Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#102
1/11/2018
Reprómaster, vaxvél og rauðfólía
Er þetta bara komið? Ráðstefna Jafnvægisvogar FKA
#allirkrakkar
Kryddaðir, mjúkir, litríkir og góðir drykkir
Tilnefning til Google Premium Partner Awards
Reprómaster, vaxvél og rauðfólía

Vinna á auglýsingastofum var dáltið öðruvísi fyrir þrjátíu árum.
Reprómaster, vaxvél og rauðfólía voru mikilvæg tól í allri hönnunar- og umbrotsvinnu. Fyrsta verk á stofu að morgni var að kveikja á vaxvélinni. Fyrr var ekki óhætt að hella upp á kaffi. Grafískir hönnuðir notuðu teiknibretti og óstýriláta teiknipenna sem gjarnan vildu stíflast.
Fyrirsagnir voru nuddaðar af límstafaörk á dauft strik á karton sem var vandlega afstillt á teiknibrettinu svo línan yrði bein. Letur var valið með því að handskrifa heiti letursins, punktastærð og línubil á spássíu textans sem var vélritaður á pappír. Síðan var merkti textinn sendur í næstu prentsmiðju – með leigubíl – þar sem setjari tók við honum og setti hann upp í dálka í þar til gerðri setningartölvu. Að því loknu voru „spaltarnir“ keyrðir út á ljósnæman pappír og sendir til baka á stofuna – í leigubíl. Þar tók grafíski hönnuðurinn (þá auglýsingateiknarinn) við og klippti spaltann niður í fallega dálka og límdi upp textann á hreinteikninguna sína. Límið á bakhlið spaltans var raunar bráðið vax úr vaxvélinni sem minnst var á í upphafi. Þegar verkið var fullkomnað var hreinteikningin send í filmuvinnslu. Síðar sama dag eða daginn eftir barst á stofuna filma, eða raunar fjórar filmur, ein fyrir hvern prentlit í cmyk-litakerfinu, ef auglýsingin átti að vera í lit, annars færri filmur. Stofan bar ábyrgð á að koma filmunni á viðkomandi prentmiðil. Morgunblaðið var risinn á markaðnum með dýrasta auglýsingaplássið í krafti útbreiðslu og stærðar. Koma faxtækjanna sparaði stofunum mikinn leigubílakostnað því þá nægði að senda textana til setningar með faxi.

Upp úr 1990 héldu tölvur með teikniforritunum innreið sína og þá varð ekki aftur snúið. Prentfilmur hurfu eina nóttina og starfsheitið setjari er löngu horfið. Grafískir hönnuðir eru hinsvegar sprelllifandi, sem betur fer, og vönduð hönnun auglýsinga- og kynningarefnis nákvæmlega jafnmikilvæg nú eins og þá.
Byltinguna sem kom með internetinu er óþarfi að fjölyrða um en rétt að nefna samskiptabyltinguna sem kom í kjölfarið. Við tölum saman með hjálp snjallforrita og við sem eldri erum fögnum þeirri tækni að sjálfsögðu þó við tölum ekki sama „tungumál“ og yngri deildin. Sem dæmi má nefna að þumallinn sem við „eldri“ notum ótæpilega táknar annað og verra hjá yngra fólkinu. Hjá okkur merkir hann bara: „Flott, skil þig“, „vel gert“, „frábært, búin að þessu“ eða álíka. Þumallinn í huga yngri samfélagsmiðlanotenda þykir frekjulegur og stuðandi, merki fýlu og pirrings. Og að setja punkt á eftir setningu í samfélagsmiðlaspjalli er botninn sem má líkja við að berja í borðið til áherslu! Svo eru það öll hin táknin.
Já, já, krakkar mínir, ekki gleyma að slökkva á vaxvélinni.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, texta- og hugmyndasmiður síðan 1987.

