Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#113
7/11/2019
Heimsókn til Facebook í Dublin
Ný vefsíða fyrir Hótel Húsafell
Þekking er 20 ára
Hrekkjavakan á Pizza hut
Pipar\TBWA fékk viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar
Eru bara allir orðnir vegan?
Heimsókn til Facebook í Dublin

Á dögunum heimsótti Hreggviður Magnússon, ráðgjafi hjá The Engine, höfuðstöðvar Facebook á Írlandi. Þar tók á móti honum Axel Strelow, fulltrúi okkar Íslendinga hjá Facebook en hann er formlegur tengiliður The Engine. Eins og áður hefur komið fram hér er The Engine eina fyrirtækið á Íslandi sem er með vottun frá Facebook (Facebook Marketing Partner) og veitir Facebook The Engine formlegan stuðning til að ná árangri fyrir hönd viðskiptavina sinna. Facebook er nokkurs konar „brautarstöð“ eða vettvangur með 13 mismunandi auglýsingapláss og má þar nefna Facebook, Instagram og Messenger svo dæmi séu tekin. Styrkleikar þessara rýma gagnvart einstökum markhópum eru mjög breytilegir. Þess vegna er mjög mikilvægt að þekkja hegðun markhópanna vel til að rata um þessa brautarstöð og ná til markhópsins nákvæmlega þar sem hann heldur sig svo auglýsingafé sé ekki eytt að óþörfu.

Að sögn Hreggviðs fannst honum eitt hið markverðasta í heimsókninni vera staðfesting á því sem við vissum að árangur herferða á Facebook byggir að stórum hluta (56%) á áhugaverðum myndböndum byggðum á góðum hugmyndum. Það er mannlegi þátturinn sem öllu máli skiptir til að ná í gegn. Jafnframt blasir við sú staðreynd að gæði myndbanda á Facebook er afskaplega misjafn.
Sérstaða okkar er ekki einungis sú mikla þekking sem teymið okkar býr yfir heldur jafnframt það aðgengi sem við höfum að sérfræðingum Facebook í Dublin og tölfræðigögnum sem aðeins eru aðgengilegar fyrir vottaða samstarfsaðila.

Ný vefsíða fyrir Hótel Húsafell

Í síðustu viku fór í loftið ný vefsíða fyrir Hótel Húsafell á íslensku og ensku, sem alfarið er unnin hér á Pipar\TBWA. Verkefnið var í stuttu máli að breyta á sem hagkvæmastan hátt hótelsíðu í allsherjarsíðu fyrir svæðið allt en mikið er af spennandi afþreyingu í boði í nágrenni Húsafells.
Eldri vefsíður voru til fyrir bæði hótelið og svæðið en mikil vinna fór í að skilgreina uppbyggingu þeirra og umferð, sameina það besta af báðum, endurhanna útlit og lausnir, gera upplýsingar og bókunarkerfi sem skýrast og bæði viðmót og notendaupplifun sem allra besta.

Þekking er 20 ára

Þekking er fyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Skömmu fyrir jól 2018 fórum við í stefnumótunarvinnu með Þekkingu (Disruption). Í kjölfar þeirrar vinnu var merki og ásýnd fyrirtækisins uppfært ásamt tilheyrandi merkingum, pappírum og slíku og skipt um takt í auglýsinga- og kynningarefni. Þekking, sem er með starfsstöðvar bæði norðan og sunnan heiða, hélt glæsilega 20 ára afmælishátíð bæði á Akureyri og í Reykjavík. Boðskort og fleira fyrir afmælið var hannað í stíl við það sem hæst bar í upplýsingatæknigeiranum fyrir 20 árum, sjálfan 2000 vandann eða Y2K eins og það kallaðist utan landsteinanna. Við óskum Þekkingu hjartanlega til hamingju með afmælið.
Nánar

Hrekkjavakan á Pizza hut

Þessi auglýsing mætti Íslendingum að morgni hrekkjavöku í prentmiðlum og víða um internetið. Hvernig hljómar pizza með pepperoni og vígtönnum, matarboð sem snýst um að éta eða vera étinn? Við heyrðum sem betur fer ekki af neinum slysum á fólki en þetta hryllilega góða tilboð mæltist mjög vel fyrir. Hvernig ættum við svo að mæta fólki að ári? Með keðjusagarskornu áleggi?

Pipar\TBWA fékk viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Þann 5. nóvember síðastliðinn fór fram á Grand Hótel ráðstefnan Jafnrétti er ákvörðun, en það var Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni FKA, félags kvenna í atvinnulífinu, sem stóð að ráðstefnunni. Þar voru jafnframt veittar viðurkenningar Jafnvægisvogarinnar til sextán fyrirtækja og tveggja sveitarfélaga fyrir markvissa vinnu að kynjajafnvægi í yfirstjórnum. Pipar\TBWA var þeirra á meðal, en mörg undinfarin ár höfum við unnið mjög meðvitað að þessum málum bæði í stjórn félagsins og starfsmannamálum almennt. Það finnst okkur bæði sjálfsagt, eðlilegt og bráðnauðsynlegt.

Eru bara allir orðnir vegan?

Óneitanlega hefur farið töluvert fyrir umræðu að undanförnu um vegan mataræði, grænmetisfæði, ketó og lágkolvetnafæði. Umræðan er raunar töluvert hávær, svo mjög að ætla mætti að allir og amma þeirra séu komnir yfir í grænmetið og frændi þá í ketó eða kolvetnasnautt. Til að glöggva sig á því hvað er satt og rétt í þessu máli er gott að geta hallað sér að gögnum. Neyslukönnun Gallups er meðal þess sem fagaðilar hafa til að skoða hvernig neyslu landsmanna er háttað. Á vef Gallup birtist nýlega grein sem m.a. byggir á gögnum úr Neyslukönnuninni og fjallar einmitt um þetta. Í greininni kemur fram að 1% landsmanna er vegan, tæplega 3% landsmanna eru grænmetisætur. Og fyrir áhugasama þá eru um 7% á ketó- og lágkolvetnamataræði. Til að lesa úr gögnum þarf auðvitað að hafa aðgang að þeim og sérþekkingu þjálfaðs starfsfólks. Það er dýrt að gera mistök í markaðsmálum og hægt að koma í veg fyrir þau með því að lesa úr slíkum gögnum. Þó það sé sláandi tala að aðeins 1% landsmanna sé vegan þá er það staðreynd að þeim fjölgar sem kjósa að draga úr kjötneyslu og kunna vel að meta að geta valið fæðu án kjöts. Er það ekki markaðstækifæri?

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.