15/1/2018

Hringleikahús stafrænnar markaðssetningar

Á þeirri upplýsingaöld sem við lifum er þráin eftir að vita af öllu nýju yfirþyrmandi – og við viljum vita það núna! Strax og undir eins! Í auglýsingalandi keppast vörumerki eins og skylmingaþrælar í hringleikhúsi upplýsingasöfnunar um að vera fyrst til að nýta það nýjasta í markaðssetningu sinni. 

Sumum gengur vel og sumum ekki, enda geta ekki allir verið fyrstir.

En með allri áherslunni sem lögð er á gagnasöfnun eigum við á hættu að tapa ákveðnu tilfinningalegu gildi. Sama hversu tölvustýrðar markaðsaðferðir við ráðumst í megum við aldrei gleyma því að í grunninn erum við manneskjur að tala við aðrar manneskjur. Í raun mætti færa rök fyrir því að nýlegt auglýsingaskilti á Lækjartorgi hafi verið búið til af einhverjum algóritma sem reiknaði út hvar flesta vegfarendur mætti finna á höfuðborgarsvæðinu og hvaða tungumál flestir þessara neytenda gátu skilið. Útkoman: Gríðarstór, ólöglegur innkaupapoki með enskri áletrun sem var fjarlægður tveimur dögum seinna.

Þrátt fyrir að tæknin geti hjálpað okkur að nálgast neytendur á ýmsa þá vegu sem við höfum aldrei getað áður þá þurfum við samt að passa okkur að reka þá ekki í réttir eins og kindur á haustin. Við verðum að bera virðingu fyrir þeim. Þetta skilja hvað best þeir markaðsmenn sem náð hafa lengst á sviðum tækninnar eins og aðalfyrirlesari á Krossmiðlun 2017, Rohit Thawani, en hann er yfir allri stafrænni stefnumótun og samfélagsmiðlamarkaðssetningu auglýsingastofunnar TBWA/Chiat/Day í Los Angeles. Í Hörpu, 15. september næstkomandi mun Thawani leiða okkur í gegnum það nýjasta í markaðssetningu á netinu en hann hefur áður unnið fyrir alþjóðleg vörumerki á borð við Apple, Coca-Cola, Netflix, Nissan o.fl.

Við erum öll stödd í hringleikhúsinu og þá er um að gera að vera fyrstur. Tryggðu þér miða á Krossmiðlun á harpa.is.

Til baka