6/5/2019

Lífið er of stutt fyrir miðjumoð

John Hunt verður aðalfyrirlesari á Krossmiðlun 2019. Hann þjónar stöðu sem Creative Chairman hjá TBWA\Worldwide – en þá er ekki öll sagan sögð.

John Hunt er fæddur í Zambíu. Árið 1983 stofnuðu hann og félagar hans stofuna TBWA\Hunt\Lascaris undir einkunnarorðunum: Life's too short to be mediocre. Stofan er í dag í fararbroddi auglýsingastofa á heimsvísu og hefur hlotið viðurkenningar á borð við auglýsingastofa aldarinnar árið 2000 og auglýsingstofa áratugarins 2010, en það sama ár varð herferð fyrir dagblaðið The Zimbabwean að mest verðlaunuðu herferð allra tíma.

John tók ríkan og persónlegan þátt í kynningarstarfi og kosningabaráttu Nelson Mandela fyrir forsetakosningarnar 1993 og sýndi þannig fram á að auglýsingar geta svo sannarlega gert heiminn að betri stað. Eftirleikinn þekkja flestir. Suður-Afríka hafði á þessum tíma gengið gegnum afar erfiða tíma en í kjölfar hinna sögulegu kosninga mjakaði hið særða samfélag sér í átt að sátt og lýðræði.

Árið 2003 fluttist John til New York, tók þar við starfi sem Worldwide Creative Director og hélt áfram á lofti hugmyndafræði sinni: Snilldin liggur ekki í auglýsingunum sjálfum heldur í hugmyndunum að baki þeim. Við komuna til NY kom hann á fót Young Bloods-verkefninu en í því felst að fela ungu og óreyndu fólki erfið, krefjandi og raunveruleg verkefni, þvert á þá venju að láta starfsnema byrja á botninum. Pipar\TBWA setti sitt eigið Young Bloods-verkefni á laggirnar árið 2014 og út úr því komum við öll reynslunni ríkari.

2006 fluttist John aftur til Suður-Afríku og sinnir vinnu sinni fyrir TBWA\Worldwide að mestu frá Jóhannesarborg.

Hunt hefur setið í fjölmörgum nefndum og akademíum stærstu verðlaunahátíða heimsins, til að mynda sem formaður Cannes Film, Press & Outdoor Advertising Festival árið 2005. Til viðbótar hefur hann skrifað leikrit, bækur og fyrir sjónvarp. Hann var útnefndur sem leikskáld ársins í Suður-Afríku fyrir verk sitt Vid Alex, verk sem fordæmdi harkalega ritskoðun á tímum aðskilnaðaráranna og vakti gríðarlega athygli.

Við hvetjum allt áhugafólk um skapandi hugsun til að lesa bók Hunt, The Art of the Idea: And How It Can Change Your Life. Sú lesning er fullkomin upphitun fyrir fyrirlesturinn hans á Krossmiðlun þann 13. september 2019.

Sjáumst!

Til baka