29/8/2018

Instagram fær notendur til að taka þátt í efni

Nú í sumar var fjallað um samfélagsmiðla í tímaritinu Forbes. Þar voru dregnir fram nokkrir jákvæðir þættir við að nota Instagram í markaðssetningu en í umfjöllun tímaritsins var verið að bera Instagram saman við Facebook og Twitter. Í Bandaríkjunum eru um 33% internetnotenda á Instagram og 60% þeirra eru daglegir notendur, eða um 20% internetnotenda. Samkvæmt Neyslukönnun Gallup nota 29% Íslendinga Instagram daglega og 12% í viðbót vikulega. Alls nota rúm 50% landsmanna Instagram einhvern tímann.

Í umfjöllun Forbes er bent á að þeir sem nota Instagram taka 10 sinnum meira þátt í efninu sem þeir skoða (engagement) en þeir sem nota Facebook og 84 sinnum meira en þeir sem nota Twitter. Höfundar greinarinnar halda því raunar fram að Instagram sé sá samfélagsmiðill sem notendur taka virkastan þátt í. Í greininni er svo bent á fimm atriði sem þarf að hafa í huga til að ná árangri á Instagram.

Í fyrsta lagi er mælt með því að setja upp viðskiptaaðgang, svo kallaðan Business Account. Með því færðu aðgang að fleiri möguleikum í uppsetningu og auglýsingum auk þess að fá aðgang að öflugum greiningartólum.

Í öðru lagi er mikilvægt að nota myllumerki (hashtag). Þau hjálpa til við að auka athygli og að frekar er tekið eftir póstum sem settir eru inn. Mikilvægt er að frá upphafi sé mörkuð stefna sem ákvarðar hvaða myllumerki skuli vera notuð. Í þeirri stefnu er lykilatriði að nota myllumerki sem eru sérstök fyrir þitt vörumerki.

Áhersla á viðskiptavininn er næsta atriði sem nefnt er í greininni. Besta leiðin til að vaxa er að deila myndum frá fylgjendum þegar leyfi hefur verið veitt til þess. Það verður einnig að gæta þess að líka og skrifa athugasemdir við það sem fylgjendur gera. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að fylla flæðið af góðum myndum og myndböndum, þar sem viðskipavinurinn fær að vita meira um vörumerkið. Að síðustu mælir greinin með gjafaleikjum og keppnum á Instagram og telja að það geti verið árangursríkt þegar það er rétt gert.

Aðalatriðið við að byggja upp vinsælan Instagram-reikning er þó að líta ekki á markaðssetningu á samfélagsmiðlum sem eitthvað aukaatriði heldur setja vinnu í stefnumörkun hvað varðar innihald, bæði texta og myndefni og vinna með kosti miðilsins í stað þess að birta þar sama efni og er í birtingu á öðrum miðlum.

Til baka