31/10/2018

mótorolía eða ilmkerti?

Ætli það hafi góð áhrif á mig að sjá fyrirtæki nefna komu lóunnar á samfélagsmiðlinum sínum? Líkar mér þá betur við fyrirtækið – að því gefnu að ég sé hrifinn af lóum?

Þegar framleiða á efni fyrir samfélagsmiðla er gott að hafa í huga hvers vegna fólk er á samfélagsmiðlum til að byrja með. Eðli þessara miðla er byggt á persónulegum samskiptum milli fólks og þar af leiðandi eru fyrirtæki ekki sérlega velkomin. Ekki sjálfkrafa í það minnsta. Fæstir af þeim sem sóttu Facebook í snjallsímann gerðu það til að lesa stöðuuppfærslur frá banka eða fyrirtæki sem selur útivistarfatnað.

Gott efni er samt alltaf í fullu gildi og ef eitthvað sem vörumerki birtir á sínum miðli hreyfir við neytandanum eða gerir daginn skemmtilegri þá er honum sennilega sama hvaðan gott kemur. Og að sama skapi er líklegt að lélegt efni sem hentar ekki tilefninu geti vakið neikvæð hughrif hjá neytandanum. Facebook-leikir eru vissulega ágæt leið til þess að vekja athygli á samfélagsmiðlum svo lengi sem leikurinn endurspeglar vörumerkið sjálft. En gosdrykkjaframleiðandi sem gefur fólki mótorolíu og tölvuframleiðandi sem splæsir ilmkertum eru á hálum ís.

Fólk notar snjallsímana sína til þess að sjá efni sem auðgar tilveruna. Þegar best lætur eru vörumerki „persónur“ með tón, fas, útlit og síðast en ekki síst rödd. Um leið og fyrirtækið hefur áttað sig á því hvernig vörumerkið á að tala við markhópinn er hægt að framleiða efni sem endurspeglar vörumerkið á samfélagsmiðlavænan hátt. Þá loksins hlýtur vörumerkið „leyfi“ frá markhópnum fyrir tilveru sinni á samfélagsmiðlum.

Vonandi.

Til baka