Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#101
4/10/2018
LINKEDIN KEMUR STERKT INN
Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur
Vefur fyrir 201 Smára vekur athygli
Stafræn stækkun Kringlunnar
Olís-deildin fær nýtt útlit
Krossmiðlun 2018 – Takk fyrir!
LINKEDIN KEMUR STERKT INN

Auglýsingar á samfélagsmiðlum hafa verið fyrirferðarmiklar á einstaklingsmarkaði síðustu ár. En hvaða miðill skyldi henta vel þegar fyrirtæki vilja beina auglýsingunum að öðrum fyrirtækjum (B2B marketing)? Svarið við því er klárlega: LinkedIn. Fjöldi notenda þess miðils hér á landi fer vaxandi og þeir koma aðallega úr viðskiptaumhverfinu. Af hverju ættu fyrirtæki að nota LinkedIn frekar en aðra miðla í B2B til að kynna vörur sínar og þjónustu? Miðillinn býður upp á fjölmarga möguleika til að ná til ákveðins markhóps. Þær breytur sem hægt er að velja markhópinn út frá eru t.d. starfstitill, heiti fyrirtækis, hópar út frá áhugamálum, hæfileikar einstaklings og menntun. Einnig býður LinkedIn upp á að búa til markhópa út frá samansöfnuðum listum af netföngum, símanúmerum og nöfnum.

Möguleikarnir til að koma skilaboðunum á framfæri með LinkedIn eru fjölbreyttir; til dæmis auglýsingafærslur með mynd eða myndbandi, auglýsingaskilaboð sem send eru beint í innhólfið hjá markhópnum eða stuttar textaauglýsingar. PayPal er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa nýtt sér þennan miðil á árangursríkan hátt. Áður keypti PayPal safn af gögnum frá utanaðkomandi aðilum sem mestmegnis sýndu fremur ónákvæmar sölutölur frekar en raunverulegar upplýsingar um notandann. LinkedIn gjörbreytti auglýsingaferli PayPal þar sem fyrirtækið þurfti ekki lengur á þessum fyrri gögnum að halda, heldur einungis nafn fyrirtækisins sem þau vildu ná til með auglýsingum sínum. Með þessu móti náðist umtalsverður sparnaður í söluferlinu og mikil söluaukning.

Selur fyrirtækið þitt vörur eða þjónustu til annarra fyrirtækja? Þá er tilvalið að geta náð beint til þeirra sem eru skráðir sem innkaupastjórar, viðburðastjórar eða í skipulagsnefndum fyrirtækja. Þar sem LinkedIn er ennþá tiltölulega lítið notaður miðill í auglýsingaskyni hérlendis er mikill möguleiki að ná til markhópsins fyrir heldur lægri upphæð en á öðrum miðlum – og á áhrifaríkari hátt.

Við hjá Pipar\TBWA höfum á síðustu árum sérhæft okkur í netmarkaðssetningu og birtingum á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Instagram, Twitter, LinkedIn og YouTube. Nýverið sameinaðist The Engine Pipar\TBWA og hefur fyrirtækið með því styrkt stöðu sína enn frekar á þessu sviði en The Engine býr yfir mikilli reynslu og þekkingu í greininni og hefur unnið með stórum viðskiptavinum hér heima og erlendis. Með sameiningunni höfum við því tök á að sinna enn fleiri, stærri og flóknari verkefnum fyrir viðskiptavini okkar hér á landi og erlendis.

Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur

Í síðustu viku settum við í loftið nýja herferð með íslenskri landsnefnd UN Women, en samtökin beita sér gegn ofbeldi í garð kvenna um allan heim. Herferðin er undir merkjum HeForShe, en sú hreyfing innan samtakanna snýst um að draga karlmenn að borðinu því jafnrétti kynjanna og kynbundið ofbeldi er ekki einkamál kvenna.
Uppistaðan í herferðinni er kraftmikið en átakanlegt myndband byggt á þeirri meginhugmynd að kynbundið ofbeldi er nær en við höldum. Þar fengum við nokkra karlmenn til að lesa frásagnir kvenna af kynbundnu ofbeldi – en endirinn kom þeim á óvart. Og þau voru ófá tárin sem við þurftum að þerra við tökur og eftirvinnslu. Magnað verkefni sem sennilega líður aldrei úr minni þeirra sem að komu. Stærsta hetjan í öllu ferlinu er íslenska konan sem af aðdáunarverðu æðruleysi hlustaði á skelfilega sögu sína lesna upphátt tólf sinnum yfir daginn.
Á einum sólarhring höfðu áhorf og deilingar myndbandsins á samfélagsmiðlum farið langt fram úr væntingum og allir helstu fjölmiðlar landsins fjallað um herferðina. Um 173 þúsund manns höfðu séð það á Facebook og 4.200 manns deilt því, tæplega 30 þúsund höfðu séð það á Youtube og yfir 18 þúsund á Twitter.
Myndbandinu er svo fylgt eftir með veggpsjöldum, prent- og netauglýsingum þar sem karlmennirnir fordæma kynbundið ofbeldi í nafni allra kvenna. Yfir 5.000 manns hafa nú skrifað undir og fordæmt kynbundið ofbeldi á unwomen.is.
Þessar tölur sannfæra okkur um að efnið er sterkt og umræðan er heldur betur þörf.

Við hvetjum alla að fordæma kynbundið ofbeldi á unwomen.is

Verkefnið

Vefur fyrir 201 Smára vekur athygli

Um þessar mundir rís nýtt íbúðarhverfi fyrir ofan Smáralind sem hefur fengið nafnið 201 Smári. Hverfið er nútímalegt borgarhverfi í miðju höfuðborgarsvæðisins þar sem hugað er að snjöllum lausnum í hönnun og byggingu. Vefurinn fyrir hverfið var hannaður og forritaður hjá okkur og hefur nú þegar vakið athygli fyrir bæði útlit og viðmót.
Myndefni er nýtt í ríkum mæli á vefnum og honum er skipt upp með mismunandi flekum þar sem hver fleki hreyfist á mismunandi hraða, svo kölluð parallax áhrif eða sýndarhliðrun upp á hið ástkæra ylhýra.
Viðmótið er einstakt og gerir notendum síðunnar kleift að finna þá íbúð í hverfinu sem hentar þeim best með því að nota mismunandi síur eða með því að fletta í gegnum hæðirnar á byggingunni sem verið er að skoða.

Vefur 201 Smára

Stafræn stækkun Kringlunnar

Það eru spennandi tímar framundan hjá Kringlunni en áætlanir eru uppi um stækkun verslunarmiðstöðvarinnar, í þetta sinn í netheimum. Til að styðja við fyrirhugaða stækkun var útbúið myndband sem sýnir nokkra af möguleikum stafrænnar verslunarmiðstöðvar. Kringlan óskar svo eftir hugmyndum frá viðskiptavinum um hvaða lausnir, þjónusta og möguleikar eigi að vera í boði í stafrænni Kringlu. Við hvetjum auðvitað öll til að senda inn sínar hugmyndir á
kringlan-minarhugmyndir.is

Olís-deildin fær nýtt útlit

Olís-deildin fór af stað með látum í september. Mikill uppgangur hefur orðið í karla- og kvennahandboltanum undanfarið. Fyrir þessa leiktíð var ákveðið að gefa deildinni nýtt og ferskt útlit. Aðgerðin heppnaðist vel og útlit fyrir frábæran handboltavetur.
Verkefnið

Krossmiðlun 2018 – Takk fyrir!

Við héldum markaðsráðstefnuna Krossmiðlun í fjórða sinn þann 14. september síðastliðinn. Ráðstefnan er eitt af skemmtilegustu verkefnum ársins en í ár mættu um 350 manns á Grand Hótel Reykjavík til að hlýða á Baker Lambert, Global Data Director hjá TBWA\Worldwide, Sami Salmenkivi yfirmann stefnumótunar TBWA Worldwide, Sue B. Zimmerman frumkvöðul og Instagram-sérfræðing frá Boston, Eddu Blumenstein ráðgjafa í Omni Channel stefnumótun og okkar eigin Elvar Pál Sigurðsson sérfræðing í netmarkaðssetningu hjá Pipar\TBWA. Ráðstefnustjóri var Kristján Már Hauksson, netmarkaðssérfræðingur og eigandi The Engine, en eins og fram hefur komið sameinaðist fyrirtæki hans Pipar\TBWA nú nýlega.

Að ráðstefnu lokinni var boðið til fögnuðar í Kaaberhúsinu. Við viljum þakka öllum kærlega fyrir komuna, við hlökkum strax til Krossmiðlunar 2019.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.