Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#117
12/3/2020
Disruption – Stefnumótun
Olís-peysan fékk lúður
KFC 40 ára
Sjúkást
Teygur – Í krafti náttúrunnar
Markaðssetning í smithættu
Disruption – Stefnumótun

Hvenær er rétt að fara í Disruption?

Þegar vörumerki stendur frammi fyrir áskorun, upplifir stöðnun, breytt samkeppnisumhverfi eða markaðsaðstæður og nauðsynlegt er að rýna af gagni í allt starfið með það að markmiði að ná sérstöðu eða auknum árangri.

Í markaðsstarfi, og ekki síður auglýsingagerð, hættir okkur stundum til að gera hlutina á sama hátt aftur og aftur. Sú hegðun getur verið innbyggður vani í eigin starfi eða vegna hefða sem ríkja á þeim markaði sem við störfum á. Þetta verður með tímanum eitthvað sem við gerum ómeðvitað af því að það er við hæfi. Við höfum jú alltaf gert þetta svona!

Góður árangur í markaðsstarfi kallar á reglulega sjálfsrýni. Vörumerki í harðri samkeppni geta ekki fylgt í fótspor annarra heldur þurfa þau að vera leiðandi, á undan breytingum, í takti við tíðarandann og finna sérstöðu sem tryggir betri árangur.

Í Disruption rýnum við í núverandi markaðsstarf með gagnrýnum hætti, greinum hefðir sem halda aftur af vörumerkinu og mörkum því skýrari sérstöðu með nýrri markaðslegri sýn.

Um það snýst Disruption, stefnumótandi aðferðafræði sem TBWA hefur þróað í auglýsingagerð í yfir 40 ár.

Hjá markaðsstjórum getur stundum farið drjúgur tími í að sannfæra aðra innan fyrirtækisins um fyrirhugaðar herferðir hverju sinni, útskýra hvers vegna þessi nálgun eða hin varð fyrir valinu. Þetta verður auðveldara eftir Disruption. Í Disruption-vinnu höldum við vinnustofur með viðskiptavinum, starfsfólki í markaðsdeild ásamt lykilstjórnendum og niðurstaða vinnunnar verður okkar sameiginlega niðurstaða.

Það auðveldar vinnuna í framhaldi því allir stefna í sömu átt.

Olís-peysan fékk lúður

Eins og annað markaðsfólk fögnuðum við á föstudagskvöldið. Ekki síst vegna þessa að Olís-peysan hreppti Lúður í flokknum Umhverfisauglýsingar og viðburðir.
1927 Orginal Olís er fatalína sem framleidd var í takmörkuðu upplagi til heiðurs langri sögu Olís á Íslandi – retro rúllukragapeysur, hettupeysur, bolir, sokkar og derhúfur. Til að auglýsa línuna fengum við tónlistarmanninn Árna Pál Árnason, betur þekktan sem Herra Hnetusmjör, til að klæðast rúllukragapeysunni á Menningarnótt 2019 þar sem hann kom fram á tveimur sviðum. Í framhaldinu voru fötin boðin til sölu í pop-up-verslun á skemmtistaðnum Prikinu og einnig í stuttan tíma í vefsölu á Shopify.

KFC 40 ára

Í október næstkomandi verða 40 ár liðin síðan Helgi í Góu opnaði fyrsta KFC-staðinn á Íslandi. Íslendingar hafa á þessum árum tengst þessari kjúklingakeðju sterkum böndum, raunar áttuðum við okkur á því að Sanders hlyti að vera orðinn Íslendingur eftir allan þennan tíma og í gegnum þá vinnu kviknaði slagorðið: KFC – íslenskt í 40 ár.
Þá var bara að finna rétta manninn til að túlka þann gamla. Efsta nafn á lista var reyndar alltaf Halldór Halldórsson, Dóri DNA, enda yfirlýstur KFC-aðdáandi sem þekkir vöruna inn og út. Við framleiðslu sjónvarpsauglýsinganna var valin manneskja í hverju rúmi. Republik sá um handtökin við kvikmyndun, Magnús Leifsson leikstýrði, Svenni Speight tók ljósmyndir, Margrét Einarsdóttir hannaði búninga. Stjarnan bak við tjöldin verður þó að teljast Ragna Fossberg sem umbreytti Dóra á ótrúlegan hátt.
Þegar þetta er skrifað hefur aðeins brot af framleiðslunni komið fyrir augu almennings. Við eigum gott KFC-ár í vændum.

Sjúkást

Stígamót hafa nú þriðja árið í röð hrint af stað átaki undir yfirskriftinni Sjúkást, en því er sérstaklega beint að ungu fólki. Umfjöllunarefnið er heilbrigt kynlíf, eðlileg samskipti, klám, ýmsar ranghugmyndir sem eru á sveimi og mikilvægi þess að skoða, þekkja, njóta, elska – og umfram ALLT – tala saman. Við unnum þrjú myndbönd í samstarfi við Stígamót þar sem við fengum nokkur frábær ungmenni í myndver. Guðmundur Felixson og Eva Halldóra Guðmundsdóttir komu inn í handritsgerðina með okkur og stórskemmtilegar myndskreytingar eftir Rán Flygenring settu svo punktinn yfir i-ið.

Teygur – Í krafti náttúrunnar

Arnar Grant og Ívar Guðmunds eru engir nýgræðingar á sviði próteindrykkja. Áratugalöng reynsla þeirra skapaði Teyg, heiðarlegan próteindrykk sem fangar gildi nútímans.

Það er KS sem framleiðir Teyg, glænýjan næringardrykk úr baunapróteini. Drykkurinn er vegan og verður fáanlegur bæði sem möndlu- og hafradrykkur, fjórar tegundir í allt. Í okkar hlut kom að finna nafn og útlit vörunnar, framleiða herferð og sjá um rekstur hennar. Herferðin er á stigi eftirvinnslu og varan væntanleg í hillur verslana á næstum dögum.
Umbúðirnar eru hannaðar með náttúruna í huga, kvistpappír og litir úr umhverfinu. Í stað þessa að velja mjög sterka typógrafíu sem oft einkennir orku- og próteindrykki var sú leið farin að nota nýtt serif-letur sem tengir saman nútímann og fortíðina. Litafletirnir eru hannaðir þannig að hægt sé að raða fernunum í hvaða röð sem er í hillu en munstrið passi alltaf saman.

Herferðin er á stigi eftirvinnslu og varan væntanleg í hillur verslana á næstum dögum.

Markaðssetning í smithættu

Á tímum þegar hvatt er til minni samskipta vegna smithættu er samt sem áður mjög mikilvægt að halda „hjólum atvinnulífsins“ gangandi. Fyrirtæki sem starfa á vettvangi B2B eða fyrirtækjamarkaði treysta mjög mikið á ráðstefnur og viðburði til að kveikja áhuga væntanlegra viðskiptavina sinna. Það er augljóslega allt annað en heppilegt í ljósi COVID-19. Verkefni The Engine þessa dagana hafa að undanförnu litast töluvert af þessu með því að aðstoða B2B fyrirtæki, sem alla jafna sækja viðskipti í gegnum bein samskipti við að sækja tækifæri eftir stafrænum og snertilausum aðferðum. Þar má nefna áhugaverðar leiðir til að ná til markhópsins, eins og miðun á markhóp eftir starfstitlum á LinkedIn eða miða beint á sérstök fyrirtæki með IP-tölum.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.