15/10/2018

Krossmiðlun 2018

Markaðsráðstefnan Krossmiðlun verður haldin í fimmta sinn þann 14. september nk. á Grand Hótel Reykjavík, en hún er að þessu sinni helguð Creative Data – eða skapandi notkun gagna í markaðssetningu.

Allsstaðar er verið að safna gögnum. Þekkingin flýtur upp um alla veggi. Upplýsingar sem fyrirtæki og auglýsingastofur geta nálgast um viðskiptavini og í raun hvaðeina sem hugurinn girnist, eru alltumlykjandi. En erum við að nýta þessi gögn til gagns? Hvernig notum við gagnainnsæi á skapandi og árangursríkan hátt?

Aðalfyrirlesari verður Bandaríkjamaðurinn Baker Lambert, Global Data Director hjá TBWA\Worldwide, sem í daglegu starfi blandar saman gagnainnsæi, rökfræði og sköpunargáfu til að hraða á framtíðinni.

Lambert er „gagnanörd“ af guðs náð með gríðarlega fjölbreytta reynslu og mikla þekkingu á málefninu. Strax í háskóla hóf hann að aðstoða Omniture við þróun vef- og farsímagreininga, eyddi síðan áratug hjá ýmsum fyrirtækjum við þróun og fínstillingu allt frá flugmiðstöðvum til alþjóðlegra fjármálaforrita, en frá 2012 hefur hann unnið að fjölda árangursríkra herferða hjá TBWA, meðal annars fyrir Nissan, Airbnb, Gatorade, Adidas, Twitter og GoDaddy.

‍Lambert er ekki einhamur maður því í „frítíma“ sínum hefur hann einnig aðstoðað bæði Nasa og SpaceX í ýmsum verkefnum.

Finninn Sami Salmenkivi er yfirmaður stefnumótunar hjá TBWA á heimsvísu. Frumlegur hugsuður og framkvæmdamaður með yfirgripsmikla reynslu af öllum mögulegum hliðum viðskipta, markaðssetningar, samskipta og hönnunar, með sérhæfingu í hinu stafræna umhverfi. Og svo er hann heimildamyndagerðarmaður, neðansjávarljósmyndari og verðlaunarithöfundur svo fátt eitt sé nefnt.

Sue B. Zimmerman er samfélagsmiðlasérfræðingur frá Boston sem hefur sérhæft sig í að aðstoða fyrirtæki við markaðssetningu á Instagram. Hún er leiðandi á því sviði og gjarnan þekkt sem @TheInstagramExpert. Sue er öflugur frumkvöðull með 30 ára reynslu úr viðskiptum og hefur átt 18 fyrirtæki síðan hún hóf að selja handmálaðar hárspennur 13 ára. Instagram gjörbreytti öllum hennar viðskiptum.

Edda Blumenstein er ráðgjafi í Omni Channel stefnumótun, en ráðgjöf hennar og fræðsla snýr að tækifærum hinnar stafrænu byltingar í verslun og þjónustu. Hún hefur haldið fjölda námskeiða fyrir fyrirtæki um breytta kauphegðun neytenda í kjölfar fjórðu iðnbyltingarinnar. Omni Channel snýst um að setja þarfir og væntingar viðskiptavina í fyrsta sæti og skýra stefnu varðandi upplifun á kaupferli.

Okkar eigin Elvar Páll Sigurðsson er sérfræðingur og ráðgjafi í stafrænni markaðssetningu hér hjá Pipar\TBWA. Hann er jafnframt í forsvari fyrir DAN-deildina okkar, en DAN, eða Digital Arts Network, er alþjóðanet sérfræðinga TBWA í stafrænni markaðssetningu um allan heim.

Ráðstefnustjóri verður Nútímamaðurinn og sjónvarpsstjarnan Atli Fannar Bjarkason.

Við erum gríðarlega ánægð með að hafa náð saman þessum flotta hópi fyrirlesara og hlökkum til að eyða deginum með ráðstefnugestum á Grand Hóteli – og ekki síður í eftirspjallinu í hinu árlega Krossmiðlunarpartíi í Kaaberhúsinu.

Til baka