Fimmtudagur

FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL OG AUGLÝSINGAR
FRÉTTIR OG FRÓÐLEIKSMOLAR UM MARKAÐSMÁL
OG AUGLÝSINGAR
#111
5/9/2019
Fjölbreytt og spennandi krossmiðlun
Olís – kolefnisjöfnun
Íslatte – cold brew frá Te & kaffi
Hægvarp – róandi en um leið spennandi
Fjölbreytt og spennandi krossmiðlun

Dagskrá Krossmiðlunar 2019 liggur nú fyrir, en hún er vægast sagt spennandi. Þessi sívinsæla markaðsráðstefna verður haldin í sjötta sinn þann 13. september nk. á Grand Hótel Reykjavík. Tveir goðsagnakenndir markaðsmenn utan úr hinum stóra heimi munu deila með okkur visku sinni, en einnig munu þrír íslenskir fyrirlesarar með fjölbreyttan bakgrunn og víðtæka reynslu heiðra okkur með spennandi fyrirlestrum.

Aðalfyrirlesari verður John Hunt, Creative Chairman hjá TBWA\Worldwide, en hann er margverðlaunaður auglýsingagúrú, rithöfundur og leikskáld og var meðal annars maðurinn á bak við mest verðlaunuðu auglýsingherferð allra tíma. Starfsfvettvangur hans hefur verið jöfnum höndum í Suður-Afríku og Norður-Ameríku. Hunt vill meina að „lífið sé of stutt fyrir meðalmennsku“.

Mark Schaefer er einn virtasti samfélagsmiðla- og markaðssérfræðingur heims en hann kemur efni sínu og skoðunum frá sér á skemmtilegan og kröftugan hátt. Schaefer er jafnframt metsölurithöfundur, en nýjasta bók hans, Marketing Rebellion – The Most Human Company Wins, hefur hlotið fádæma góðar viðtökur. Þessi bók kom út nú í febrúar og hún fylgir með öllum miðum á Krossmiðlun.

Bylgja Pálsdóttir er markaðsstjóri og umsjónarmaður almannatengsla hjá Skaginn 3X, en hún nam markaðsfræði og tungumál við Portsmouth University. Skaginn 3X er eftirtektarvert fyrirtæki sem vinnur mikið á erlendum mörkuðum, ekki síst Noregi og Rússlandi, og hefur hlotið bæði Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Nýsköpunarverðlaun Íslands.

Ólafur Steinarsson hefur unnið í leikjaiðnaðinum í 7 ár, en rafíþróttir hafa rutt sér til rúms sem ný og áhugaverð leið til að ná til ákveðinna markhópa. Hjá CCP sá Ólafur um mót og beinar útsendingar fyrir EVE Online, m.a. frá Fanfest-hátíðinni. Hjá Riot Games í Dublin leiddi hann vöruþróun og nýja þjónustu í kringum League of Legends og þar leiddi hann einnig þróun mótavettvangs um alla Evrópu.

Stella Samúelsdóttir er framkvæmdastýra UN Women á Íslandi. Hún er mannfræðingur með menntun á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu, alþjóðasamskiptum og hagfræði. Hún hefur víðtæka starfsreynslu jafnt á sviði þróunarsamvinnu sem reksturs og viðskipta. Hún starfaði m.a. í fimm ár á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Malaví og seinna sem sérfræðingur hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, og kom þar m.a. að stofnun UN Women.

Jewells Chambers verður ráðstefnustjóri en hún stýrir stafrænni stefnumótun hjá Pipar\TBWA og dótturfyrirtæki þess, The Engine. Jewells sá um stefnumótun og efnismarkaðssetningu hjá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum í þrjú ár, en áður starfaði hún í New York m.a. hjá ClickZ Group & SES, Opal Summits, The Glass Hammer og The White House Project.

Ráðstefnur sem þessar eru afar hollur vettvangur fyrir allt áhugafólk um auglýsinga- og markaðsmál, enda kærkomið að líta upp úr hinni daglegu rútínu og sækja sér innblástur og nýja þekkingu frá áhugaverðu fólki. Við lofum fjölbreyttum og spennandi erindum. Og auðvitað partíi í lok dags.

Nánari upplýsingar og miðasala á krossmidlun.is

Olís – kolefnisjöfnun

Olís hefur kolefnisjafnað allan sinn rekstur og býður nú viðskiptavinum sínum að kolefnisjafna eldsneytisviðskiptin. Verkefnið er unnið í samvinnu við Landgræðsluna en félögin hafa áður átt í löngu og farsælu samstarfi og um árabil var Olís stærsti einstaki styrktaraðili landgræðslu á Íslandi.
Þeir viðskiptavinir Olís sem skrá sig fyrir kolefnisjöfnun gefa eftir tvær krónur af afslætti og Olís greiðir tvær krónur á móti. Fjórar krónur af hverjum lítra renna því til Landgræðslunnar í fjölbreytt og mikilvæg verkefni á sviði kolefnisbindingar, ýmist uppgræðslu lands, skógrækt eða endurheimt votlendis.
Saga Film framleiddi með okkur sjónvarpsauglýsinguna og Haukur Björgvinsson leikstýrði.

Íslatte – cold brew frá Te & kaffi

Þá er væntanlegur á markað nýr kaffidrykkur frá Te & Kaffi, sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Við höfum þurft að bíta í tunguna á okkur í ansi langan tíma því ekki höfum við viljað kjafta frá of snemma. Ímyndarvinna við þennan metnaðarfulla drykk og herferð honum samhliða hefur staðið í nokkra mánuði og afar stutt í að kælar landsmanna fyllist af kröftugum kaffidrykk sem búinn er til án nokkurra málamiðlana.

Meira getum við víst ekki sagt í bili en hlökkum gríðarlega til að geta leyst frá allri skjóðunni. Þangað til ætlum við að snurfusa vinnuna og höldum okkur vakandi með forréttindasmakki af hinu kynngimagnaða Íslatte.

Hægvarp – róandi en um leið spennandi

Í auglýsingum fyrir Opel Ampera-e frá Bílabúð Benna hefur mikilvægur sölupunktur frá framleiðanda verið sá að hann komist alla leið til Akureyrar á einni hleðslu. Þetta var sannreynt á dögunum þegar Ómar Ragnarsson og Siggi Hlö kepptu í hvor kæmist lengra á hleðslunni. Ökuferð þeirra var lýst í beinni sjö klukkustunda langri útsendingu af Vísi.is.
Valgeir Magnússon sat í Bílabúð Benna og fékk til sín gesti í sófann allan daginn sem skemmtu áhorfendum á meðan og fræddu m.a. um rafgeyma, endingu þeirra og hvað getur haft áhrif hana. Þess á milli var skipt á ökumennina tvo. Í stuttu máli þá var þetta bæði skemmtilegt og fræðandi – og róandi um leið en reyndar líka spennandi. Hægvarp – hver hefði trúað því?

Hvers vegna er fimmtudagur besti dagur vikunnar?
Hann er þægilega nálægur helginni og nógu fjarlægur mánudegi.
FIMMTUDAGUR er sendur til viðskiptavina og vina Pipars\TBWA.
Ég vil gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Fimmtudagur kemur alla jafna út fyrsta fimmtudag í mánuði
Takk fyrir að gerast áskrifandi að Fimmtudegi
Því miður kom upp villa. Vinsamlegast reyndu aftur síðar.