2/11/2018

Reprómaster, vaxvél og rauðfólía

Vinna á auglýsingastofum var dáltið öðruvísi fyrir þrjátíu árum.
Reprómaster, vaxvél og rauðfólía voru mikilvæg tól í allri hönnunar- og umbrotsvinnu. Fyrsta verk á stofu að morgni var að kveikja á vaxvélinni. Fyrr var ekki óhætt að hella upp á kaffi. Grafískir hönnuðir notuðu teiknibretti og óstýriláta teiknipenna sem gjarnan vildu stíflast.
Fyrirsagnir voru nuddaðar af límstafaörk á dauft strik á karton sem var vandlega afstillt á teiknibrettinu svo línan yrði bein. Letur var valið með því að handskrifa heiti letursins, punktastærð og línubil á spássíu textans sem var vélritaður á pappír. Síðan var merkti textinn sendur í næstu prentsmiðju – með leigubíl – þar sem setjari tók við honum og setti hann upp í dálka í þar til gerðri setningartölvu. Að því loknu voru „spaltarnir“ keyrðir út á ljósnæman pappír og sendir til baka á stofuna – í leigubíl. Þar tók grafíski hönnuðurinn (þá auglýsingateiknarinn) við og klippti spaltann niður í fallega dálka og límdi upp textann á hreinteikninguna sína. Límið á bakhlið spaltans var raunar bráðið vax úr vaxvélinni sem minnst var á í upphafi. Þegar verkið var fullkomnað var hreinteikningin send í filmuvinnslu. Síðar sama dag eða daginn eftir barst á stofuna filma, eða raunar fjórar filmur, ein fyrir hvern prentlit í cmyk-litakerfinu, ef auglýsingin átti að vera í lit, annars færri filmur. Stofan bar ábyrgð á að koma filmunni á viðkomandi prentmiðil. Morgunblaðið var risinn á markaðnum með dýrasta auglýsingaplássið í krafti útbreiðslu og stærðar. Koma faxtækjanna sparaði stofunum mikinn leigubílakostnað því þá nægði að senda textana til setningar með faxi.

Upp úr 1990 héldu tölvur með teikniforritunum innreið sína og þá varð ekki aftur snúið. Prentfilmur hurfu eina nóttina og starfsheitið setjari er löngu horfið. Grafískir hönnuðir eru hinsvegar sprelllifandi, sem betur fer, og vönduð hönnun auglýsinga- og kynningarefnis nákvæmlega jafnmikilvæg nú eins og þá.
Byltinguna sem kom með internetinu er óþarfi að fjölyrða um en rétt að nefna samskiptabyltinguna sem kom í kjölfarið. Við tölum saman með hjálp snjallforrita og við sem eldri erum fögnum þeirri tækni að sjálfsögðu þó við tölum ekki sama „tungumál“ og yngri deildin. Sem dæmi má nefna að þumallinn sem við „eldri“ notum ótæpilega táknar annað og verra hjá yngra fólkinu. Hjá okkur merkir hann bara: „Flott, skil þig“, „vel gert“, „frábært, búin að þessu“ eða álíka. Þumallinn í huga yngri samfélagsmiðlanotenda þykir frekjulegur og stuðandi, merki fýlu og pirrings. Og að setja punkt á eftir setningu í samfélagsmiðlaspjalli er botninn sem má líkja við að berja í borðið til áherslu! Svo eru það öll hin táknin.
Já, já, krakkar mínir, ekki gleyma að slökkva á vaxvélinni.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, texta- og hugmyndasmiður síðan 1987.

Til baka