8/4/2019

Reykjavík Internet Marketing Conference

RIMC, eða Reykjavík Internet Marketing Conference, verður haldin í 16. sinn þann 5. apríl nk. á Grand Hótel Reykjavík. Sú fyrsta var haldin 2004 en The Engine hefur staðið að ráðstefnunni.

Áherslan verður sem fyrr á allt það nýjasta sem er að gerast í heimi netmarkaðssetningar og munu fyrirlesarar sýna okkur dæmi um hvernig þróunin hefur verið, hvernig netið hefur breytt vinnu þeirra, og um leið kynna okkur allt það nýjasta í heimi snjalltækja, samfélagsmiðla, leitarvéla og annarra stafrænna markaðsleiða.

Við eigum von á 9 frábærum og fjölbreyttum erindum, en aðalfyrirlesararnir fjórir koma frá Lego, Ikea, Google og Shopify.

Luis Navarrete Gómez er yfirmaður alþjóðlegrar leitarvélamarkaðssetningar hjá LEGO. Hann er þekktur fyrir afburða greiningarhæfileika og djúpan skilning á markaðshegðun á netinu og öllu því sem lýtur að stefnumótun í stafrænni markaðssetningu.

Hana Abaza er markaðsstjóri Shopify Plus og sér um fyrirtækjamarkað netverslunar- og hugbúnaðarrisans Shopify. Hún er allt í senn markaðsmanneskja, tækninörd og frumkvöðull sem elskar allt markaðsferlið, allt frá vöruþróun til markaðssetningar.

Krista Seiden er vörustjóri og greiningargúrú hjá Google. Hún er sannkallaður leiðtogi hins stafræna greiningariðnaðar, með áratug af reynslu í stafrænni markaðssetningu, greiningu og vörustjórnun. Hún hefur leitt greiningar og bestun hjá fyrirtækjum eins og Adobe, The Apollo Group, og nú síðast Google.

Arnoldo Cabrera er leiðtogi alþjóðlegrar leitarvélarbestunar hjá Ikea. Hann er reynslumikill sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu og leggur mikla áherslu á árangur sem skilar sér í gæðum til fyrirtækisins. Sérhæfing hans er á sviði leitarvélabestunar og leitarvélamarkaðssetningar.

Jon Myers er stofnandi og markaðsstjóri Ascending Media, en hann hefur unnið við stafræna markaðssetningu síðan 1997, m.a. hjá Latidude Digital Marketing, MediaVest, Starcom Mediavest, Aegis, Marin Software í Evrópu, Mið-Austurlönum og Afríku og DeepCrawl Global í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga, þar á meðal hlaut hann titilinn „UK Search Personality of the Year 2017“.

Craig Campbell hefur sérhæft sig í leitarvélabestun í 17 ár. Á þeim tíma hefur hann öðlast yfirgripsmikla þekkingu á málefninu og miðlað af mikilli reynslu í þeim geira, sem og öðrum sviðum stafrænnar markaðssetningar. Hann nálgast hlutina á skemmtilega hreinskilinn hátt, en hann hefur rekist á margan Svarta-Péturinn í vef- og markaðsiðnaðinum gegnum tíðina.

Samantha Noble er stofnandi Biddable Moments, en hún sérfræðingur í kostaðri umfjöllun (paid media) og hefur unnið í stafrænni markaðssetningu síðan snemma árs 2005, með áherslu á PPC (pay per click) sem hjálpar viðskiptavinum að auka tekjur sínar á netinu. Samantha stofnaði félagsskapinn Digital Females, sem nú telur um 750 meðlimi.

Andre Alpar er fjárfestir, raðfrumkvöðull og sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu og -stefnumótun með yfir 20 ára reynslu í faginu. Sérhæfing hans liggur í mælanlegri markaðssetningu, alþjóðlegri og fjöltyngdri leitarvélabestun, auk leitarvéla- og efnissmarkaðssetningar. Hann hefur verið í góðu skapi síðan 1976.

Aleyda Solis er ráðgjafi í alþjóðlegri leitarvélabestun og verðlaunarithöfundur. Hún rekur ráðgjafafyrirtækið Orainti og aðstoðar jafnt fjölþjóðleg stórfyrirtæki sem sprotafyrirtæki um allan heim að fóta sig í flóknu umhverfi hinna stafrænu miðla. Hún hlaut titilinn „European Search Personality of the Year 2018“ og þykir með athyglisverðustu netmarkaðsáhrifavalda heims.

Miðasala er hafin á rimc.is

Til baka