15/1/2018

Ráðstefna: Framtíð auglýsinga í sýndarveruleika

Markaðsráðstefnan Krossmiðlun verður haldin þann 24. febrúar næstkomandi í Hörpu. Þetta er í þriðja sinn sem ráðstefnan fer fram en yfirskrift hennar í ár er Auglýsingar í sýndarveruleika: 360° sýn á framtíð markaðsefnis. Meðal fyrirlesara verða íslenskir og erlendir sérfræðingar á sviði sýndarveruleikatækni en aðalræðumaður ráðstefnunnar verður Joshua Hirsch, yfirmaður tæknilausna TBWA á heimsvísu.

Hirsch sem er með bakgrunn sem forritari, hefur verið nefndur af Adweek sem einn af 10 áhrifamestu tæknisérfræðingunum í auglýsingabransanum, en áður en hann hóf störf hjá TBWA stýrði hann tækniteymi hinnar þekktu auglýsingastofu Big Spaceship. Sú stofa þjónustaði vörumerki á borð við Nike, Wrigley, HBO, GE og hlaut margvísleg verðlaun. Þaðan lá leiðin til Publicis Kaplan og svo Deutsch LA áður en hann gekk til liðs við TBWA.

Áhugafólk um sýndarveruleika og möguleikana sem tæknin býður upp á í auglýsinga- og markaðsstarfi, ætti ekki að láta ráðstefnuna framhjá sér fara.

Til baka