15/1/2018

Dottið úr tísku fyrir sólarlag?

Það er ekki óalgengt að auglýsingabransinn reyni að tengja við yngri kynslóðirnar. Það segir sig kannski sjálft að þetta gengur ekki alltaf enda oft kynslóðabil á milli ungs fólks og þeirra sem hafa unnið skrifstofustörf til lengri tíma. Nú líður tíminn svo hratt að það sem er talið töff einn daginn getur verið dottið úr tísku fyrir sólarlag. Þess utan er ‚töff' mjög afstætt hugtak og því getur verið ansi strembið að ná til ungmenna með auglýsingum. Ef við lítum aðeins yfir landslag „töffsins“ í Reykjavík í dag þá blasir mjög sérstakt hugarfar við; ákveðið skeytingarleysi, hálfkæringur eða jafnvel kæruleysi. Það er ekkert langt frá „James Dean skítsama-karakternum“ sem hefur í raun alltaf verið talinn kúl. 

Kaupmáttur ungmenna hefur aldrei verið meiri en á sama tíma keppast krakkar í grunnskólum landsins við að klæðast Bónus-peysum, gömlum Adidas-flíkum eða jafnvel heilli fatalínu úr bláum, endurunnum IKEA burðarpokum, eins og Inklaw, eitt yngsta tískumerki Íslands, kynnti um daginn. Þá blossar upp sú spurning hvort að fólk klæði sig á þennan hátt til þess að undirstrika það hugarfar að setja enga fyrirhöfn í klæðaburð; fullkomið áreynsluleysi og vera skítsama um tísku.

Sýndarmennskan sem sprakk með tilkomu samfélagsmiðla fer að líða undir lok og einlægnin virðist vera komin í tísku. Yngra fólk hefur alist upp með internetinu og er orðið ansi vant því verða stöðugt fyrir áreiti auglýsinga. Þessi hópur fólks gæti vel verið komið með nóg af að láta selja sér eitthvað og þráir e.t.v. að fyrirtæki tali við þau á sama plani. Með tilkomu samfélagsmiðla hefur aldrei verið auðveldara fyrir vörumerki að eiga í samskiptum við viðskiptavini sína. Liggur framtíð vörumerkja kannski í heiðarlegum samskiptum?

Til baka