15/1/2018

Hvað virkar og hvað ekki?

Á vefsíðu Thinkbox er sagt frá niðurstöðum nýlegrar rannsóknar þar sem áhrif sjónvarpsauglýsinga á langtímaminni áhorfenda var kannað. Meira en 200 sjónvarpsauglýsingar voru teknar fyrir og að minnsta kosti 50 þátttakendur horfðu á hverja auglýsingu á meðan að heilastarfsemi og virkni langtímaminnis (og þar af leiðandi móttækileiki þátttakenda fyrir skilaboðum auglýsinganna) var mæld. Í stuttu máli eru helstu niðurstöður rannsóknarinnar þessar:

Staðreyndir vs. tilfinningar

Auglýsingar sem hamra á staðreyndum og hlutlægum upplýsingum hafa síður áhrif á langtímaminni og móttækileika áhorfandans heldur en auglýsingar sem höfða til tilfinninga og skopskyns.

Varan/vörumerkið er ekki aukaleikari

Fái varan alvöru „hlutverk“ í sögunni eru meiri líkur á að neytandinn færi vöruna í langtímaminnið. Sé sagan hins vegar sögð þannig að hvaða vara sem er gæti komið í hennar stað minnka áhrif auglýsingarinnar verulega. Sé sagan sögð á hátt sem krefst athygli og greiningu (til dæmis óhefðbundnar klippingar) aukast áhrifin líka.

Maður er manns gaman

Auglýsingar sem snúast að einhverju leyti um mannleg samskipti; samtöl, væntumþykju o.s.frv. hafa áhrif á móttækileika áhorfandans. Áhugavert þykir hins vegar að frægt fólk virðist ekki hafa teljandi áhrif nema í þeim tilvikum þar sem fræg persóna flytur loka-söluskilaboð auglýsingarinnar, svokallað „call to action“.

Tónlist er ekki tilfallandi skraut

Vörumerki á borð við Levis, M&S og John Lewis reiða sig mikið á tónlist og það er vel þekkt að tónlist getur haft mikil áhrif á vinsældir auglýsinga. Hér skiptir hins vegar öllu að tónlistin eigi við myndefnið, bæði hvað texta og útsetningu varðar. Auglýsingar sem notuðu tónlist með ómarkvissum hætti drógu úr móttækileika áhorfandans og í einhverjum tilvikum var hún verri en engin.

Til baka