15/1/2018

Hefur vörumerkið þitt einhverja þýðingu í hugum fólks?

Þrátt fyrir mikla umræðu undanfarin ár um mikilvægi efnismarkaðssetningar (e. content marketing) í hinu síbreytilega fjölmiðla- og markaðsumhverfi nútímans, virðast fá fyrirtæki ná að tileinka sér þessa tegund markaðssetningar.Efnismarkaðssetning snýst um að kafa dýpra og í rauninni finna ástæðuna fyrir því að fyrirtækið er yfir höfuð til. Af hverju gerum við það sem við gerum og á hvaða hátt bætum við líf eða starf viðskiptavina okkar? Ef við getum svarað því getum við fundið leið til að búa til efni og innihald sem skiptir markhópinn máli og hann hefur áhuga á. Á sama tíma glæðum við vörumerkið okkar þýðingu í huga fólks og það fer að skipta máli í lífi notenda. Að setja vörumerki og vörur fyrirtækis í áhugavert og aðlaðandi samhengi, á skemmtilegan og nýskapandi hátt, skilar sér alltaf með aukinni sölu og stærri markaðshlutdeild.

Samkvæmt greiningu* markaðsfyrirtækisins Havas Group á hvaða vörumerki hafa mesta þýðingu í huga fólks eru það tækni- og veffyrirtæki sem tróna á toppnum.

  1. Google, BNA
  2. Paypal, BNA
  3. WhatsApp, BNA
  4. YouTube, BNA
  5. Samsung, S-Kórea
  6. Mercedes Benz, Þýskaland
  7. Nivea, Þýskaland
  8. Microsoft, BNA
  9. Ikea, Svíþjóð
  10. Lego, Danmörk

Af hverju skiptir þetta máli?

Samkvæmt greiningu Havas væri fólki sama þótt 74% vörumerkjanna sem það notar hyrfu af markaði. 75% aðspurðra ætluðust til þess að vörumerki bættu líf þeirra á einhvern hátt en aðeins 40% sögðust finna fyrir því að vörumerkin stæðu undir þessum væntingum.

Þetta gefur vísbendingu um afar litla tryggð neytenda við vörumerki auk lítilla væntinga í garð vörumerkjanna. Því hljóta fyrirtæki að þurfa að komast að því af hverju fólki stendur á sama um sum vörumerki á meðan önnur hafa þýðingu fyrir það.

Í heimi þar sem stöðug framleiðsla og deilingar á efni eiga sér stað eru það þau vörumerki sem viðskiptavinir tengjast tilfinningaböndum sem munu lifa af. Greining Havas staðfestir þetta, en fyrirtækin sem hafa komist í flokkinn „Meaningful Brands“ hafa verið með 206% meiri ávöxtun en hlutabréfamarkaðurinn.

*Greiningin náði yfir 1.500 alþjóðleg vörumerki, 300.000 manns, 33 lönd og 15 mismunandi iðnaðargeira.

Til baka