15/1/2018

2007, taka tvö

Neyslu- og lífsstílskönnun Gallup (NLG) veitir okkur mikilvæga innsýn í neyslu, viðhorf og lífsstíl landsmanna á hverjum tíma fyrir sig og eins og gefur að skilja er þar margt forvitnilegt að finna – ef maður kann að leita.

Niðurstöður NLG tóku miklum breytingum við efnahagshrunið og mælikvarðar sýndu að þjóðin var að breyta um lífsstíl. Væntingavísitalan milli 2007 og 2008 gaf til dæmis vel til kynna að viðhorf fólks til framtíðarinnar var að versna og samhliða því dróst neysla á flestum munaðarvörum saman. Þessi þróun hélt áfram í eitt til tvö ár í viðbót þar til vísarnir fóru að færast upp aftur og nú er svo komið að niðurstöður NLG fyrir árið 2016, svipa mjög til þess sem þær voru árið 2007

Þetta kemur til dæmis berlega í ljós þegar orlof til útlanda eru skoðað. Fjöldinn náði hámarki 2007 en hrapaði svo 2008. Árið þar á eftir hóf ferðum aftur að fjölga og árið 2016 var fjöldinn sá sami og 2007. Sömu sögu er að segja um hlutfallið; 77% landsmanna fóru í frí til útlanda árið 2007. Það hlutfall var komið niður í 50% árið 2009 en stóð í 74% í fyrra. 

Önnur vísbending er bílakaup. Þegar spurt er um fyrirhuguð kaup hyggjast 42% kaupa sér bíl sem er rétt undir því hlutfalli sem mældist árið 2007 en ef það hlutfall er skoðað hverjir hyggjast kaupa sér nýjan bíl, þá er það mjög svipað og árið 2007 eða um 31%.

Og þá er stóra spurningin hvað mælarnir koma til með að sýna árið 2017. Verður þróunin svipuð? Hvaða væntingar höfum við til framtíðarinnar í lok árs með tilheyrandi áhrifum á neyslu og lífsstíl?Við munum fylgjast grannt með því. 

Til baka