Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#112
3/10/2019
Clio-gull lýsir upp hversdaginn
Landssöfnun á birkifræjum
Út í hut
Ef brífið er ekki skrýtið er eitthvað að
Krossmiðlun 2019
Clio-gull lýsir upp hversdaginn

Hreyfimyndin í hausnum á þessu fréttabréfi lýsir rútínunni, gráum hversdagsleikanum. Hversdeginum sem sjaldnast er grár, heldur einmitt þvert á móti. Hvað hversdaginn varðar hér á Pipar\TBWA þá bárust þær fréttir í upphafi síðasta mánaðar að stofan hefði unnið gullverðlaun CLIO fyrir „He for She“ herferð Íslandsdeildar UN Women „Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur“. Síðan liðu nokkrir dagar og á ný bárust þau tíðindi utan úr heimi að sama auglýsing hefði unnið silfurverðlaun í flokknum „Moving Image“ á CRESTA – The Creative Standards Organisation. Þar deilir hún m.a. sæti með víðfrægri auglýsingu sem Monika Lewinsky stóð að um uppnefni. Cresta er vel þekkt alþjóðleg auglýsingaverðlaunahátíð síðan 1993. Hversdagurinn okkar á stofunni var því býsna litríkur því til viðbótar þessu héldum við ráðstefnuna Krossmiðlun sjötta árið í röð.
CLIO verðlaunahátíðin er hins vegar hápunktur New York Advertising Week sem haldin er í New York í september ár hvert. Auglýsingavikan er sannkölluð auglýsingahátíð, vettvangur auglýsingafyrirtækja sem keppast um að sýna sig og sjá aðra með ráðstefnuhaldi og alls konar uppákomum. Þess má geta að Pipar\TBWA var einnig tilnefnd til glerljóns á Cannes auglýsingahátíðinni síðastliðið sumar fyrir þessa sömu auglýsingu.

En hvaða gildi skyldu svona verðlaun og tilnefningar á sviði sköpunar hafa til dæmis fyrir stofu eins og okkar? Formaður dómnefndar í Cresta Awards, sænski textasmiðurinn Anna Qvennerstedt, svarar reyndar þessari spurningu. „Mér finnst verðlaun í sköpun (creative awards) mikilvæg viðurkenning fyrir þrotlausa vinnu í þessari grein. Þau þjóna líka þeim tilgangi að hækka viðmiðið fyrir okkur öll. En um leið og þú hefur unnið til verðlauna ertu aftur á byrjunarreit og besta leiðin til að vinna fleiri verðlaun er að einbeita sér 100% að hverju einasta verkefni sem þér er fengið án þess að hugsa alltof mikið um verkefnið sem verðlaunað var árið áður.“ Fyrir þá sem langar að sækja sér innblástur og fróðleik um auglýsingar og markaðsmál er sjálfsagt að leita uppi vefsíður þessara verðlaunahátíða til að skoða það nýjasta sem er í gangi hverju sinni.

PS. CLIO gullstyttan er komin í hús. Okkur þykir hún fara ljómandi vel á íslenskum bakgrunni.

Landssöfnun á birkifræjum

Landgræðslan, Olís og Hekluskógar standa nú fyrir landssöfnun á birkifræjum. Söfnunin er liður í verkefni sem snýr að endurheimt birkiskóga, en þeir eru gríðarlega mikilvægur þáttur í uppgræðslu lands og kolefnisbindingu. Söfnun birkifræs er prýðileg fjölskylduskemmtun og frábær ástæða til að komast út og njóta fallegra haustdaga. Fræsöfnunarpoka má nálgast á Olísstöðvum og þangað er fræjum skilað. Veglegur vinningur í boði fyrir heppinn fræsafnara.

Nánar um verkefnið

Út í hut

Pizza Hut á sér langa sögu á Íslandi en stendur nú á tímamótum. Nýir eigendur hafa tekið við rekstrinum og vinna hörðum höndum að því að koma vörumerkinu inn á nýjar slóðir. Í því felst vitanlega að breyta áherslum í rekstrinum en ekki síður að huga að almennu viðmóti og þjónustu við viðskiptavini. Okkur hefur reynst sérlega skemmtilegt að vinna verkið með þeim og sameina þetta tvennt, hefð og þunga þessa alþjóðlega vörumerkis annars vegar og hugsun nýrra tíma hins vegar.

Efnið sem nú þegar hefur litið dagsins ljós er þó aðeins toppurinn á ísjakanum og stórra hluta að vænta. Svo stórra að það er út í Hut!

Ef brífið er ekki skrýtið er eitthvað að

Rob Schwartz forstjóri TBWA\Chiat\Day-stofunnar í New York heldur úti hlaðvarpinu The Disruptor Series hvar hann spjallar við fólk sem kemur að faginu úr öllum áttum. Í nýlegum þætti var gestur hans Rich Siegel, orðlagður texta- og hugmyndasmiður þar sem þungamiðja viðtalsins er nýútkomin bók eftir hann sem ber titilinn Mr. Siegel Writes to Washington. Bókin inniheldur 53 bréf sem Siegel sendi til allra sitjandi öldungardeildarþingmanna Bandaríkjanna úr röðum Repúblikana sem og varaforseta landsins. Verkið var gríðarlega umfangsmikið og ekki alveg gott að setja fingurinn á það hver hinn eiginlegi tilgangur var en í það minnsta er óhætt að segja að Siegel hafi ekki lagt í verkið vegna aðdáunar á þessum nýju pennavinum. Bókin er drepfyndin, segir hlutina hreint út, hlífir engum og nýtur gríðarlegra vinsælda. Og kannski var það tilgangurinn, vinsældirnar sjálfar.

Í viðtalinu fara þeir um víðan völl. Rich Siegel er ákafur talsmaður þess að standa út úr fjöldanum hvert sem litið er. Hann vitnar meðal annars í þá kenningu að ef lýsing verksins sem leysa á hljómi ekki undarlega, ef hún er ekki á einhvern hátt skrýtin, þá hljóti eitthvað að vera að. Hvers vegna? Jú, ef ekkert kemur okkur á óvart við úrlausn verkefnis, hönnun þess og smíði er afar ólíklegt að væntanlegir viðskiptavinir verði upprifnir eða að þeir staldri við og hlusti. Og ef enginn hlustar, hvernig ætlum við þá að ná árangri?

Við mælum heilshugar með hlaðvarpinu The Disruptor Series sem nálgast má á öllum helstu hlaðvarpsveitum alnetsis.

Krossmiðlun 2019

Fyrirlesarar á Krossmiðlun 13. september komu víða að og fluttu framúrskarandi fyrirlestra. Þeir ráðstefnugestir sem við spurðum álits voru sammála um að megininntak og boðskapur fyrirlestranna hefði einfaldlega verið: Be more human! Takk fyrir komuna á Krossmiðlun.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.