Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#127
6/5/2021
Vegur útvarpsins vex og ÁRA í hús
Allar flottustu snyrtivörurnar
DAS ist gut
Te & Kaffi í átt að grænni framtíð
Þér er boðið á kynningu 11. maí kl. 10–11
Vegur útvarpsins vex og ÁRA í hús

Árlega skila birtingaraðilar inn gögnum til Póst- og fjarskiptastofnunar um skiptingu auglýsinga milli miðla. Nýlega skiluðum við hjá Pipar\Media inn gögnum fyrir árið 2020. Gögnin er ekki síst athyglisvert að skoða í ljósi Covid-ársins því vissulega eru töluverðar breytingar frá venjulegum árum. Prentmiðlar hafa trónað á toppnum í okkar dreifingu, þar á eftir hafa komið sjónvarpsauglýsingar og útvarpið í því þriðja. Árið 2019 gerðist það síðan í fyrsta skipti að útvarp fór upp fyrir sjónvarpið hjá okkur og á síðasta ári náði útvarpið toppsætinu í þeim birtingum sem Pipar\TBWA dreifir í gegnum Pipar\Media og Pipar\Engine. Prentmiðlar og sjónvarp voru með um 22% af kökunni en útvarp með um 24% og fór útvarpið úr 21% árið áður. Síðasta ár var mikið fréttaár og við erum fréttaþyrst þjóð. Flestir vörðu sumarfríinu sínu alfarið innanlands og fylgdust vel með fréttum. Útvarpsauglýsingar eru þess eðlis að þar er hægt að bregðast við með litlum fyrirvara og koma skilaboðum áleiðis: Til að minna fólk á fara í lúguna, minna fólk á að koma í rafræn viðskipti og svo framvegis. Eins þurfti oft og iðulega að breyta skilaboðum hratt, til dæmis um samkomutakmarkanir eða lokanir. Þá reynast útvarpsbirtingar mjög skilvirkar. Aðra markverða breytingu milli ára má einnig sjá hjá innlendum netmiðlum en þeir bættu í raun mestu við sig og fóru úr 16% í rúmlega 19%.

Tími hlustenda/áhorfenda dreifist æ meir milli miðla og streymisveitur taka mikinn tíma fólks. Við verjum minni tíma í heildaráhorf og heildarhlustun á mínútu en samt tekst okkur vel að ná til fólks þar sem við sjáum gott áhorf og hlustun. Það segir okkur líka hvað gott og vandað efni skiptir miklu máli í fjölmiðlum.

Og svo fengum við ÁRU á Lúðrahátíðinni en ÁRA er veitt árlega fyrir árangursríkustu auglýsingaherferð ársins. Þar þurfa allir þættir sem máli skipta fyrir góðan árangur að fara saman; áætlanagerð, markaðsrannsóknir, birtingaáætlanir, hugmyndaauðgi og viðskiptastjórnun.
Herferðin heitir KFC – íslenskt í 40 ár þar sem beitt var húmor með íslenskum Sanders. Herferðin fór í gang áður en Covid-19 skall á og þá bættust við áherslur á öryggi, lúgu og snertilaus viðskipti. Gerðar voru breytingar á appinu og búin til vara sem heitir PikkApp sem gerði það að verkum að viðskiptavinir þurftu ekki að koma inn á staðinn og/eða að bíða í langri röð sem myndaðist við bílalúguna. Við sendum djúpsteiktar kveðjur til okkar kæra KFC með innilegum hamingjuóskum.

Allar flottustu snyrtivörurnar

Lyf & heilsa er svo langt frá því að vera aðeins apótek. Lyf & heilsa er líka ein stærsta og glæsilegasta snyrtivöruverslun landsins. Til að minna á þessa skemmtilegu staðreynd var farið í hátískuljósmyndatöku. Litir, krem, farði og glamúr fengu að njóta sín. Við fengum listafólk í förðun og hárgreiðslu til liðs við verkefnið og Íris Dögg Einars ljósmyndari kom með sitt einstaka auga. Um hár á módelum sá Rakel María Hjaltadóttir, um förðunina Sara Dögg Jónsdóttir og stílisti var Sigrún Ásta Jörgensen. Listræn stjórnun og hugmyndavinna var í höndum Pipars\TBWA. Ljósmyndirnar litríku og fallegu hafa prýtt skýli og skilti höfuðborgarinnar að undanförnu ásamt því að gleðja samfélagsmiðla og aðra vefmiðla.

DAS ist gut

herferð fyrir Happdrætti DAS hefur litið dagsins ljós. Mikið er um fjólubláa og þýska skírskotun í öllu efni, kímni í bland við nytsamlegar upplýsingar og allt þar á milli. Tilefnið er nýtt happdrættisár þar sem margt fallegt er í boði, útdráttur alla fimmtudaga, vinningslíkur með þeim mestu sem þekkjast og aðalmarkmiðið skýrt: Að búa íbúum Hrafnistu sem mesta hamingju og lífsgæði.

Verkið var óskaplega skemmtilegt í vinnslu, gleðin við völd og samstarfið afar gott. Myndvinnsla var í höndum Eyrúnar Eyjólfsdóttur Steffens og Baldur Ragnarsson samdi stefið.

Te & Kaffi í átt að grænni framtíð

Undanfarin misseri hefur Te & Kaffi stigið mikilvæg skref í átt að grænni framtíð og sú vegferð heldur áfram. Drykkjarmál sem afgreidd eru út af sölustöðum Te & Kaffi eru endurvinnanleg og allar vörur frá Te & Kaffi í matvöruverslunum eru komnar í vistvænar, jarðgeranlegar umbúðir.
Undanfarið höfum við hjá Pipar\TBWA unnið að því að kynna neytendum þessi mikilvægu grænu skref sem Te & Kaffi hefur stigið. Það höfum við gert með auglýsingum fyrir sjónvarp, útvarp, vef-, prent- og samfélagsmiðla, til að allir geti séð að Te & Kaffi er nær náttúrunni.

Þér er boðið á kynningu 11. maí kl. 10–11

Árlega stendur South by Southwest fyrir viðburði um lykilatriði í markaðsmálum. SXSW er líklega þekktast fyrir ráðstefnur þar sem kvikmynda- og tónlistariðnaðinum ásamt gagnvirka iðnaðinum er stefnt saman, einstakur suðupottur hugmynda. Í ár litaðist þessi viðburður af aðstæðum, eins og fleiri viðburðir, og var haldinn á vefnum.
Okkur hjá Pipar\TBWA er umhugað um að tengja vörumerki við menningu og fyrirtæki. Við erum því alltaf með augun opin fyrir því hvað SXSW hefur upp á að bjóða, bæði fyrir okkur hjá TBWA og viðskiptavinina.

Í mars tóku 14 stefnumótunarsérfræðingar og hönnuðir frá TBWA þátt í 4 daga ráðstefnu um stefnumótun þar sem þeir deildu reynslu sinni. Við viljum deila lærdómi þessara sérfræðinga með þér og bjóðum þér að  koma á kynningu á Teams. Um kynninguna sjá: Louise Sonne-Bergström (Thaning) stefnumótunarstjóri hjá TBWA\Copenhagen og Matt Chapman skipulagsstjóri hjá TBWA\Stockholm.

Á næstunni gerum við ráð fyrir að vera með fleiri kynningar í samstarfi við TBWA\Nordic.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.