Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#128
3/6/2021
Á ferð um haf og himininn
KFC og bitamagnið
Er þetta Sjúkást?
Ný myndbönd í umferð
Gervigreind í þína þágu
Verðlaun fyrir bestu leitarherferð
Á ferð um haf og himininn

Fréttir af flugfélögum og flugi eru ofarlega í öllum vefmiðlum þessa dagana. Nýtt íslenskt flugfélag er að leggja í hann og nýtt norskt flugfélag hefur sig til flugs um næstu mánaðamót. Fréttir af ráðsetta flugfélaginu og ferðaskrifstofunum hérlendis hljóða allar á svipaða lund, bókanir ganga glimrandi. Út vil ek. Og síðast en ekki síst, ferðafólk er á leið til landsins. Hjólin eru að fara að snúast á ný. Talað er um að hætta að skima bólusetta. Hvert er þetta að fara eiginlega?
Á sama tíma hyggst heilbrigðisráðherra aflétta öllum takmörkunum. Það er auðvitað gjörsamlega geggjað. Bjartsýnin grípur tryllingslega um sig, en vissulega á varfærinn hátt. Langþráð frelsi til að vera við sjálf, en flest þurfum við að venjast birtunni af frelsinu enda langar engan til að taka skref til baka.

Ferðamenn sem teknir eru að „streyma“ til landsins ná vonandi fljótt og vel að blása lífi í einn okkar stærsta atvinnuveg. Við finnum það líka í okkar starfsemi að sú hlið sem snýr að erlendu ferðafólki er að glæðast hressilega. Um leið er full ástæða til að gæta vel að því að vanda til verka. Við höfum sagt það áður og segjum það enn, hugum vel að uppbyggingu vörumerkja og framsetningu á þeim og síðast en ekki síst; góðri hönnun. Því hún skiptir gríðarlega miklu máli.

Sjómannadagurinn er um næstu helgi og teiknimyndin í hausnum á Fimmtudeginum að þessu sinni er vísun í hann, þennan dag sem haldinn hefur verið hátíðlegur í bráðum heila öld af sjómönnum og fjölskyldum þeirra. Og auðvitað af okkur landkröbbunum líka.
Sjómannadagurinn leiðir hugann aftur að stærsta núverandi atvinnuveginum. Ættum við kannski að halda dag ferðaþjónustunnar hátíðlegan? Slá honum jafnvel upp í frídag? Það vantar til dæmis alveg frídag í febrúar. Við gætum hannað merkið og fundið gott nafn á hann.

KFC og bitamagnið

Í anda Daða og gagnamagnsins gerðum við 8-bita útgáfu af ofurstanum fyrir KFC í kringum Eurovision. Hljóðmyndin var byggð á „hittara frá í fyrra“ þar sem Sanders hafði sungið namminamm-útgáfu af þekktu íslensku lagi og í samvinnu við Baldur Ragnarsson og Hljóðkirkjuna varð til gamaldags tölvuleikjastef. Og sjón er sögu ríkari. Spurning hvort næsta verkefni ætti að vera gerð tölvuleiks í fullri lengd?

Er þetta Sjúkást?

Fjórða árið í röð réðumst við í vitundarátak fyrir Stígamót en Sjúkást hefur vaxið og dafnað frá árinu 2018. Að þessu sinni kviknaði hugmynd þegar Unnsteinn Manuel flutti lagið Er þetta ást? í Tónatali RÚV en lagið var upphaflega flutt af Páli Óskari. Við fengum áhrifamikið fólk úr mörgum kimum þjóðfélagsins til þess að velta fyrir sér aðstæðum sem upp koma í samböndum og viðbrögðum okkar við þessum aðstæðum. Við það sköpuðust hárbeittar umræður, hvað er ást og hvað ekki?

Avista uppfærði vefinn www.sjukast.is í aðdraganda verkefnisins en sá vefur hýsir til að mynda Sambandspróf Stígamóta sem var fókuspunktur herferðarinnar: Sambandspróf | Sjúkást

Við viljum koma þökkum á framfæri til höfunda lags og texta, fólksins fyrir framan linsuna, Írisar Daggar Einarsdóttur sem tók ljósmyndirnar og allra sem að verkinu komu.

Ný myndbönd í umferð

Síðastliðið ár höfum við unnið að teiknuðum kynningar- og fræðslumyndböndum með Samgöngustofu. Við þekkjum öll myndböndin sem gjarnan sjást á sjónvarpsskjánum milli annarra dagskrárliða með tilheyrandi upptökum úr umferðinni. Hugmyndin er að þau færist smám saman yfir í hið teiknaða form. Nú þegar hafa birst myndbönd um rafhlaupahjól, öryggisbúnað barna og umgengni við hesta nálægt annarri umferð, sem var samvinnuverkefni Samgöngustofu, Landssambands hestamannafélaga og Horses of Iceland.

Gervigreind í þína þágu

Gervigreindaráskorunin Elemennt er opið vefnámskeið um þróun, hlutverk og möguleika gervigreindar sem ríkisstjórn Íslands ákvað að fjárfesta í til að styrkja íslensku þjóðina og auka samkeppnishæfni hennar. Námskeiðið er unnið í samvinnu við Ísland.is, HÍ og HR og er hluti af aðgerðaráætlun fyrir Ísland í fjórðu iðnbyltingunni. Til að kynna verkefnið fengum við nokkra þjóðþekkta einstaklinga í lið með okkur, þar á meðal forsætisráðherra, til að sýna fram á við getum öll verið sérfræðingar á okkar sviðum, án þess að þekkja alla króka og kima þessarar nýju tækni, sem tekur æ meira pláss í samfélaginu og er mörgum okkar framandi. Á samfélagsmiðlum geta svo einstaklingar skorað á aðra að taka námskeiðið.

Verðlaun fyrir bestu leitarherferð

Pipar\Engine vann til verðlauna nú í maí á European Search Awards 2021 fyrir bestu leitarherferð í flokki tískuvöru, sem unnin var fyrir norska ullarfataframleiðandann Lanullva.
Lanullva vildi stækka heimamarkað sinn í Noregi. Við mótuðum markaðsstefnu sem skilaði fyrirtækinu miklum árangri – vitund og sýnileiki jukust, viðskipti jukust og viðskiptavinahópurinn stækkaði. Við fögnum verðlaununum með viðeigandi hætti og sendum vinum okkar hjá Lanullva hamingjuóskir!

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.