15/1/2018

Hvaða auglýsingar skora í ár?

New England Patriots og Atlanta Falcons eigast við í Super Bowl á sunnudaginn. Reiknað er með að um 100–110 milljónir Bandaríkjamanna komi til með að horfa á úrslitaleikinn í beinni útsendingu en þessi metfjöldi áhorfenda, breið aldurssamsetning og nokkuð jafnt kynjahlutfall laðar auglýsendur að. Eðlilega.

Það segir sína sögu um vaxandi vinsældir Super Bowl að árið 1967 kostaði auglýsingapláss í útsendingu um 37.500 dali en kostar 5 milljónir dala í dag (577 milljónir króna). Þegar framleiðslukostnaði auglýsingarinnar er bætt ofan á þá upphæð, er talan orðin svimandi há sem gefur vísbendingar um þann ávinning sem auglýsendur reikna með.

Áhyggjuröddum markaðssérfræðinga hefur þó fjölgað sem segja að birtingagjaldið sé orðið of hátt og að vörumerki hafi í einhverjum tilfellum ekki tekist að endurheimta kostnaðinn á sama fjárhagsári. Hvað sem því líður hefur auglýsingahluti Super Bowl öðlast sjálfstætt líf og eftirvæntingin fyrir auglýsingunum eykst með ári hverju.

Vörumerkin birta jafnan kynningarstiklur í aðdraganda leiksins og að honum loknum er auglýsingunum dreift og deilt á netinu. Í ár virðast flestir bíða spenntir eftir auglýsingum Snickers og Budweiser. Bjórrisinn hyggur á mikla sigra á árinu og auglýsingin er víst upptakturinn að metnaðarfullri markaðsherferð. Snickers mun hins vegar brjóta blað í sögu Super Bowl með auglýsingu í beinni útsendingu sem verður að teljast nokkuð hugrakkur leikur. 

Nokkur af þeim vörumerkjum sem auglýsa á Super Bowl í ár: Audi, Buick, Ford, Honda, Huyndai, Kia, Lexus, Mercedes-Benz, KFC, Skittles, Snickers, Wendy’s, Busch, Yellow Tail, Mr. Clean, Tiffany & Co., Intel.

Þess má geta að leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport og hefst kl. 22.30.

 
Til baka