Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#122
1/10/2020
Hönnun og sjálfbærni. Á fordæmalausum tímum
Pizza Hut – Ástin er alls staðar
Umbúðir fyrir kaffihylkin frá Te & kaffi
Gróttubyggð
Stöðvum feluleikinn tilnefnd til Gerety-verðlauna
Balticbest – smáþjóðaleikar auglýsingagreinarinnar
Hönnun og sjálfbærni. Á fordæmalausum tímum

Hvernig er það, átti þessu „ástandi“ ekki að vera lokið um það bil núna? Er þetta ekki bara komið gott? En sennilega ættum við frekar að spyrja, hvað svo? Við teljum okkur vita að á endanum ljúki þessum blessaða faraldri. Við gerum það sem við erum vön að gera, t.d. að mæta í vinnunna, heima eða á vinnustaðinn, eða allt í bland eftir því hvernig og hvort það er „bylgja í gangi“. En það sem sjá má bæði hér og í löndum í kringum okkur er að fólk veltir því fyrir sér hvernig endurreisnin eftir faraldurinn verði, hvernig við sköpum ný störf. Á Iðnþingi SI nú í september var tónninn sleginn með lausnarorðinu: Nýsköpun. „Nýsköpun er leiðin fram á við“ var yfirskrift þingsins. Þetta málefni var reifað frá ýmsum hliðum og fjallað um mikilvægi nýrrar framleiðslu og frábærra hugmynda af ýmsu tagi og úrvinnslu þeirra.
Í Víðsjá á Rás 1, miðvikudaginn 30. september (en hlustun á Rás 1 hefur heldur styrkst frá árinu 2017, samkvæmt ferskum upplýsingum frá Pipar\MEDIA) var sagt frá stefnuræðu nýs framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen. Í stefnuræðunni sagði hún að umhverfisváin sem við stöndum frammi fyrir kalli á „breyttar áherslur í framleiðslu sem aftur kalli á nýja fagurfræði.“ Til þess hyggst hún setja á fót nýjan Bauhaus-skóla, gróskumiðstöð fyrir listamenn, vísindamenn og hugsuði til að koma saman og skapa eitthvað alveg nýtt. Þessi nýi Bauhaus-skóli verður hluti af stærra plani í að koma Evrópu á fætur á ný eftir kórónaveirufaraldurinn. Til að takast á við umhverfismálin þurfi Evrópa að stefna á sjálfbærni og „endurhugsa hvernig við komum fram við náttúruna, hvernig við framleiðum og neytum, búum og störfum, borðum og ferðumst á milli staða.“

Við verðum vissulega áþreifanlega vör við það hér heima líka að framleiðendur eru farnir að hugsa meira um náttúruna sem betur fer, t.d. hvað varðar umbúðir utan um neysluvörur.
Hinn nýi framkvæmdastjóri Evrópusambandsins virðist hafa skýra sýn á hversu mikilvægt hlutverk hönnuða og arkitekta er og verður í upprisunni. Það vekur bjartsýni. Þetta eru stórar hugmyndir en við erum alveg sammála henni um mikilvægi góðrar hönnunar.
Og eins og ávallt er vert að nefna að það felast alltaf tækifæri í erfiðu ástandi. Við erum fagfólk, okkar hlutverk er að koma auga á tækifærin og vanda til verka, jafnt í hönnun sem markaðssetningu.

Pizza Hut – Ástin er alls staðar

Með lækkandi sól þurfum við birtu og yl úr öðrum áttum. Pizza Hut hefur undanfarið straumlínulagað stefnu sína og viðmót. Þetta volduga vörumerki á sér langa sögu hér á landi sem gaman er að byggja á, en þó viljum við vitanlega ekki festast í grárri fortíð. Nú hefur litið ljós herferð sem byggir á ástinni, allskonar ást úr öllum áttum.

Í samvinnu við Skot Productions gerðum við sjónvarpsauglýsingu sem byggir á ástinni. Grafík og leikið efni tvinnast saman og benda á mikilvægi þess að taka eftir litlu hlutunum og fólkinu í kringum okkur. Guðný Rós Þórhallsdóttir leikstýrði ásamt því að koma að handritavinnu með okkur. Bernhard Kristinn tók ljósmyndir. Útkoman er auglýsingasería þvert á alla miðla, brosandi björt og fögur.

