og síðan landsþekktar konur á öllum aldri til að aðstoða okkur við kynninguna. Þær birtast við tvennar aðstæður þar sem bleiki bakgrunnurinn táknar æfingaaðstæður en sá vínrauði hversdagslega notkun.

Hey Ísland

Ferðaþjónustusamtökin Hey Ísland leituðu til okkar með stefnumótunarvinnu og gerð auglýsingaefnis sem beint væri að Íslendingum. Hey Ísland, sem áður hét Ferðaþjónusta bænda, samanstendur af um 160 gististöðum um allt land með fjölbreyttum afþreyingarmöguleikum og upplifunum. Verkefnið snerist því um að útbúa efni sem nýttist fyrir sameiginlega markaðssetningu samtakanna en væri hlutlaust hvað varðar einstaka þjónustu eða staðsetningu.

1944 árið 2020

Það var 1992 sem fyrstu 1944 réttirnir litu dagsins ljós hjá SS. Á þeim 28 árum sem liðin eru síðan þá hafa þeir margsinnis undirgengist breytingar á umbúðum í takt við tíðarandann hverju sinni. Undanfarna mánuði höfum við verið að dressa 1944 umbúðirnar dálítið upp eins og neytendur hafa eflaust orðið varir við í verslunum. Grunnlitur og letur er orðið töluvert ljósara og bjartara en áður en merkið er hið sama.

Af afrekum erlendis

Herferðin STÖÐVUM FELULEIKINN sem við unnum fyrir UNICEF í fyrra hefur verið tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna innan samtakana. Ár hvert horfir UNICEF yfir allar herferðir sínar á heimsvísu og verðlaunar í nokkrum flokkum. STÖÐVUM FELULEIKINN er tilnefnd í flokknum „Integrated campaigns and events“ og sjá landsnefndir og landsskrifsstofur um allan heim um að úrskurða sigurvegara. Sigurvegarar verða tilkynntir þann 18. júní á Skill Share-ráðstefnu UNICEF sem að þessu sinni verður haldin sem fjarráðsstefna yfir alnetið.

TBWA hlaut viðurkenningu sem auglýsingastofukeðja ársins á heimsvísu annað árið í röð á hinum árlegu ADC Awards þann 22. maí síðastliðinn. Þá vann TBWA\Media Arts Lab til verðlauna sem stofa ársins og á þeirra vegum var herferðin BOUNCE fyrir Apple AirPods valin sú besta. Hátíðin var sú 99. í röðinni og stefnan því tekin á þrennuna á hundrað ára afmælinu.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.