Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#119
14/5/2020
Íslenskt markaðsfólk
Markaðsefni fyrir Teyg
Íslensk bleikja í USA
Sumarsmellurinn frá Góu
Pipar\TBWA í 2. sæti af 15
Níu tilnefningar – og besta íslenska vefherferðin
Íslenskt markaðsfólk

Það er mikilvægt fyrir okkur öll að hér á Íslandi séu til sérfræðingar í alþjóðlegri markaðssetningu og kynningarmálum. Við erum lítil eyja með rétt yfir 360.000 manna þjóð og höfum margt að bjóða heiminum. Hér þrífst öflugt og fjölbreytt atvinnulíf, ferðaþjónusta, hugvit sem við flytjum út og íslenskar vörur eru þekktar fyrir gæði. En slíkt gerist ekki af sjálfu sér.

Til þess að fá besta mögulega verð fyrir þessi gæði þarf að markaðssetja vöruna rétt, ná til rétta hópsins með þeim fjármunum sem við höfum yfir að ráða. Við erum lítil í samanburði við hinn stóra heim og þess vegna höfum við takmarkað fjármagn. Til þess að markmiðum okkar sé náð þurfum við snjallt markaðsfólk sem setur upp strategíu, framleiðir markaðsefni og nær vel til markhópsins.


Við höfum á að skipa öflugu og vel menntuðu íslensku markaðsfólki. Því fleiri tækifæri sem bjóðast, þeim mun þjálfaðra og betra verður þetta fólk í sinni grein, sérstaklega hvað varðar stærri verkefni. Það gerist nefnilega ekki af sjálfu sér. Íslensk fyrirtæki geta óhrædd gefið þeim tækifæri til að vinna þau verkefni sem upp koma. Ég skora á íslensk fyrirtæki, stjórnvöld og alla landsmenn að leita til íslenskra sérfræðinga til að sinna þeim verkefnum sem verða til á Íslandi.

Þetta fólk er víða, m.a. inni á auglýsingastofunum innan SÍA, Sambands íslenskra auglýsingastofa. Nú er rétti tíminn til að heyra í þeim og leita ráða.

Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri og formaður SÍA

Markaðsefni fyrir Teyg

Teygur er nýr hágæða prótíndrykkur úr smiðju KS í samvinnu við Ívar Guðmundsson og Arnar Grant. Þeir félagar eru gamlar kempur á sviði slíkra drykkja en nú kveður við nútímalegri tón enda Teygur án allra dýraafurða og soja og miðar að því að allir geti drukkið og við allar aðstæður.
Við hjálpuðum til við að setja alls fjórar tegundir á markað, fundum nafn á vöruna, hönnuðum umbúðir, settum upp vefsíðuna, bjuggum til allrahanda auglýsingar og smökkuðum drykkinn til. Ojæja, kannski áttum við ekki stærstan þáttinn í því hvernig Teygur smakkast, en við fengum þó að vera með í því ferli.

Íslensk bleikja í USA

Í mars síðastliðnum réðumst við í umfangsmikla áhrifavaldaherferð með Whole Foods í Bandaríkjunum til að auglýsa íslenska bleikju frá Ice Fresh Seafood. Herferðina unnum við í nánu samstarfi við Ghostlamp, sem sérhæfir sig í áhrifavaldamarkaðssetningu og býr nú yfir stærsta neti áhrifavalda í heiminum. Áhrifavaldarnir fengu það verkefni að elda bleikjuna og deila fallegum myndum með réttum myllumerkjum, en einnig fylgdu með greinaskrif vinsælla matarbloggara og fleira. Það er skemmst frá því að segja að árangurinn af herferðinni var frábær og hún náði öllum tilætluðum markmiðum og vel það.

Sumarsmellurinn frá Góu

Umbúðirnar lýsa innihaldinu vel en hreint ekki bragðinu. En súkkulaði og lakkrís er, eins og alþjóð veit, ómótstæðileg blanda. Og þessir nýju bitar frá Góu eru fáránlega góðir. Bitarnir frá Góu er löngu orðnir ómissandi í helgarinnkaupunum, enda góðir til að bjóða gestum upp á hvenær sem, taka með í bakpoka eða bara til að maula. Við unnum auglýsingaefni fyrir nýju vöruna, en svo sér hún nánast um sig sjálf. Ef þú sérð vöruna í búðinni ættirðu að tryggja þér pakka umsvifalaust því eftirspurnin hefur verið langt umfram framboð.

Pipar\TBWA í 2. sæti af 15

Á þriðjudaginn kom í ljós að Pipar\TBWA hafnaði í öðru sæti í viðamiklu útboði sem Íslandsstofa og Ríkiskaup stóðu fyrir vegna sérstaks markaðsátaks fyrir Ísland í kjölfar Covid-19. Fimmtán stofur, íslenskar sem erlendar tóku þátt, en lögum samkvæmt var verkefnið boðið út á evrópska efnahagssvæðinu. Í efsta sæti varð breska stofan M&C Saatchi Ltd. Þrettán manna dómnefnd fór yfir innsendingar og má segja að þar hafi verið heldur betur mjótt á munum. Minna en 1% skildi að fyrsta og annað sæti, eða 0,82 prósentustig. Í fimm matsatriðum af ellefu voru Pipar og Saatchi hnífjöfn, Pipar var hinsvegar ofar í tveimur matsatriðum, en Saatchi í fjórum.

  1. sæti: M&C Saatchi Ltd., með 87,17 stig af 100
  2. sæti: Pipar\TBWA með 86,35 stig af 100
  3. sæti: Brandenburg með 77,38 stig af 100

Við erum auðvitað súr yfir silfrinu og þeirri hársbreidd sem skilur á milli, en jafnframt afar stolt af þessum góða árangri í harðri samkeppni reynslumikilla stofa, innlendra sem erlendra.

Níu tilnefningar – og besta íslenska vefherferðin

The Engine og Pipar\TBWA hlutu á dögunum fimm tilnefningar til norrænu leitarverðlaunanna, Semrush – Nordic Search Awards. Í gær var svo tilkynnt um úrslit og ein verðlaun komu í hús, en það var spurningaleikurinn Olís-kvizz sem hlaut titilinn „besta vefherferð á Íslandi“. Olís-kvizz var einnig tilnefnt sem „besta lókal herferðin“ en að auki hlutu tilefningar herferðir okkar fyrir ferðafyrirtækið Gray Line (besta b2c herferðin) og tvær fyrir Taxback International (besta b2b herferðin og besta samþætta herferðin), en Taxback er alþjóðlegt fjártæknifyrirtæki á fyrirtækjamarkaði með höfuðstöðvar á Írlandi

Framundan eru svo evrópsku leitarverðlaunin, European Search Awards, en þar eigum við jafnframt fjórar tilnefningar fyrir sömu herferðir: Gray Line („best use of search – travel/leisure“), Olís kvizz („best local campaign“) og tvær fyrir Taxback International („best use of search, b2b“ og „best integrated campaign“). Allar þessar tilnefningar og viðurkenningar eru okkur dýrmæt staðfesting þess að við séum að gera eitthvað rétt í hinum flókna frumskógi stafrænnar markaðssetningar. Þeim fylgir jafnframt bæði heiður og ánægja – og hvatning til að gera enn betur fyrir viðskiptavini okkar.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.