Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#108
9/5/2019
Lífið er of stutt fyrir miðjumoð
Gray line og tökustaðir
Afmæli og rósir
Innspýting í hagkerfið
Tilnefnd fyrir herferð um enska boltann
Mikilvægi þess að huga að bestun á lendingarsíðu!
Lífið er of stutt fyrir miðjumoð

John Hunt verður aðalfyrirlesari á Krossmiðlun 2019. Hann þjónar stöðu sem Creative Chairman hjá TBWA\Worldwide – en þá er ekki öll sagan sögð.

John Hunt er fæddur í Zambíu. Árið 1983 stofnuðu hann og félagar hans stofuna TBWA\Hunt\Lascaris undir einkunnarorðunum: Life's too short to be mediocre. Stofan er í dag í fararbroddi auglýsingastofa á heimsvísu og hefur hlotið viðurkenningar á borð við auglýsingastofa aldarinnar árið 2000 og auglýsingastofa áratugarins 2010, en það sama ár varð herferð fyrir dagblaðið The Zimbabwean að verðlaunuðustu herferð allra tíma.

John tók ríkan og persónlegan þátt í kynningarstarfi og kosningabaráttu Nelson Mandela fyrir forsetakosningarnar 1993 og sýndi þannig fram á að auglýsingar geta svo sannarlega gert heiminn að betri stað. Eftirleikinn þekkja flestir. Suður-Afríka hafði á þessum tíma gengið gegnum afar erfiða tíma en í kjölfar hinna sögulegu kosninga mjakaði hið særða samfélag sér í átt að sátt og lýðræði.

Árið 2003 fluttist John til New York, tók þar við starfi sem Worldwide Creative Director og hélt áfram á lofti hugmyndafræði sinni: Snilldin liggur ekki í auglýsingunum sjálfum heldur í hugmyndunum að baki þeim. Við komuna til NY kom hann á fót Young Bloods-verkefninu en í því felst að fela ungu og óreyndu fólki erfið, krefjandi og raunveruleg verkefni, þvert á þá venju að láta starfsnema byrja á botninum. Pipar\TBWA setti sitt eigið Young Bloods-verkefni á laggirnar árið 2014 og út úr því komum við öll reynslunni ríkari.

2006 fluttist John aftur til Suður-Afríku og sinnir vinnu sinni fyrir TBWA\Worldwide að mestu frá Jóhannesarborg.

John Hunt hefur setið í fjölmörgum nefndum og akademíum stærstu verðlaunahátíða heimsins, til að mynda sem formaður Cannes Film, Press & Outdoor Advertising Festival árið 2005. Til viðbótar hefur hann skrifað leikrit, bækur og fyrir sjónvarp. Hann var útnefndur sem leikskáld ársins í Suður-Afríku fyrir verk sitt Vid Alex, verk sem fordæmdi harkalega ritskoðun á tímum aðskilnaðaráranna og vakti gríðarlega athygli.

Við hvetjum allt áhugafólk um skapandi hugsun til að lesa bók Hunt, The Art of the Idea: And How It Can Change Your Life. Sú lesning er fullkomin upphitun fyrir fyrirlesturinn hans á Krossmiðlun þann 13. september 2019. Sjáumst!

Gray line og tökustaðir

Í öllum auglýsingum og markaðsefni erum við að tala við fólk, segja sögu. Við þekkjum það best sjálf að við hlustum betur þegar er talað beint við mann. Það er meðal annars ástæðan fyrir því hve myndbönd henta vel á samfélagsmiðlum. Við viljum að það sé talað við okkur. Bæði stutt og löng myndbönd eiga rétt á sér og það fer allt eftir tilefninu hverju sinni hvað hentar. Gray Line, einn viðskiptavina okkar, er með rútuferð þar sem ferðamenn geta skoðað tökustaði Game of Thrones þáttanna, en eins og aðdáendur þessara þátta vita þá eru mörg atriði í þeim tekin upp hérlendis. Við gerðum á dögunum myndband sem var birt á Facebook-síðu Gray Line og kynnir leiðsögumann þessara ferða.

Afmæli og rósir

Lyf & heilsa fagnar 20 ára afmæli núna í ár. Allt efni frá Lyfjum & heilsu verður auðkennt með þessu blómlega rósatákni á afmælisárinu. Við óskum Lyfjum & heilsu hjartanlega til hamingju með afmælið og vonum að verslanir þess blómstri sem aldrei fyrr.

Innspýting í hagkerfið

Íslendingar eru almennt ansi hrifnir af Eurovision. Aðeins tvisvar á ári setjast svo margar fjölskyldur saman fyrir framan sjónvarpið og þjóðin heldur veislu. Bjóðum vinum og vandamönnum því við viljum njóta þessarar stundar saman – ekki síst þegar kemur að því að fagna. Oftar en ekki verður niðurstaðan þó ekki sérlega hagfelld, eða m.ö.o. við komumst ekki upp úr riðlinum. Eða eins og segir í kvæðinu: „…Gleðin tekur enda. / Enda er hún blekking. / Svikul tálsýn.“ (Hatrið mun sigra eftir Hatara).
Næstkomandi þriðjudagskvöld fæst úr því skorið hvort VIÐ komumst áfram. Og ef það gerist þá verður sko hátíð laugardagskvöldið 18. maí. En hvað sem því líður verðum við sem vinnum við auglýsinga- og markaðsmál alla daga mjög vör við Eurovision, einn stærsta sjónvarpsviðburð ársins. Það þarf nefnilega að auglýsa helling, allt frá snakki upp í grillkjöt og gos og einhver ósköp þar á milli. Að því leyti er Eurovision tækifæri sem ótal fyrirtæki sjá hag í að nýta sér. Hjól atvinnulífsins snúast á fleygiferð – þrátt fyrir hið yfirlýsta markmið fulltrúa okkar í Eurovision þetta árið, – að knésetja kapítalismann.
Örlítið meiri franskar? Einhver?

Tilnefnd fyrir herferð um enska boltann

The Engine sem sérhæfir sig í markaðssetningu á netinu var á dögunum tilnefnt til The European Search Awards. Það var fyrir herferð sem unnin var í fyrra fyrir Enska boltann á Stöð 2 Sport. Þessi herferð var aðeins á netinu og henni var beint á stuðningsmenn ákveðinna liða í Enska boltanum. Áhugasamir geta lesið meira um þetta hér.

Mikilvægi þess að huga að bestun á lendingarsíðu!

Í allri stafrænni markaðssetningu skiptir undirbúningur og skipulagning mjög miklu máli. Hvað er lendingarsíða og hvaða máli skiptir hún, hvernig á hún að vera og hvað ber að forðast. Einn af kostum stafrænnar markaðssetningar er tvímælalaust sá hversu auðvelt er að fylgjast með árangri af birtingum og breyta áherslum með tiltölulega lítilli fyrirhöfn ef þörf krefur. Í þessari blogg-grein sem birtist á vefsíðu The Engine er hægt að fræðast nánar um þetta.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.