Tökum það með okkur inn í skammdegið. Ástin er alls staðar.

Umbúðir fyrir kaffihylkin frá Te & kaffi

Nýlega komu á markað hylki Te & kaffi fyrir hylkjavélar. Fyrir voru auðvitað kaffipokarnir, bæði með baunum og möluðu kaffi sem og kaffipúðar fyrir púðavélar. Umbúðirnar fyrir hylkin voru hönnuð hér á Pipar\TBWA. Þau eru nett og pökkunin sérlega haganleg fyrir utan að vera gullfalleg og aðlaðandi í búðarhillu. Vörunni var fádæma vel tekið og seldust birgðirnar upp á skömmum tíma. Þessar hylkjaumbúðir frá Te & kaffi eru alfarið úr endurvinnanlegum efnum, jafnt hylkin sem annað. Það er enda markmið hjá Te & kaffi að allar umbúðir utan um vörur fyrirtækisins séu úr endurvinnanlegum efnum og er það óðum að takast. Já, svo er alþjóðlegur kaffidagur í dag og í tilefni af því kemur Pumpkin Spice kaffidrykkurinn á kaffihúsin eins og síðasta haust.

Gróttubyggð

Fasteignaþróunarfélagið Landey ehf. vinnur nú að undirbúningi Gróttubyggðar, nýs íbúðahverfis nyrst á Seltjarnarnesi þar sem nú stendur iðnaðarhverfið við Bygggarða. Hönnun hverfisins er í vinnslu, en í þeirri vinnu verður leitast við að tengja byggingarnar og nærumhverfi þeirra náttúru svæðisins. Fyrsta skrefið í að kynna fyrirhugaðar framkvæmdir á þessu spennandi svæði var að velja hverfinu nafn og hanna merki og vefsíðu.

Stöðvum feluleikinn tilnefnd til Gerety-verðlauna

GeretyAwards er alþjóðleg auglýsingakeppni og nær til auglýsingageirans um allan heim. Tilnefningin er í flokki almannaheilla en herferðin Stöðvum feluleikinn var gerð fyrir UNICEF á Íslandi á síðasta ári í samstarfi við SKOT Productions. Dómnefndin í þessari keppni er eingöngu skipuð konum, sem er nýtt. Okkar eigin Selma Rut Þorsteinsdóttir er meðal dómara í lokahluta þessarar keppni. Á vefsíðu keppninnar segir að það sé markaðsleg staðreynd að um 80% allra kaupákvarðana í heiminum séu teknar af konum. Selma greinir frá því í viðtali nýlega að það sé alþjóðlegt vandamál að alltof fáar konur séu valdar til dómnefndarstarfa í auglýsingageiranum.
Keppnin er kennd við Frances Gerety, en hún var textasmiðurinn sem skapaði slagorðið víðfræga „A diamond is forever“.

Balticbest – smáþjóðaleikar auglýsingagreinarinnar

Það getur verið erfitt fyrir lítil fyrirtæki og markaðssvæði að taka þátt í stóru auglýsingakeppnunum eins og Cannes Lions og Clio. Það er kostnaðarsamt, auk þess sem alþjóðleg risafyrirtæki á borð við Apple og Nike og fleiri slík hafa yfir svo miklu fjármagni að ráða að þau geta gert hluti sem við, á okkar litla markaði, eigum yfirleitt ekki möguleika á.
Balticbest eru einskonar smáþjóðaleikar auglýsingagreinarinnar. Keppnin er eingöngu ætluð Evrópuríkjum með íbúafjölda undir 5 milljónum og er haldin í samvinnu við Epica Awards.
Björn Jónsson, hugmyndastjóri og hönnuður á Pipar\TBWA, var dómari í keppninni í ár en hún fór fram þann 26. ágúst sl. Í dómarastörfunum, sem fóru fram á Zoom, ríkti mikið gagnsæi. Stjórnandi fór yfir hvert verk fyrir sig, málin voru rædd og síðan lyftu dómarar spjaldi með einkunnum frá einum og upp í 10. Verðlaunaverk fóru síðan beint í Epica á kostnað keppninar. Við hvetjum íslenskt markaðsfólk til að kynna sér keppnina nánar hér.

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.