31/10/2018

Nýtt ár í nýjum litum 2018

Það er afskaplega spennandi ár framundan í auglýsingafaginu og það í kjölfarið á ári sem færði okkur fjölmargar nýjar áherslur, jafnvel sprengingar.
Ein slík sprengja var í notkun áhrifavalda en þeir voru mjög áberandi á sviðinu í fyrra. Nú er tími til að gera hlutina betur og markvissar. Við höfum öðlast reynslu, búin að læra og nú verður þetta spennandi. Samfélagsmiðlar eru að sjálfsögðu ekki nýir fyrir okkur, en nýjungarnar eru stöðugar og árangurinn sem hægt er að ná með réttum vinnubrögðum er ótrúlegur.

Ég held einnig að enn ein stóra sprengingin verði í sölu á netinu hér á Íslandi. Mjög spennandi vettvangur þar sem markmiðið er ávallt að ná í rétta hópinn með réttu vöruna á réttum tíma og við förum inn á þetta svið af fullum krafti. Hér skiptir grunnvinnan öllu máli og mikilvægt er að hafa réttu tæknina á valdi sínu. Og síðast en ekki síst að vinna rétt úr þeim gögnum og upplýsingum sem við höfum um viðskiptavininn og kauphegðun hans, því eins og allir vita er auðveldara að halda í viðskiptavini en að sækja nýja.

Ekki má samt gleyma því mikilvægasta í auglýsingum, en það er hugmyndin sjálf. Hugmyndin sem nýtir sér allar þessar flottu leiðir, skemmtilegu nýju miðlana og þessa gömlu góðu sem svo sannarlega standa fyrir sínu enn í dag. Ekki er nóg að hugmyndin skapi viðbrögð heldur þarf hún að vera innan þess ramma sem fyrirtækið eða varan hefur skapað – eða eins og við segjum gjarnan að vera „on brand“. Því það er alveg jafn mikilvægt nú og áður að byggja upp sterkt vörumerki hver sem leiðin að því er.

Gleðilegt nýtt auglýsingaár.
Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri

Til baka