15/10/2018

HM-áhrifin

Hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur heimsmeistarakeppnin í fótbolta haft áhrif á okkur öll þetta sumarið. Vinnustaðir efna til tippleikja innanhúss og gefa frí þegar Ísland keppir á skrifstofutíma. Útskriftir, brúðkaup og jarðarfarir hafa verið færðar til vegna leikja og verslanir skreyttar í fánalitunum keppast við að bjóða ýmsar vörur á HM-afslætti, jafnvel þó Ísland sé löngu dottið úr keppni. Það er eitthvað fallegt við viðburð sem fær fólk sem annars fylgist aldrei með íþróttum til að standa úti í rigningu og sjö stiga hita og horfa á strákana okkar spila.

Svona stórmót, og auðvitað þátttaka Íslands á því, breytir mjög fjölmiðlaneyslu og því getur verið til mikils að vinna fyrir auglýsendur sem vilja freista þess að ná til sem flestra. Leikurinn Argentína-Ísland var með 61,3% meðaláhorf sem er það mesta sem hefur mælst á íþróttaviðburð. Hlutdeild RÚV á þessum tíma var nánast 100% sem þýðir að allir sem voru að horfa á sjónvarp voru með stillt á RÚV.

Áhorfið á hina tvo leiki Íslands var einnig mjög hátt, 57,4% meðaláhorf var á leik Íslands gegn Nígeríu og 59,3% meðaláhorf var á Ísland-Króatía, sem er annað mesta áhorf sem mælst hefur á íþróttaviðburð. Fram að HM 2018 var metið 58,8% áhorf, en það var á leik Íslands og Englands á EM í fótbolta 2016.

Til samanburðar var meðaláhorf á opnunarleik Egyptalands og Rússlands 22%. Sá leikur sem hefur fengið minnsta áhorfið hingað til var svo leikur Kólumbíu gegn Senegal, en þar var meðaláhorfið 6,8% (Heimild: Gallup, 2018).

Margskonar skemmtileg verkefni voru unnin hjá okkur sem tengjast heimsmeistarakeppninni á einhvern hátt. Hér fyrir neðan segjum við frá hinum ótaktvísa Magnúsi Magnúsi Magnússyni, en meðal annarra HM-verkefna má nefna HM-tilboð Bakarameistarans, grillaðan bolta hjá Krónunni og hann Bjarki hjá Olís tók auðvitað víkingaklappið.

Til baka