15/1/2018

Horfst í augu við sýndarveruleikann

Árið 2016 markaði að margra mati upphaf á almennri notkun sýndarveruleikatækni. Google dreifði milljónum Cardboard gleraugna og leitarniðurstöður sýna að áhugi á sýndarveruleika (VR eða Virtual Reality) hefur aukist gríðarlega á undanförnum misserum.Flestir virðast sammála um að sýndarveruleikatæknin muni áður en langt um líður breyta nánast öllu í okkar lífi: allt frá því hvernig við eigum í daglegum samskiptum til almennrar dægrastyttingar, líkamsræktar, náms og svo því hvernig við sækjum upplýsingar og horfum á – eða upplifum – auglýsingar.

Kvikmyndir hafa hingað til verið sá miðill sem boðið hefur upp á áhrifamestu upplifunina á aðstæðum öðrum en okkar eigin en svo gæti gerst að með tilkomu sýndarveruleika muni þessi mörk á okkar aðstæðum og annarra mást út að miklu leyti. VR-kvikmyndatökuvélar á borð við Jump geta fangað minnstu smáatriði og hvert einasta sjónarhorn og í framtíðinni má gera ráð fyrir að tæknin verði orðin mun betri og handhægari. En hvað þýðir það fyrir almenning?Til dæmis má ímynda sér að innan fárra missera getum við greitt fyrir aðgang að stórtónleikum í Kórnum, á landsleik í Ástralíu, farið í leikhús eða sótt tískusýningar, án þess að fara út fyrir hússins dyr. Enn fremur má ímynda sér að ekki sé langt að bíða þess að sagt verði frá stórfréttum, stríðsátökum og öðrum heimsviðburðir með hjálp VR-tækni. Og þá hlýtur að koma að því að maður taki fæðingu barnanna sinna upp í VR, afmæli, fyrsta stefnumótið, brúðkaupið og svo framvegis. Upplifun okkar á samtímanum mun breytast en fortíðin taka algjörum stakkaskiptum þegar hægt verður að geyma minningar í sýndarveruleika.

Stór vörumerki á borð við Cadillac og BMW (sjá hér að neðan) hafa eðlilega gripið þessa tækni á lofti enda möguleikarnir sem tæknin býður uppá nánast óendanlega margir. En eins og með alla tækni og miðla verður að líta á VR sem verkfæri sem getur aðeins aukið eða styrkt upplifun neytandans ef efnið er áhugavert fyrir. Að nota sýndarveruleika sýndarveruleikans vegna, er innihaldslaus hugmyndafræði sem gæti reynst vöru eða vörumerki skaðleg. Og þá er betur heima setið ...

 

 

 
Til baka