Pipar\MEDIA

Pipar\MEDIA hefur áralanga reynslu af birtingaþjónustu. Birtingaráðgjafarnir eru sérfræðingar sem búa yfir yfirgripsmikili tölfræðiþekkingu og eru snillingar í að rýna í gögn og stilla upp birtingaáætlunum. Við fylgjumst náið með íslenskum auglýsingamarkaði, fjölmiðlaneyslu, neytendahegðun og breytingum á hlutdeild auglýsingamarkaðsins. Við leitumst við að finna hvernig best er fyrir vörumerki að ná til sinna markhópa á sem hagkvæmastan hátt með æskilegu auglýsingaáreiti. Viðskiptavinir okkar sjá allar upplýsingar um birtingaáætlanir og auglýsingakaup í birtingakerfi sem er aðgengilegt auglýsendum á vefnum og í appi. Með birtingakerfinu geta viðskiptavinir haft fulla yfirsýn yfir sín birtingamál.

Pipar\MEDIA hefur á síðustu árum sérhæft sig í netmarkaðssetningu og birtingum á samfélagsmiðlum á borð við Facebook, Instagram, Twitter, Linkedin og Youtube. Þá sjáum við um uppsetningu og umsjón á leitarherferðum og vefborðum á Google Adwords. Það er einnig gríðarlega mikilvægt að heimasíðan komi upp í náttúrulegri leit á leitarvélum og við erum sérfræðingar í leitarvélabestun vefsíðna.

Pipar\MEDIA komst á lista CreditInfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki árið 2017.

Helstu hugtök

Dekkun (reach %)

Hversu margir í markhópnum hafa möguleika á að sjá eða heyra auglýsinguna a.m.k. einu sinni á birtingatímabilinu. Dekkun er mæld í prósentum – 50% dekkun þýðir að 50% einstaklinga í markhópnum hafi tækifæri til að sjá auglýsinguna.

Tíðni (frequency)

Hversu oft einstaklingar í markhópi hafa möguleika á að sjá auglýsinguna. Tíðnin 2 þýðir að einstaklingar í markhópi hafi tækifæri til að sjá auglýsinguna tvisvar sinnum á tímabilinu.

Snertiverð (Cost Per Thousand)

Hvað það kostar í krónum að ná í einn einstakling í markhópnum – þetta er reiknað út frá kostnaði birtingar og fjölda þeirra einstaklinga sem áætlað er að horfi/hlusti/lesi, út frá fjölmiðlarannsóknum. Snertiverðið hjálpar birtingaráðgjöfum að meta hversu hagkvæm hver birting er.

GRP (Gross Rating Point)

Margfeldi dekkunar og tíðni. GRP-gildi er notað til að meta áreiti – því hærra GRP-gildi, því meira er áreiti auglýsingar.

PPC (Pay Per Click)

Þá greiðir auglýsandi fyrir hvern smell sem auglýsingin fær. Þetta fyrirkomulag er á Facebook- og Google-auglýsingum.

Rannsóknir

Birtingadeildin hefur aðgang að ýmsum rannsóknum, neyslu- og lífsstílskönnunum sem nauðsynlegar eru til að byggja á greiningar, ráðgjöf og birtingaáætlanir.

Neyslu- og lífsstílskönnun Gallup er gerð einu sinni ári, en hún veitir t.d. upplýsingar um markhópa, þróun neyslu, helstu venjur og kauphegðun og þróun viðhorfa í samfélaginu.

Birtingadeildin styðst við tölulegar upplýsingar um áhorf, hlustun og lestur frá Gallup. Í þeim sjá birtingaráðgjafar hvaða sjónvarpsþættir eru vinsælastir á hverri stöð, hvenær dagsins er helst hlustað á útvarp og hver lestur dagblaða og tímarita er. Með þessi tól og tæki til hliðsjónar er hægt að vinna heilsteypta birtingaáætlun sem hámarkar nýtingu auglýsingafjár viðskiptavina okkar.

Fjölmiðakannanir Gallup

PPM-mælingar (Portable People Meter) eru mælingar á áhorfi og hlustun á ljósvakamiðla, sem síðan er hægt að greina eftir helstu bakgrunnsbreytum. Mælingin er mjög nákvæm og fer þannig fram að um 500 manns, á aldrinum 12–80 ára, ganga með lítil tæki á sér sem nema merki frá útvarps- og sjónvarpsstöðvum. Þessir mælar senda svo inn gögn á hverju kvöldi – við fáum því fersk gögn í hverri viku um áhorf – þar sem við getum reiknað út hversu hátt hlutfall er að horfa á hvaða þætti og hvernig sá hópur er samsettur.

Prentmælingar eru samfelld mæling yfir allt árið og niðurstöður eru gefnar út ársfjórðungslega.

Auglýsingamarkaðurinn

Auglýsingamarkaðurinn mælir í hverjum mánuði allar auglýsingar sem birtast í dagblöðum og sjónvarpi, sem getur nýst vel, t.d. til að fylgjast með samkeppnisaðilum og til að bera saman markaðshlutdeild.

Svæði viðskiptavina