15/1/2018

Innblásturinn kemur víða að

Árið er 2017 og í þessum bransa líkt og öðrum þarf sífellt meira til að skera sig frá fjöldanum. Til þess að koma sínu til skila þurfa verkefnin ekki aðeins að vera framúrskarandi góð heldur þarf að koma þeim til skila á máta sem fólk tekur eftir. 

Maður sem kallar sig Mr. Bingo er gott dæmi um þetta. Sá er um ræðir er illustrator og býr í London. Hann er dóni og hefur alla tíð verið afar grófur og yfirgengilegur í nálgun við verk sín. Árið 2011 fékk hann þá flugu í höfuðið að hann þyrfti að senda ókunnugri persónu grófa móðgun á póstkorti. Hann setti þessar vangaveltur á Twitter og lofaði fyrstu manneskjunni sem myndi svara umræddu póstkorti. Á innan við mínútu höfðu 50 manns svarað en aðeins einn maður að nafni Jonathan hlaut kortið sem Bingo skreytti með mynd af fótleggjum og eftirfarandi: „Fuck you Jonathan, fuck you and fuck your shit legs“. Örfáum dögum síðar hafði hann opnað þjónustu þar sem fólki bauðst að fá móðgun senda á póstkorti gegn borgun. Verkefnið, sem hlaut nafnið Hate Mail, var þó rekið með hléum því Mr. Bingo hafði engan veginn undan.

Nokkrum árum síðar var móðgunarkortunum safnað í bók og útgáfan fjármögnuð á Kickstarter. Mr. Bingo fór ekki troðnar slóðir við fjármögnunina heldur bjó hann til myndband þar sem hann rappaði málavöxtu. Myndbandið fór sem eldur í sinu og verkefnið náði lágmarki sínu margfalt.Hér má skoða umrætt myndband og fræðast meira um Hate Mail: www.kickstarter.com/projects/mrbingo/hate-mail-the-definitive-collection

Þótt við séum ekki öll Mr. Bingo ættum við öll að horfa inn á við og skoða hvaða möguleika við höfum á að gera skemmtilega hluti úr því sem við kunnum. Sumt getur verið stórt og annað minna, eitthvað getur skilað okkur peningum og annað gleði. Grafískur hönnuður hér á PIPAR\TBWA gladdist mjög þegar hann fékk póstkortabók Mr. Bingos að gjöf með hlýlegri áritun frá höfundinum eins og sjá má á myndinni með þessari frétt. Hressandi!

Til baka