Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#106
7/3/2019
Hvernig náum við til þeirra sem vilja ekki hlusta?
Ég virði mín mörk og þín
Uppáhaldskaffi íslendinga
Þú veist hvað þig vantar
Lúðurinn og fleira
Stafræna byltingin heldur áfram!
Hvernig náum við til þeirra sem vilja ekki hlusta?

Stórfyrirtæki á neytendamarkaði þurfa að endurhugsa hvernig þau nálgast sístækkandi hóp fólks sem hafnar því sem það lítur á sem hefðbundnar stofnanir. Þessi hópur spyrnir við fótum og vísar rótgrónum valdastrúktúrum samfélagsins á bug með það að markmiði fyrst og fremst að hrista upp í kerfinu og skilgreina það upp á nýtt, út frá eigin forsendum.

Þessi hugsunarháttur er samt ekki beinlínis nýr af nálinni. Á undanförnum árum hefur viðhorfið hvað varðar til dæmis afþreyingariðnaðinn, bankastarfsemi og fyrirtækjarekstur breyst mjög og færri líta til stórfyrirtækja í þeim efnum. Tónlistar- og kvikmyndagerðarfólk treystir nú allt eins á hópfjármögnun frekar en úthlutanir opinberra styrkja og stuðning útgáfufyrirtækja. Fjölmargir frumkvöðlar hafa einnig treyst á hópfjármögnun til að koma nýrri vöru eða þjónustu á markað í stað þess að slá lán í næsta banka. Þannig færast völdin á neytendamarkaði að hluta til frá stórfyrirtækjum til einstaklinga.

Ein lausn er að hætta að líta á markhópinn sem neytendur og nálgast hann frekar sem einstaklinga. Ef við ávörpum fólk sem einstaklinga, mætum persónulegum þörfum þeirra og reynum að skilja persónulegar neysluvenjur þeirra eru meiri líkur á því að skilaboðin nái í gegn. Til að byggja upp traust þessa hóps þurfa fyrirtæki líka að vera gagnsæ og heiðarleg hvað varðar allt frá innri uppbyggingu og framleiðsluferla til markaðsstefnu sinnar. Þegar sterk einstaklingshyggja og gagnrýnin hugsun mætast þýðir nefnilega lítið að reyna að blása ryki í augun á fólki með villandi skilaboðum sem það sér strax í gegnum. Einlægni og hreinskilni í bland við sýnilegan vilja til að skilja væntingar og þarfir einstaklinga er eina leiðin til að ná eyrum þeirra sem vilja ekki hlusta.

Ég virði mín mörk og þín

Sjúkást er átak Stígamóta sem hófst í aðdraganda Valentínusardagsins á síðasta ári. Nýtt átak fór af stað nú í mars þar sem þemað var sambandsrófið. Átakinu var ætlað að vekja athygli á einkennum heilbrigðra, óheilbrigðra og ofbeldisfullra sambanda meðal ungmenna. Markmiðið er að koma í veg fyrir ofbeldi með fræðslu um heilbrigð samskipti og áherslu á virðingu í samböndum og að kenna ungu fólki að virða mörk – sín og annarra. Við fengum til liðs við okkur ungt fólk sem markhópurinn þekkir og gerð voru myndbönd fyrir samfélagsmiðla, veggspjöld voru hengd upp í skólum og félagsmiðstöðvum og póstkortum dreift meðal nemenda. Auk þess voru gerð sérstök gif fyrir Instagram story þar sem hægt var að heita því að virða mörk sín og annarra.
Verkefnið.

Uppáhaldskaffi íslendinga

Kaffið frá Te & Kaffi er í uppáhaldi hjá Íslendingum samkvæmt nýlegri könnun. Til að fagna því og þakka fyrir var ákveðið að fara í herferð sem náði yfir sjónvarp, prent og vefmiðla.
Ljúfir, suðrænir tónar hljóma undir sjónvarpsauglýsingunni sem fangar sannarlega þessa einstöku tilfinningu sem fyrsti bolli dagsins færir manni.

Þú veist hvað þig vantar

Stundum vantar einungis fjármagn til að klára heildarmyndina, hvort sem um ræðir einstaklinga eða fyrirtæki. Lykill sýndi hvernig hægt er að klára málin og framkvæma. Herferðin var útfærð í öllum miðlum og hér má sjá dæmi um þær útfærslur.

Lúðurinn og fleira

Pipar\TBWA fékk sex tilnefningar í sex flokkum og það er á morgun, 8. mars, sem kemur í ljós hvort stofan fær einhver af verðlaununum sem í boði eru. TBWA\Worldwide var nýlega valin „Alþjóðleg stofa ársins“ af Adweek eins og við nefndum á sínum tíma og nú hefur bæst við að TBWA\Worldwide komst einnig á topp tíu lista Fast Company 2019 yfir frumlegustu stofurnar á heimsvísu, meðal annars fyrir að finna sífellt nýjar leiðir fyrir Apple® vörumerkið sem stofan hefur lengi séð um. Eitt þeirra verkefna sem vakti sérstaka athygli Fast Company var Instagram-reikningurinn shotoniphoneseries, sem stofan stofnaði fyrir Apple í fyrra, en þar safnast saman myndir sem iPhone-notendur um allan heim hafa birt undir #shotoniphone. Á fyrstu níu mánuðunum náði aðgangurinn 5 milljónum fylgjenda og 2,5 milljónir notuðu myllumerkið í fyrsta sinn.

Stafræna byltingin heldur áfram!

Í hóp annars frábærra aðalfyrirlesara á Reykjavík Internet Marketing Conference hefur nú bæst sjálfur Axel Strelow, svæðisstjóri Facebook fyrir Ísland og Norðurlönd.

Það kann að koma á óvart en staðreyndin er sú að þrátt fyrir mikla og ört vaxandi notkun hérlendis á Facebook Business auglýsingum þá hafa Íslendingar ekki haft sinn eigin fulltrúa hjá samfélagsmiðlarisanum til að leita til varðandi auglýsingaherferðir á Facebook Business Manager. Það breyttist á dögunum og Axel Strelow er okkar maður í Dublin. Það verður því áhugavert að fá tækifæri til að hitta Axel og heyra hvað hann hefur að segja því eins og hann orðar það sjálfur: „I work with the biggest actors in the region and my goal is to help them formulate and execute effective paid advertising strategies on Facebook“.


Ráðstefnan er haldin 5. apríl á Grand Hotel, einstakt tækifæri fyrir þá sem vilja fræðast um allt það nýjasta í netmarkaðssetningu. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og fyrirlesarana má finna hér.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.