15/1/2018

Árið 2017 í leitarorðum

Vinsælustu leitarorð Google eru eflaust einn nákvæmasti samfélagsrýnir sem völ er á, en þau endurspegla vel hugðarefni heimsbyggðarinnar hverju sinni. Ef við skoðum hvað stendur upp úr samkvæmt vinsælustu leitarorðunum árið 2017 verður til prýðilega upplýsandi annáll.

Langalgengasta leitarorðið var hvirfilbylurinn Irma en fast á hennar hæla fylgdu iPhone X og iPhone 8. Þá voru tónlistarmenn sem létust á árinu einnig skoðaðir mjög mikið og söngvararnir Chester Bennington og Tom Petty rötuðu inn á topp 10 listann. Della ársins var vafalaust þyrilsnældan sem fékk sitt sæti á topp 10 listanum ásamt hinni geysivinsælu en umdeildu Netflix þáttaröð 13 Reasons Why. Verðandi tengdadóttir bresku þjóðarinnar, Meghan Markle, var einnig örugg inn á listann.

Byltingin #metoo var áberandi á árinu og skaut dónakörlunum Harvey Weinstein, Matt Lauer og Kevin Spacey upp á topplistann yfir mest gúgluðu einstaklingana. Þá stóðu Norður-Kórea, skotárásin í Las Vegas og sólmyrkvinn og Bitcoin-æðið hæst í flokki heimsfrétta. „Hvernig kaupir maður Bitcoin?“ var vinsælasta spurningin en fólk var einnig að velta því fyrir sér hvernig það gæti horft á bardaga Floyd Mayweather og Connor McGregor og gert heimatilbúna þyrilsnældu.

Í flokki kvikmynda var fólk mest að fletta upp It, Wonder Woman, Beauty and the Beast, Logan og Justice League en hvað varðar tónlist voru það smellirnir Despacito, Shape of you, Perfect, Havana og Look what you made me do.

Gúglarar á Íslandi voru sjálfhverfir í ár en Iceland var vinsælasta uppflettiorðið á Google hérlendis. Þar á eftir kom Google, Reykjavik, translate og Facebook. Hvað fréttir varðar stóðu hæst orðin weather, news, visir, landsbanki og mbl. Að lokum er gaman að nefna að vinsælasta leitarorðið á Íslandi á aðfangadag var sous vide.

Nánar

Til baka