31/10/2018

Nýr Buster?

Verslunarkeðjan John Lewis átti vinsælustu jólaauglýsinguna árið 2016 ef marka má áhorfstölur frá YouTube. Reyndar náði þessi umrædda auglýsing ótrúlegum árangri, er vinsælasta auglýsing verslunarrisans frá upphafi og í fimmta sæti yfir þær auglýsingar sem flestir netnotendur hafa deilt, hvernig sem sú tala ku hafa verið reiknuð. Það skiptir auðvitað minnstu máli að það eina sem tengir viðfangsefnið beinlínis við John Lewis sé sú staðreynd að þar hljóta að fást trampólín því hann Buster er svo yfirmáta heillandi. Ef þú manst ekki eftir Buster, getur þú séð auglýsinguna með því að smella hér.

Herferðin studdist við krossfangið #BusterTheBoxer en í ár teflir John Lewis fram auglýsingu með krossfanginu #MozTheMonster. Hvort hún verður vinsælasta jólaauglýsingin á YouTube 2017 er enn óráðið en hún er engu að síður alveg ógurlega krúttleg.

Hvað sem því líður þá óskum við lesendum Fimmtudags gleðilegra jóla og gæfuríks nýs árs. 

 
Til baka