31/10/2018

Hvor vanginn kemur betur út?

Staðalbúnaður á öllum árshátíðum og brúðkaupum þessa dagana er myndakassi þar sem hægt er að taka myndir af sér og deila á samfélagsmiðla. Sumir fara margar, margar ferðir í kassann. Þeim sem eldri eru finnst þetta hálfskrýtið. Sömuleiðis þetta með sjálfurnar og tilheyrandi kjánaprik. Nútímafólk veit einnig allt um það hvor vanginn kemur betur út á mynd og lætur ekki bjóða sér að pósa nema betri hliðin fái örugglega að njóta sín. En er þetta svo frábrugðið því sem var? Hafa ekki allir mest gaman af því að skoða myndir af sjálfum sér og sínum? 

Það er líka gaman að skoða myndir af þeim sem maður „þekkir“ og þar er fræga fólkið meðtalið. Aðrir koma manni lítið við. Maður verður einfaldlega að tengja. Þetta gildir líka um það að miðla upplýsingum um vöru og þjónustu. Skilaboðin verða að hitta. Og úr því við nefnum þjónustu, tölum þá aðeins um þjónustulund. Hana fá reyndar sárafáir í vöggugjöf. Margir geta að vísu tileinkað sér hana. Sumir eru raunar þannig gerðir að geta aldrei látið síma hringja út, opna fyrir manni dyr í ýmsum skilningi, ávallt boðnir og búnir öðrum til hjálpar. Þjónusta er grunnurinn í okkar starfi á auglýsingastofum, að leysa úr því hverju sinni að bera fram góðan rétt sem ilmar vel og lítur fallega út. Rétt sem höfðar til manns sem neytanda og kemur manni við á einhvern hátt. 

Til baka