Er þetta bara komið? Ráðstefna Jafnvægisvogar FKA

Ráðstefnan Rétt' upp hönd fór fram á Hilton Reykjavík Nordica í gær og var hún fyrsta skrefið í að setja af stað hreyfiaflsverkefnið Jafnvægisvogina. Markmið Jafnvægisvogarinnar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Að verkefninu standa, auk Félags kvenna í atvinnulífinu, við á Pipar\TBWA, Deloitte, Sjóvá, Morgunblaðið og Velferðarráðuneytið.
Í aðdraganda ráðstefnunnar framleiddum við myndband sem dregur upp stílfærða mynd af því hvernig staðan er á íslenskum vinnumarkaði.
Ráðstefnan var gríðarvel sótt en ráðstefnugestir hlýddu þar á fróðleg og kraftmikil erindi, hvetjandi ávörp frá bæði forsætisráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra og síðast en ekki síst kynningu á Jafnvægisvoginni sjálfri sem byggir á niðurstöðum úr mælingum og greiningum Deloitte á jafnréttisstöðu íslensks vinnumarkaðar. Rúsínan í pylsuendanum var svo undirskrift viljayfirlýsingar milli forstjóra yfir 50 fyrirtækja og stofnana annarsvegar og formanns FKA hinsvegar, um að vinna sameiginlega að settum markmiðum um að jafna hlut kynja í efstu lögum.
Mælaborð Jafnvægisvogarinnar, unnið af Deloitte, sýnir síðan á skýran hátt hver staðan er á jafnrétti á meðal stjórnenda í íslensku atvinnulífi á öllum stigum.

#allirkrakkar

Þegar Stígamót komu á okkar fund var þá þegar skipulagður fræðslu- og umræðuþáttur á RÚV þann 1. nóvember. Okkar verk var að móta herferðina, hugmyndafræðina og aðdragandann að sjónvarpsþættinum og úr varð herferðin #allirkrakkar sem sýnir börn að hættulegum leik, sem síðar endar með ósköpum. Sjálft hryggjarstykkið í vinnunni var myndbandið, en framleiðsla þess var sannarlega viðkvæmt ferli og krefjandi. Undir myndbandinu hljómar barnagælan Allir krakkar í nýjum búningi, flutt af Lay Low.

Ekki missa af fræðslu- og umræðuþættinum sem sýndur verður á RÚV í kvöld klukkan 20:40. Hægt er að styrkja verkefnið á allirkrakkar.is

Kryddaðir, mjúkir, litríkir og góðir drykkir

Þegar haustið skall á kynnti Te & Kaffi til leiks fjöldann allan af heitum drykkjum sem gleðja bragðlaukana. Hver drykkur á sinn stall í myndefninu sem einkennist af hlýjum og dökkum litum sem, líkt og drykkirnir, ylja í skammdeginu. Verkefnið var upphaf vetrarvertíðarinnar hjá Te & Kaffi, en framundan eru mörg skemmtileg verkefni, bæði á kaffihúsunum og í verslunum. Þar leika jólin auðvitað stórt hlutverk en einnig Micro Roast Vínbar sem Te & Kaffi opnaði í Granda Mathöll fyrr á þessu ári.

Tilnefning til Google Premium Partner Awards

Pipar\TBWA og The Engine eru vottaðir „premium“ samstarfsaðilar Google, eða Google Premium Partner. Á dögunum tókum við þátt í stórri Google-ráðstefnu í Dublin þar sem saman var kominn rjóminn af þeim stofum í Evrópu sem sérhæfir sig í stafrænni markaðssetningu. Þar fór einnig fram verðlaunaafhending fyrir það sem upp úr stóð á árinu, en The Engine átti þar tilnefningu í verðlaunaflokki sem kallast Display Innovation Awards.

Guðmundur Pálsson framkvæmdastjóri og Elvar Páll Sigurðsson, ráðgjafi í stafrænni markaðssetningu, sóttu ráðstefnuna fyrir okkar hönd. Verðlaunin féllu reyndar ekki okkur í skaut að þessu sinni en það er engu að síður mikill heiður að fá þessa tilnefningu og að fá tækifæri til að sitja meðal þeirra bestu í Evrópu á þessu sviði, ein íslenskra markaðssetningarfyrirtækja.

Á ráðstefnunni voru kynntar spennandi nýjungar sem framundan eru hjá Google, en þær munu nýtast okkar viðskiptavinum afar vel. Breytingarnar munu hinsvegar ekki líta dagsins ljós fyrr en 2019 og þurftum við því að undirrita þagnareið. Þangað til eru varir okkar „síld“, eins og maðurinn sagði.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.